17.10.1957
Sameinað þing: 4. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

Sparifjármyndun

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð út af þessu. Ég vil benda á, að það er hægt að gefa yfirlit um aukningu á innistæðum með ýmsu móti, bæði sundurliðað og ósundurliðað. Það er auðvitað stundum hægt að gefa upplýsingar um það, að innlög á sparisjóðsreikninga hafi aukizt svona og svona mikið og innlög á hlaupareikninga svona og svona mikið. Ég stóð bara upp til þess að segja, að þegar ég hef á undanförnum árum verið að reyna að gefa yfirlit um heildarsparnaðinn, þá hef ég ævinlega tekið þetta í einu lagi og það margoft hér á hv. Alþingi, þegar rætt hefur verið um, hvað heildarsparnaðurinn á einhverju tímabili hafi aukizt. Þá hef ég tekið þetta í einu lagi og hef álitið það algerlega eðlilegt og sjálfsagt. Hitt er svo auðvitað hægt að gera, að sundurliða nánar, og þá er greint, hvað aukningin er á hvorum fyrir sig, sparisjóðsreikningi og hlaupareikningi. Ég vil taka fram, að ég man ekkert eftir því, að það hafi nokkurn tíma verið gerð athugasemd við, að þessu hafi verið stillt upp í einu lagi sem heildarsparnaði.