18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

73. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. — Í fyrsta lagi þetta: Ég held, að nú á seinni árum hafi ekki nema einu sinni komizt upp kosningasvik, sem var refsað með sektum og tugthúsi, það var hjá Sjálfstfl. í Norður-Ísafjarðarsýslu. Kosningin var að vísu tekin gild, því að þá var málið ekki enn upplýst, en eigi að síður var það Sjálfstæðisflokkurinn, sem beint falsaði atkvæði.

Ég sagði frá því, hvernig það hefði verið við síðustu kosningar í Norður-Múlasýslu hvað mig snerti, að ég hefði farið úr sýslunni fimmtudag fyrir kosningar. Það hef ég gert í þrjú skipti. Svo má hv. þm. N-Ísf, telja, að ég hafi verið á báðum stöðunum og verið andskoti duglegur að flytja menn á kjörstað, þegar ég var kominn suður í Reykjavík. (Forseti: Þetta er ekki þinglegt orðbragð.) Ég skal reyndar viðurkenna það, að það hefur komið fyrir mig tvisvar sinnum á ævinni, að ég hef verið tvífari, á tveim stöðum í einu, en þessa daga hef ég áreiðanlega ekki verið það samt sem áður. Það er alveg víst. Ég var hérna í Reykjavík þessa dagana, en ekki fyrir austan nema í og með í huganum.