13.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (3090)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hv. þm. Siglf. hefur það fram yfir mig, að hann hefur kynnt sér þetta mál, sem ég hef ekki haft færi til, og stöndum við því ójafnt að vígi í umr. En ég hafði ekki heyrt um, að þetta lægi hér fyrir, fyrr en hæstv. utanrrh. vék því að mér áðan, og ég hygg, að hann hafi auðsjáanlega séð, að mér kom málið þá algerlega á óvart, og hann sagði mér þá einmitt, að málið lægi ekki fyrir í sama formi og í fyrra, vegna þess að nú væri kjörbréfið byggt á þeirri löggjöf, sem sett var í fyrra, nýrri löggjöf, sem mikill ágreiningur var um, hvort réttmæt væri.

Það má vel vera, að sú löggjöf og fordæmið frá því í fyrra geri mögulegt að samþ. þetta alveg athugasemdalaust og án þess að nokkrar umr. þurfi að verða um það, en ég vil ætlast til þess, að menn fái nokkurt færi á að kynna sér málið og setja sig inn í það, vegna þess að viðhorfið er nýtt og annað en það var í fyrra. Og menn verða bæði að fá að kynna sér það, hvort það hefur áhrif á þeirra afstöðu, og svo bera ráð sín saman, eins og tíðkanlegt er hér á þingi, og það er ekki hægt að ná því hvoru tveggja eða réttara sagt þrennu að kynna sér lagastafinn, að halda nefndarfund og halda flokksfund allt á einu kortéri. Þess vegna, ef ætlunin er að koma málinu hér í gegn, þá verð ég að fara fram á meiri frest, en þann kortérsfrest, sem um er að ræða, og það er allt, sem ég fer fram á.

Ég set út af fyrir sig ekkert út á það, að málið sé tekið hér fyrir, en ég vil, vegna þess að hér er um að ræða nýtt viðhorf í máli, sem var mikið deilumál í fyrra, mælast til þess að fá frest, m. a. til að athuga, hvort ekki sé hægt að láta málið ganga alveg deilulaust í gegn nú, og hélt, að það ættu allir að hafa hag af því.