27.05.1958
Neðri deild: 105. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (3165)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Umr. hafa nú orðið allmiklar, sem eðlilegt er, um það verðbólgufrv., sem hér er til umræðu. Það virðist svo sem hæstv. ráðh. ætli ekki að hafa mörg orð við þessa 2. umr. frv., og þó er ekki gott að vita, þar sem hæstv. menntmrh. er nú setztur í sæti sitt. Það má nú ekki minna vera en hæstv. ráðh. séu við, þegar þetta alvarlega mál er rætt, og gefi skýringar á því, sem að er spurt, og reyni að afsaka afstöðu sína og hæstv. ríkisstj. til efnahagsmálanna í heild. En það er eðlilegt, að þeir finni til erfiðleikanna í þessu efni, og kannske vorkunnarmál, þótt þeir reyni að komast hjá því, því að vissulega er það erfiðleikum bundið fyrir hæstv. ríkisstj. að afsaka það frv., sem hér er til umr., og þær till. allar, sem í því felast.

Því er yfirlýst í grg. frv., að hér sé aðeins um bráðabirgðaúrræði að ræða. Því er yfirlýst, að það þurfi nýjar aðgerðir á komandi hausti. Þó er með þessu frv. gert ráð fyrir að leggja í nýjum sköttum 700–800 millj. á þjóðina. Það er þess vegna ekki undarlegt, þótt menn líti nú með allmiklum ugg til framtíðarinnar, þar sem 700–800 millj. kr. skattauki á þjóðina reiknast aðeins sem bráðabirgðapinkill, sem verði að bæta við eftir nokkra mánuði að áliti stjórnarherranna sjálfra.

Það er enginn vafi á því, að íslenzka þjóðin mundi vera fús til þess að taka á sig verulegar byrðar, ef um það væri að ræða að koma varanlegu ástandi á efnahagsmálin og atvinnulífið, ef um það væri að ræða að koma atvinnulífinu á öruggan og blómlegan grundvöll og koma jafnvægi á í þjóðarbúskapnum yfirleitt. Ég hef áður minnzt á verðhækkanir þær, sem eiga sér stað, eftir að þetta frv. hefur orðið að lögum. Og ég nefndi í ræðu, sem ég flutti hér um þetta mál, allmörg dæmi um verðhækkanirnar. Þessi dæmi, sem ekki gefa góða mynd af verðhækkununum, hafa farið í taugarnar á sumum blöðum, og hafa þau gert þessi reikningsdæmi að umtalsefni, afgreitt þau á ósköp einfaldan hátt og sagt, að það væri skakkt reiknað, án þess þó að færa orðum sínum stað. Það er aðeins sagt, að það sé skakkt reiknað, en engin dæmi nefnd. En því miður — verð ég að segja — er rétt reiknað, hækkanirnar verða svo gífurlegar sem ég nefndi í hinum mörgu dæmum mínum, álögurnar á allan almenning verða svo alvarlegar, að vart verður undir risið, og sérstaklega þá vegna þess, að von er á meiru samkvæmt boðskap hæstv. ríkisstj. Jafnvel þótt hinu almenna vöruverði sé sleppt og hækkun á því, þá er aðeins einn liður mjög tilfinnanlegur, sem allur almenningur, sem ekki býr við hitaveitu, verður að bæta á sig, það er kyndingarkostnaðurinn, en það mun vera frá 200 til 250 kr. á mánuði á meðalíbúð, þar sem olíuverðið á að hækka um 32%. Það er samkvæmt þessu frv. gert ráð fyrir, að hækkanirnar verði mestar á brýnustu nauðsynjum almennings, aftur á móti minni hækkanir á því, sem fram að þessu hefur verið kallað ónauðsynlegt. Það er þess vegna fyrst og fremst ráðizt á þann garðinn, sem helzt skyldi hlífa. Og það er þess vegna rétt, sem ég sagði í ræðu minni hér fyrr, að ríkisstj. hyggst gefa láglaunamönnum 200 kr. á mánuði með 5% uppbótinni, en taka aftur í hækkuðu vöruverði a.m.k. 600 kr. á mánuði af sama manni.

