13.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (3094)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. kjörbréfanefndar, þm. Siglf. (ÁkJ), sagði, að kjörbréfanefnd varð sammála um að mæla með því, að þetta kjörbréf yrði samþ., þó með þeim fyrirvara af hálfu okkar sjálfstæðismanna í n., að við skírskotum til afstöðu okkar á síðasta þingi, þar sem mjög var deilt um bæði lögmæti kjörbréfs Eggerts Þorsteinssonar og eins samræmi þeirra laga, sem nú er vitnað til, við stjórnarskrána. En mál þetta var leitt til lykta á síðasta þingi með atkvæðum meiri hl. hv. þm. og úrskurði hæstv. forseta, og þó að við værum hvorugu samþykkir, þá teljum við, að úr því sem komið er, þá verði ein lög yfir alla að ganga, og meðan þessi lög eru í gildi, þá verði þeim að hlíta, og greiðum við því atkv. með kjörbréfinu.