23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (3067)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það hafi verið á síðasta fundi í Sþ., að ég hreyfði því, að nokkur mál, sem ég hefði borið fram, hefðu ekki fengið afgreiðslu í n. Hæstv. forseti tók þá, eins og hans var von og vísa, af alkunnri réttsýni vel í það að hlutast til um, að á þessu yrði ráðin bót, og þykir mér því rétt að vekja athygli hans á því nú, að ekki hefur um skipazt í þessum efnum. Vildi ég geta um þær till., sem hér skipta máli.

Það er í fyrsta lagi till. um að reisa myndastyttu af Ingólfi Arnarsyni á Noregi, sem var flutt af mér og ýmsum öðrum þm. Í öðru lagi skýrsla um Ungverjalandsmálið, sem er flutt af mér. Í þriðja lagi till. um menntaskólasetur í Skálholti, að kannað verði, hvort hagkvæmt muni að koma því þar upp, till. flutt af hv. 2. þm. Árn, og mér. Og loks till. um setningu löggjafar fyrir stjórnarráð Íslands, sem er flutt af mér.

Tvær af þessum till., þær er ég nefndi fyrst, liggja fyrir utanrmn. og hefur verið vísað þangað fyrir alllöngu. Báðar voru fluttar snemma á þinginu. Hin síðari fékk að vísu ekki meðferð hér í Sþ. fyrr en eftir áramót, að því er ég hygg, en þó hafa nokkrir mánuðir liðið, síðan málinu var vísað til utanrmn. Till. um Skálholt mun vera hjá allshn. og till. um stjórnarráðið í fjvn.

Ég vildi mjög eindregið fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann hlutaðist til um, að nefndir skiluðu áliti um þessar till., svo að þingheimi gæfist kostur á að ræða þær og taka afstöðu með þeim eða á móti. Mér er það vitanlega ljóst, að hæstv. forseti hefur ekki í hendi sér að hlutast til um, hvort menn verða með málinu eða á móti, en þm. eiga rétt á því, að mál þeirra fái þinglega afgreiðslu og verði hér tekin til ákvörðunar.

Í þessu sambandi þykir mér svo enn rétt að vekja athygli hæstv. forseta á því, að utanrmn. hefur ekki kosið þá undirnefnd til ráðuneytis hæstv. ríkisstj. í utanríkismálum, sem lagaskylda er til.