28.04.1958
Neðri deild: 84. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (3163)

131. mál, samvinnufélög

Frsm. minni hl. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það virðist ætla að verða erfitt að fá hv. samvinnumenn til að skilja það, að tillag til varasjóðs hlutafélaga er byggt á allt öðrum forsendum en tillag til varasjóðs samvinnufélaga, og það byggist á því, eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, að samkvæmt lögum er sett kvöð á varasjóð samvinnufélaga. Allt öðru máli gegnir með það tillag, sem hlutafélögin leggja í sinn varasjóð. En kvöðin, sem lögð er á varasjóð samvinnufélaga, er sú, að þau eiga að greiða eftir ákveðnum reglum skatt til ríkissjóðs af því, sem greitt er í varasjóði. Fyrir hlutafélögin eru þetta hlunnindi. Þau þurfa ekki að greiða skatt af því, sem fer í varasjóði. Hins vegar greiða þau skatt af öllum öðrum tekjum. En samvinnufélögin leggja ýmist í frjálsa sjóði, stofnsjóði, eða úthluta fénu skattfrjálst til félagsmanna sinna. Hv. þm. V-Húnv. sagði: Hvers vegna eru ekki hlutafélög skylduð til að leggja 1% í varasjóð af viðskiptaveltu sinni? Já, ég mundi segja, ef ég ætti að velja: Ég vil gjarnan taka það hlutskipti að greiða 1% af veitu í varasjóð, ef allur annar hagnaður verður skattfrjáls, annaðhvort með því að leggja í stofnsjóð félagsins eða sem frjálst og skattfrjálst framlag til félagsmanna. Slíkur samanburður verður ekki hans máli til framdráttar.

Hv. þm. var að snupra menn fyrir það að ræða skattamál í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil nú spyrja hann: Undir hvaða málaflokk heyrir þetta frv., ef það er rangt málefnislega að ræða skattamál í sambandi við það? Greinar frv. fjalla allar um ákvæði í samvinnulögunum, sem varða skattgreiðslu samvinnufélaganna. Ef svo er, er þá rétt að segja, að það eigi ekki að ræða um skatta við þessa umræðu? En ég get vel skilið það, að hv. þm. vildi vera laus við allar umræður um skatta í sambandi við þetta frv. vegna þess málstaðar, sem hann berst fyrir.

Hann minntist á, að samvinnufélögin greiddu mikla skatta til bæjar- og sveitarsjóða. Það er rétt, þau greiða víst 2% af fasteignamati þeirra fasteigna, sem þau nota, og svo sveitarútsvar, að mig minnir, af hagnaði af verzlun við utanfélagsmenn. Það er ekki þetta, sem við erum að ræða um hér. Við erum að ræða um skatt til ríkissjóðs, til almenningsþarfa.

Hv. þm. hélt því fram, að ég hefði dregið í land frá því, sem stendur í nál., vegna þess að ég hefði sagt í minni fyrri ræðu, að frv. gerði félögin nálega skattfrjáls.

Ég get ekki séð, að það standi í nál. eða því sé haldið fram þar, að félögin séu alveg skattfrjáls. Í nál. stendur: „Verði frv. samþykkt, er sýnilegt, að samvinnufélögin geta komið sér hjá allri skattgreiðslu til ríkissjóðs nema af þeim óverulega hagnaði, sem stafar af viðskiptum utanfélagsmanna.“ Við höfum aldrei haldið öðru fram. Ég hef aldrei sagt, að þau yrðu alveg skattfrjáls. Þau eiga að borga skatt af þeim óverulega hagnaði, sem stafar af viðskiptum við utanfélagsmenn, þegar hagnaðurinn er talinn fram. Ef hann er ekki talinn fram, þá borga þau auðvitað engan skatt af honum.

Það er nú næsta broslegt að heyra því haldið fram af hverjum þm. eftir öðrum, að samvinnufélögin eigi að hafa sama rétt og önnur félög til þess að leggja í varasjóð. Hlutafélög mega leggja 20% af sínum tekjum í varasjóð og meira ekki, en ef þau leggja minna í varasjóð, þá borga þau hærri skatt. Samvinnufélögin verða að láta ákveðinn hundraðshluta af sinni veltu í varasjóð. Af því, sem þau leggja í varasjóðinn, eru 2/3 skattskyldir. Ef framlag þeirra til varasjóðs minnkar, þýðir það lægri skatt fyrir samvinnufélögin. Rökfærsla hv. þingmanna stangast því á við veruleikann.

