10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

Bréfaskipti forsætisráðherra Sovétríkjanna og Íslands

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að taka þátt í þeim almennu umræðum, sem hér hafa farið fram, enda var ég því miður ekki mættur í upphafi fundarins og missti af fyrstu ræðunum, sem hér voru fluttar. Út af fyrirspurn, sem hv. 1. þm. Reykv. beindi hér til mín um skipun nefndar samkvæmt ákvæði í samningnum, sem gerður var á milli ríkisstj. Íslands og ríkisstj. Bandaríkjanna í des. 1956 um endurskoðun varnarmálanna, vil ég hins vegar segja nokkur orð.

Þessi nefnd hefur þegar verið skipuð. Var gengið frá skipun hennar í nóvember-desember s. l. Á s. l. ári og til þessa hefur verið unnið að undirbúningi þeirra starfa, sem hún á að fjalla um, m. a. undirbúningi þess, með hverjum hætti og hvernig því verði bezt fyrir komið, að Íslendingar taki sjálfir í sínar hendur mest af þeim borgaralegu störfum, sem eru nú í höndum Bandaríkjamanna.