05.11.1957
Sameinað þing: 11. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (3084)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í þær almennu umræður, sem orðið hafa út af þessu máli. En í gerðabók frá fundi kjörbréfanefndar, sem haldinn var í dag, er það bókað, að fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni leggja til, að gerðar séu aths. út af tilefninu til þess, að varamaður er kallaður, en hins vegar hefur annar hluti nefndarinnar, hv. 1. landsk. og ég, bókað, að við teljum ekki ástæðu til þessa, og vísum í því sambandi til fyrri afgreiðslna í kjörbréfanefnd.

Það hefur verið venjulegt, þegar tekin hafa verið fyrir kjörbréf varamanna og þeir tekið sæti á Alþ., að þá hafa legið fyrir bréf frá þeim alþm., sem forfallaðir eru, um forföllin, og kjörbréfanefnd hefur yfirleitt ekki talið það í sínum verkahring að láta fara fram nánari rannsókn á tilefni forfallanna, hvort sem það eru utanfarir eða annað.

29. apríl þ. á. er t. d. tekið fyrir í kjörbréfanefnd kjörbréf varamanns í tilefni af því, að fyrir liggur bréf, þar sem skýrt er frá, að 7. landsk. þm., Guðmundur Í. Guðmundsson, hæstv. utanrrh., muni verða erlendis a. m. k. tvær næstu vikur, og þess óskað, að varamaður hans taki sæti hans á Alþingi. Í tilefni af þessu bréfi er kjörbréf varamannsins tekið fyrir.

Hér er annað dæmi frá 6. maí þ. á., þar sem tekið er fyrir kjörbréf varamanns í tilefni af því, að skýrt hefur verið frá því í bréfi, að 10. landsk. þm., Pétur Pétursson, sé á förum til Bandaríkjanna og muni dveljast þar næstu 4–5 vikur, og er þess óskað, að varamaður taki sæti.

20. maí þ. á. er tekið fyrir kjörbréf varamanns í tilefni af því, að hv. 9. landsk. þm., Ólafur Björnsson, getur samkvæmt bréfi ekki gegnt þingstörfum til næstu mánaðamóta vegna utanferðar og síðar prófa við Háskóla Íslands, og þess óskað, að varamaður hans taki sæti.

Þannig hefur borið að síðustu málin, sem til meðferðar hafa verið í kjörbréfanefndinni, að það hafa legið fyrir bréf frá forseta hlutaðeigandi deildar til forseta sameinaðs Alþingis, þar sem skýrt er frá því, að hlutaðeigandi þingmaður hafi ritað forseta og tilkynnt honum forföll, og í þessum tilfellum öllum eru forföllin utanfarir. Kjörbréfanefndin hefur ekki talið það í sínum verkahring að láta fram fara nánari rannsókn af þessu tilefni, og við hv. 1. landsk. getum ekki séð, að tilefni sé til frekari rannsóknar eða frekari athugasemda um þetta efni nú.