17.10.1957
Sameinað þing: 4. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

Sparifjármyndun

Ingólfur Jónsson:

Það er nú ekki þörf á því að fara mörgum orðum um það, sem hér er á dagskrá, frekar, því að ég held, að flestum sé alveg ljóst, að hæstv. ráðherrar geta ekki varið þann málstað eða þær tölur, sem þeir eru með. Og það er alveg tilgangslaust fyrir hæstv, viðskmrh. að vera að reyna að heimfæra þau orð til mín, að ég hafi talið, að það þyrfti að endurtaka það nógu oft, sem ég hélt fram, til þess að því yrði trúað, vegna þess að það, sem ég sagði, er byggt á staðreyndum, en það, sem hæstv. ráðh. segja, er á móti staðreyndunum og allt annað en það, sem hagstofan heldur fram, og að þeir leyfa sér að gera þetta, hlýtur að vera vegna þess, að þeir hafa trú á því að endurtaka ósannindin nógu oft, þá verði því trúað. Hitt er svo mikill misskilningur hjá hæstv. viðskmrh., að við sjálfstæðismenn getum ekki fagnað því, að nokkur sparifjáraukning er í landinu, að nokkur verðmætamyndun er í landinu. En það er ekki hægt að láta því ómótmælt, þegar hæstv. ráðh., ætla að fara að rugla saman og halda því fram, að innlög á hlaupareikningi, sem eru til orðin vegna þess, að gengið hefur verið á vörubirgðirnar, sem til eru í landinu, — ætla þá að halda því fram, að þessi innlög séu raunveruleg verðmætaaukning í þjóðarbúinu.

Það er kunnugt, að vörubirgðir, erlendar vörur, sem liggja í landinu nú, eru mun minni en á sama tíma í fyrra og að vörubirgðir hjá innflytjendum og öðrum verzlunum, eru að krónutali mun minni en þær voru áður. Það er þess vegna, sem nokkur innstæða hefur aukizt á hlaupareikningi þessara sömu fyrirtækja, sem hafa verið að selja upp gömlu birgðirnar, en ekki fengið að endurnýja þær. Og að ætla sér svo að reyna að halda því fram, að það sé verðmætaaukning í landinu, fjármagnsmyndun, að innflytjendurnir og þessar verzlanir geyma á hlaupareikningi nokkra innstæðu, af því að vörubirgðirnar hafa rýrnað, það er mikil fávizka, og það er tilgangslaust fyrir hæstv. ráðh. að reyna að telja fólki trú um það, að þetta sé raunveruleg fjármagnsmyndun. Eins og ég sagði áðan, er það ljóst, að sparifjármyndunin í landinu er það lítil, að hún stendur ekki undir nauðsynlegri uppbyggingu í þjóðfélaginu, og af þeim ástæðum er núv. hæstv. ríkisstj. alls staðar að leita að lánum, á meðan fyrrverandi ríkisstj. gat notað það innlenda fjármagn, sem skapaðist í landinu, til þess að standa undir öllum þeim framkvæmdum, sem þá var að unnið. Ég ætla, að þegar menn, sem eru að byggja og ráðast í aðrar nauðsynlegar framkvæmdir, fá hvergi lán, vegna þess að bankastjórarnir svara því til, að það séu engir peningar fyrir hendi, þá verði þær staðreyndir teknar miklu gildari en það fleipur, — ég leyfi mér að nota það orð, — sem hæstv. viðskmrh. var með hér áðan.