Út af því, sem hv. þm. N–Þ. sagði einmitt í sambandi við varasjóðinn og ákvæðin, sem eru nú í lögum um hann, — og hann tók fram, eins og hann hefur áður tekið fram, að honum finnst óréttlátt að skylda samvinnufélögin til að leggja í varasjóð, — þá vil ég spyrja: Hvaðan kemur þá það fé, sem ætti að verða grundvöllur fyrir skattlagningu ríkissjóðs á félögin til almennra þarfa, ef félögin leggja ekki í varasjóði? Hvar á þá ríkissjóður að ná sínum skatti? Hann má ekki skattleggja stofnsjóðinn, og hann má ekki skattleggja greiðslur til félagsmanna af verzlun þeirra yfir árið. Hvar getur hann þá samkvæmt lögum fundið grundvöll til þess að leggja tekjuskatt á félögin? Við komum alltaf að sama svarinu: Það er varasjóður félaganna, sem er grundvöllurinn fyrir skattlagningu ríkissjóðs. Með því að setja það á vald félaganna, hversu mikið og hvort þau leggja í varasjóð, þá er um leið félögunum í sjálfsvald sett, hversu mikinn skatt þau greiða í ríkissjóð. Ég vil taka fram enn þá einu sinni, að það, sem ég ræði um, er fyrir utan þann óverulega hagnað, sem stafar af utanfélagsviðskiptum.

Hv. þm. sagði, að varasjóður eins félags gæti ekki haft nema eitt hlutverk, það að tryggja afkomu félaganna. En ég verð að segja: Því miður er þetta ekki rétt hvað samvinnufélögin snertir. Varasjóður samvinnufélaganna hefur tvenns konar hlutverk. Hann hefur þetta hlutverk, sem hv. þm. sagði, að tryggja afkomu þeirra, og það er hlutverk, sem varasjóðir hafa venjulega. Hann hefur og hitt hlutverkið, að segja til um, hvaða fjárhæð ríkissjóður getur skattlagt af tekjum þeirra. Þetta stafar af þeirri sérstöðu, sem samvinnufélögin hafa í íslenzkum skattalögum.

Hann sagði einnig: Varasjóðir, sem hafa það hlutverk að tryggja afkomu félaganna, eiga þess vegna ekki að vera skattstofn. — Ég er alveg á sama máli og hv. þm. að þessu leyti, en ég vil bara benda hv. þingmönnum á, að s.l. 5–8 ár hefur varasjóður hlutafélaga í landinu verið skattstofn, sem hefur verið þunglega skattlagður, — og af hverju? Af því að félögin hafa orðið að borga miklu hærri skatta, en tekjur þeirra námu. Og þegar tekjurnar hrökkva ekki til, þá er gripið til varasjóðsins. Flest hlutafélög í landinu í dag eða mjög mörg eru með öfugan höfuðstól, vegna þess að skattarnir hafa étið sig svo djúpt inn í varasjóði félaganna, að mörg félög hafa enga varasjóði lengur. Ég er alveg sammála hv. þm., að á þennan hátt á ekki að skattleggja félög. Ef samvinnufélögin hefðu eitthvað svipaðan grundvöll, mundi ég vera honum sammála. En þeirra grundvöllur var lagður fyrir mörgum árum, þegar samvinnulögin voru samþykkt, — lagður á allt annan hátt og með allt annað fyrir augum.

Ég held, að hv. þm. N-Þ, hafi spurt, hvort okkur, sem værum á móti þessu frv., fyndist þá, að ætti að skattleggja samvinnufélögin hærra í skattalögunum en gert er ráð fyrir í því frv., sem fyrir liggur. Það vakir alls ekki fyrir okkur. Fyrir okkur vakir, að samvinnufélögin haldi áfram að hafa tekjustofn, sem háður sé skattlagningu til ríkissjóðs. En okkur er alveg sama, hvort samvinnufélögin borga 8%, eins og nú er, eða 25%, eins og gert er ráð fyrir í frv., ef svo á frá málunum að ganga eins og með þessu frv., að félögin þurfi ekki að telja fram tekjur frekar, en þau vilja. Um það er deilt.