17.10.1957
Sameinað þing: 4. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

Sparifjármyndun

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Mér kom það einkennilega fyrir sjónir eins og sjálfsagt mörgum öðrum, þegar hæstv. félmrh. nefndi í umræðunum í gærkvöld þessa háu tölu um myndun sparifjár í landinu s. l. 7 mánuði. Ég furðaði mig mjög á því, hvernig þessi tala var fengin, og þess vegna fagna ég því, að hæstv. viðskmrh. skuli nú hafa upplýst það, að talan er fengin á þann hátt að bæta við aukningu sparifjárinnstæðna, eins og sú tala hefur hingað til að jafnaði verið gerð upp, annarri tölu, sem ekkert hefur með sparifjárinnstæður að gera, nefnilega aukningu hlaupareikningsinnstæðna á sama tímabili. Það þarf nú e t. v. ekki að koma á óvart, þó að hæstv. ráðh. nefni þannig í útvarpsumræðum tölur, sem eru hreinar blekkingar. Hitt hefur komið mér dálítið meira á óvart í sambandi við þær umræður, sem hér hafa farið fram, og tel ég fulla ástæðu til þess að leiðrétta það, að það er vitnað í Landsbankaskýrslurnar þessu til stuðnings. Það mátti skilja jafnvel báða þá hæstv. ráðh., sem hér töluðu, þannig, að Landsbankinn væri nú farinn að gera þetta þannig upp, að það væri ekki gerður neinn munur á sparifjárinnstæðum og aukningu hlaupareikningsinnstæðna. Þetta er þá alger nýjung í skýrslugerð Landsbankans, ef þessu er svona varið, því að í þeim Landsbankaskýrslum, sem ég hef séð um þessi efni, hefur hingað til verið svo, að það hefur verið gerður mjög skýr munur á spariinnlánum, eins og það er kallað, annars vegar og veltiinnlánum hins vegar, enda er það augljóst mál, að þetta tvennt er alveg óskylt. Það er munur á því, hvort menn leggja peninga inn á sparisjóðsbækur til skemmri eða lengri tíma og fá af þeim sparifjárvexti, þar sem um fé er að ræða, sem gera má ráð fyrir að standi þar inni a. m. k. nokkurn tíma og í mörgum tilfellum tryggt, að það sé til alllangs tíma, eða þá hins vegar veltiinnlánum, sem aðallega eru þannig til komin, að það eru fyrirtæki, sem til bráðabirgða leggja peninga inn á reikninga sína í bönkunum, og oft er það þannig, eins og hv. 1. þm, Rang. hefur raunar þegar tekið fram, að aukning veltiinnlána stendur t. d. í sambandi við vandkvæði á því að yfirfæra gjaldeyri og þess háttar.