13.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (3088)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég verð nú fyrst að hreyfa því, að ég tel mjög miður fara, að slíkt atriði skuli ekki vera sett á dagskrá. Sá þm., sem hér á hlut að máli, mun vera farinn úr landi fyrir nokkru, og hefði ekkert verið hægara, en að setja þetta á dagskrá, úr því að átti að taka það fyrir. Auk þess skilst mér, að hér sé um nokkuð vandasamt lagalegt atriði að ræða, sem ef til vill þarfnast skoðunar. Ég hef ekki litið á málið, en hélt, að það væri öllum til hags, að komizt yrði hjá deilum um mál með því að veita mönnum einhvern fyrirvara til þess að átta sig á þeim, í stað þess að efna til illdeilna, sem ef til vill geta alveg fallið niður, ef mönnum gefst færi á því að skoða málið.

Ég þori ekki að segja, hvort kortér nægir til þess að átta sig á því, sem hér liggur fyrir, og vildi þess vegna mælast til þess, að það væri eitthvað rýmri tími til að átta síg á málinu og vita, hvort ekki er hægt að koma í veg fyrir, að nokkur ágreiningur verði um það.