04.06.1958
Sameinað þing: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (3158)

Þinglausnir

forseti (EmJ):

Hv. alþingismenn. Þetta þing er nú á enda. Raddir hafa heyrzt um það, að seta þess væri úr hófi löng, og vinnubrögð þess hafa verið gagnrýnd. Um allt slíkt má deila.

Þingið hefur setið 193 daga, eða 41 degi skemur, en síðasta þing, en þá er frá talið þinghlé, er gefið var frá 21. des. til 3. febr. Þetta þing hefur haft til meðferðar mörg gagnmerk mál og þýðingarmikil. Ég skal ekki fara út í að rekja þau hér, en eitt þeirra vildi ég þó mega nefna, þ. e. lögin um útflutningssjóð o. fl. Þó að menn kunni að greina á um lögin, eins og frá þeim hefur nú verið gengið, er hitt, að ég ætla, óumdeilt, að lausn þess vanda, sem þessum lögum er ætlað að leysa, er eitt hið þýðingarmesta og örlagaríkasta vandamál fyrir alla íslenzku þjóðina, sem nú er glímt við, og hefur raunar verið það um alllangt skeið. Veltur því á miklu, að þessu máli verði tekið með skilningi af þeim, sem við það eiga að búa, en það er raunar alþjóð. Ætlunin var, að frá þessu máli yrði gengið fyrr en varð, en vegna margra vandasamra atriða, er leysa þurfti í því sambandi, tókst það ekki fyrr en þetta. Er það kannske m. a. orsök í hinu langa þinghaldi. En það þarf út af fyrir sig ekki að undra, þó að þetta flókna og erfiða mál tæki mikinn tíma.

Ég vil svo þakka hv. þingmönnum öllum fyrir vinsamlegt samstarf, fyrir umburðarlyndi, sem þeir hafa sýnt mér, og fyrir hjálpsemi og fyrirgreiðslu, er ég hef notið af þeirra hálfu. Ég vil þakka skrifurum þingsins og öllu starfsfólki fyrir gott starf og ánægjulega samvinnu.

Utanbæjarþingmönnum vil ég óska góðrar heimferðar og heimkomu og öllum hv. þingmönnum velfarnaðar og blessunar og að við megum allir hittast heilli að hausti, þegar Alþingi tekur til starfa á ný.