13.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það er vegna þess, að hv. 1. þm. Reykv. (BBen) vitnaði aðeins til mín í sambandi við þetta mál, sem ég hef kvatt mér hljóðs.

Það er rétt, að ég kom til þessa hv. þm. núna rétt áður en fundur var að byrja og skýrði honum frá því, að þetta mál væri á ferðinni, þó að það væri ekki á dagskrá. Ég tók það þá líka fram við hann, sem er rétt, að málið horfir talsvert öðruvísi við nú, en þegar þessi kjörbréf hafa verið hér á ferðinni áður, vegna þess að kjörbréfið hefur nú verið gefið út ágreiningslaust af öllum í yfirkjörstjórninni. Þannig hafa kjörbréfin ekki verið áður, þegar þessi ágreiningsmál hafa verið á ferð. Þannig virðist málið miklu auðveldara og einfaldara nú, en nokkru sinni fyrr, og fyndist mér því ætti að vera hægt að afgreiða það með samkomulagi og það fljótt og vel.

Hins vegar finnst mér sjálfsagt og vil eindregið taka undir það, að forseti verði við því að veita nokkru lengri frest, en eitt kortér til þess að athuga þetta bréf, því að það er trú mín og sannfæring, að það geti orðið samkomulag um að afgreiða þetta ágreiningslaust hér eins og í yfirkjörstjórninni, þegar málið hefur verið athugað, og ég vænti, að hálftími eða þrjú kortér eða eitthvað þess háttar mætti nægja, til þess að hægt væri að átta sig á málinu til fulls, og væri þá hægt að afgreiða bréfið að því loknu.