21.02.1958
Sameinað þing: 29. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

forseti (EmJ) :

Áður en gengið verður til dagskrár, skal ég leyfa mér að lesa bréf, er mér hefur borizt frá hæstv. forseta Nd., svo hljóðandi:

„Mér hefur í dag borizt svo hljóðandi bréf frá Lúðvík Jósefssyni, 2. þm. S-M.:

„Þar sem ég er á förum til útlanda á vegum ríkisstj. og verð fjarverandi næstu 2–3 vikur, leyfi ég mér, með skírskotun til 144. gr. laga um kosningar til Alþingis, að óska þess, að varamaður minn, Helgi Seljan Friðriksson, taki sæti mitt á Alþingi á meðan.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt, með ósk um, að þér látið fram fara í sameinuðu Alþingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Einar Olgeirsson, forseti neðri deildar.“

Þá hefur mér einnig borizt frá forseta Nd. þetta bréf :

„Mér hefur í dag borizt svo hljóðandi bréf frá Guðmundi Í. Guðmundssyni, 7. landsk. þm.:

„Þar sem ég er á förum til útlanda á vegum ríkisstj. og verð fjarverandi næstu 2–3 vikur, leyfi ég mér, með skírskotun til 144. gr. laga um kosningar til Alþingis, að óska þess, að varamaður minn, Gunnlaugur Þórðarson, taki á meðan sæti mitt á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt. Einar Olgeirsson, forseti neðri deildar.“ Kjörbréf Gunnlaugs Þórðarsonar hefur áður verið samþ. hér á þinginu og þarf því ekki athugunar við, en kjörbréf Helga Seljans Friðrikssonar hefur ekki komið hér áður og verður því að athugast af kjörbréfanefnd. Kjörbréfið sjálft liggur ekki fyrir, heldur símskeyti frá Eskifirði, sem á að koma í þess stað.

Ég vildi þess vegna leyfa mér að gera hlé á fundinum litla stund og biðja hv. kjörbréfanefnd að koma saman og athuga símskeytið. — [Fundarhlé.]