31.10.1957
Sameinað þing: 8. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

Minning látinna manna

forseti (EmJ):

Síðastliðna nótt lézt í sjúkrahúsi hér í bænum Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi, fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis, 71 árs að aldri. Vil ég leyfa mér að minnast hans nokkrum orðum.

Jón Sigurðsson fæddist á Kirkjubæjarklaustri á Síðu 18. febrúar 1886, sonur Sigurðar sýslumanns Ólafssonar og konu hans, Sigríðar Jónsdóttur umboðsmanns í Vík Jónssonar. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík árið 1906, stundaði síðan nám í norrænum fræðum við háskólann í Kaupmannahöfn, en hvarf brátt að öðrum störfum, var ritari í skrifstofu stjórnarráðs Íslands í Kaupmannahöfn 1909–1912 og fulltrúi sýslumannsins í Árnessýslu 1912–1915. Á árinu 1916 gerðist hann starfsmaður í skrifstofu Alþingis og vann þar um 40 ára skeið, var skrifstofustjóri frá 1921, en lét af þeim störfum sökum aldurs á miðju ári 1956.

Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi var góður starfsmaður, Hann var prúðmenni í framgöngu og rækti störf sín af frábærri vandvirkni. Eiga þingmenn honum margt að þakka, og ég ætla, að dómar starfsmanna þingsins um verkstjórn hans og samstarf séu mjög á einn veg. Hann var skáldmæltur vel, unni íslenzku máli, ritaði það af glöggri þekkingu og næmri fegurðartilfinningu og gat sér orð fyrir ágætar þýðingar erlendra skáldrita.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]