17.10.1957
Sameinað þing: 4. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

Sparifjármyndun

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Ég vil aðeins til frekari áréttingar benda á það, að þegar rætt hefur verið um innistæðuaukningu í bönkum og sparisjóðum og Landsbankinn hefur gert um það skýrslur til samanburðar á milli ára, þá hefur hann ævinlega í öllum sínum skýrslum tekið báða þessa þætti saman, enda er það vitanlega eini rétti samanburðurinn á þessu. Hitt er aðeins útúrsnúningur, að ætla að gera einhvern mun á því, þó að aukningin fari í einn tíma eitthvað meira fram í gegnum hlaupareikningsinnistæður, en í annan tíma eitthvað meira í gegnum sparisjóðsbækur. Ég hygg sem sagt, að það sýni þetta langgleggst, hvernig Landsbankinn hefur stillt þessu upp hverju sinni í sínum opinberu skýrslum, og sé eðlilegast vitanlega að halda sér við það form. Það hefur líka komið mjög glögglega í ljós við nánari athugun á því, að hér er alveg beint samband á milli, að það er svo beint samband á milli, að þegar nokkrir mánuðir eru bornir saman, þá hefur það komið fyrir, að sparisjóðsaukningin hefur þotið upp um 30 millj. kr., á sama tíma sem hlaupareikningsinnlögin lækkuðu um sömu tölu. Aðalatriði þessa máls eru því rétt, eins og hæstv. félmrh. skýrði frá þeim hér í útvarpsumræðum. Ég veitti því að vísu athygli, að hann hafði viðhaft þau orð, að bankainnistæður hefðu hækkað um svona mikið á árinu 1956, en svo aftur í seinni hluta setningarinnar, að sparifjárinnlögin á árinu 1957 hefðu aftur á móti hækkað svona mikið nú. En nákvæmara orðalag hefði að sjálfsögðu verið að segja bankainnistæðurnar eða innistæðuaukningin og nota sama orð í báðum tilfellum yfir nákvæmlega sambærilegan hlut í báðum tilfellum.

En auk þess liggur það svo ljóst fyrir, að þó að sparifjárinnlögin sjálf séu tekin til samanburðar, þá eru þau miklum mun hærri á þessu ári, en á árinu í fyrra. En munurinn er þó einnig mjög verulegur einmitt í sambandi við hlaupareikningsinnistæður, svo að ég tel, að það liggi mjög ljóst fyrir, að sá samanburður, sem hæstv. félmrh. hafði í útvarpsumræðum hér í gærkvöld, er réttur til þess að sýna það, hvernig er ástatt með aukningu á spöruðu fé á milli þessara tveggja ára.