17.10.1957
Sameinað þing: 4. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

Sparifjármyndun

Jóhann Hafstein:

Mér finnst, hæstv. forseti, alveg furðulegt, að hæstv. fjmrh. skuli koma hér og lýsa því yfir, að hann hafi aldrei og geri ekki neinn mun á því, hvort um sparifjármyndun á sparisjóðsinnistæðum er að ræða eða hlaupareikningsviðskiptum í bönkunum, og hafi alltaf blandað þessu saman, þegar hann hafi gert samanburð í þessu efni. En látum það liggja á milli hluta, hversu heilbrigð þessi skoðun hæstv. fjmrh. er. Aðalatriðið er það, að ef menn ætla að sýna eitthvað og segja þjóðinni eitthvað, þá eiga þeir að segja henni satt um það, hvað þeir eru að sýna. Og þegar menn tala um sparifjármyndun í landinu, þá hefur hvorki fyrr né síðar og ekki af þessum mönnum fyrr en þá nú verið einnig átt við innlög, vaxandi eða minnkandi innlög á hlaupareikningum.

En ég vil svo leiðrétta það, sem kom fram núna hjá hæstv. viðskmrh., að hann sagði, að enda þótt miðað væri við sparifjárinnlögin ein, þá væru þau miklum mun hærri í ár en í fyrra. Þetta segir ráðherrann núna. Þó liggur það fyrir, að sparifjárinnlögin eru í fyrra á fyrstu sjö mánuðum ársins 98 millj. 165 þús. kr. í bönkunum og í ár 60 millj. 607 þús. kr. í bönkunum, eða nærri 40 millj. kr. minni. En ef sparisjóðirnir eru teknir með, þá eru þeir nokkurn veginn jafnir, því að sparifjáraukningin er í sparisjóðunum á árinu 1956 fram til júlíloka 38 millj. kr. og á árinu 1957 fram til júlíloka 39.9 millj. kr. Það er þess vegna næstum því 40 millj. kr. minni sparifjáraukning á þessu ári. En samt segir hæstv. viðskmrh, nú hér rétt áðan, að ef væri bara miðað við sparifjárinnlögin ein, þá væru þau samt sem áður hærri í ár, en í fyrra.