Það hefur verið talað um það, að landbúnaðurinn færi ekki varhluta af þessum hækkunum, og vitanlega kemur þetta þyngra niður á landbúnaðinum og bændunum, en öðrum vegna þess, hversu bændurnir, sem við framleiðslu fást, verða að verzla miklu meira, en búlausir menn. Eitt stjórnarblaðanna efaðist mjög mikið um það, að bændur færu illa út úr þessu, og reyndar fullyrti, að vegna þess að formaður Stéttarsambands bænda og tveir aðrir mætir menn hefðu gefið loðna yfirlýsingu fyrir hönd bændastéttarinnar, þá væri meira á því að byggja, en útreikningum mínum í sambandi við verðlag landbúnaðarafurða. En ég ætla að láta þetta undir dóm bændastéttarinnar sjálfrar, og ég ætla að hlíta þeim úrskurði alveg rólegur og tel þess vegna ekki þörf á því að hafa mörg orð í sambandi við fyrrnefnd skrif, því að ég veit, hvað bændurnir hugsa, hvað bændurnir tala núna, ég veit, að sá bóndi fyrirfinnst ekki, sem tekur málstað þess, sem nú er verið að gera.

Það hefur verið minnzt á það hér, hvers vegna mætti gera þetta, það væri nauðsynlegt, að landbúnaðarframleiðslan drægist eitthvað saman, það væri of mikið framleitt og það væri verið að flytja út landbúnaðarvörur fyrir mjög lágt verð. En hvernig var nú með mjólkurframleiðsluna s.l. ár? Hún var aðeins of mikil eða 5.6%. Það var framleitt 5.6% of mikið af mjólk og mjólkurvörum árið sem leið. En árið 1957 var gott framleiðsluár, sumarið óvenjulega gott og heyskapur mikill og framleiðslan þess vegna af mjólk og mjólkurvörum í bezta lagi, en í slíku árferði var framleiðslan eigi að síður ekki nema 5.6% of mikil. Nú er til þess ætlazt, að bændur framleiði nóg af mjólk og mjólkurvörum fyrir neytendur, og ég tel það nauðsynlegt. En hvernig er hægt að framleiða mátulega mikið af þessum vörum? Verður þetta ekki annaðhvort aðeins of mikið eða þá of lítið? Ég er sannfærður um það, að bændur vilja heldur framleiða aðeins of mikið, til þess að öruggt sé, að alltaf sé nóg af þessum ágætu vörum á markaðnum, heldur en að það sé of lítið á markaðnum, það sé mjólkurekla, smjörekla o.s.frv. Þá kvarta neytendurnir og það eðlilega, og það er nauðsynlegt fyrir þjóðarbúið, að það sé alltaf nóg á markaðnum af þessum ágætu og hollu vörum. En nú á með þessum aðgerðum að gera ráðstafanir til að draga úr framleiðslunni með því að hækka innfluttan áburð um 50%, með því að hækka fóðurbætinn um 43%. Það tekst vissulega að draga úr framleiðslunni með þessu móti, því að það er ekki gert ráð fyrir tekjuaukningu hjá bændum til þess að geta keypt jafnmikið af áburði og fóðurbæti á eftir. Það er gert ráð fyrir að hækka mjólkina 1. júní um 5%, og neytendur vitanlega fá að borga þessa hækkun. En hvað fá bændur mikið af henni? Ætli það verði ekki eitthvað líkt og það, sem þeir fengu af 7 aura hækkuninni 1. sept. s.l., en það eru þeir ekki farnir að sjá enn? Verður þá ekki útkoman sú, að bændur verða að láta sér nægja að kaupa 2 poka af áburði í staðinn fyrir 3 áður, 2 poka af fóðurbæti í staðinn fyrir 3 áður, og afleiðingin verður minni framleiðsla, ef til vill of lítið af mjólk og mjólkurvörum á markaðnum hér í Reykjavík og annars staðar í kaupstöðum. En það er ekki til hollustu eða uppbyggingar fyrir þjóðfélagið að stefna að því, það er röng stefna, og það er ranglát stefna, bæði gagnvart neytendum og bændum, og þess ber að minnast, hvað hefur verið prédikað á undanförnum árum, hvað bændum hefur verið sagt að gera undanfarin ár, hvað þeir hafa beinlínis verið hvattir til að gera af ráðamönnum þjóðarinnar, það er að auka ræktunina, það er að byggja upp peningshús, það er að kaupa vélar og annað slíkt, en þetta allt hefur kostað mikið fjármagn. Vegna þess að bændur hafa ráðizt í dýrar og miklar framkvæmdir, búa þeir nú við miklar skuldir, en þeir hafa reiknað með, að þeir gætu haldið framleiðslunni áfram. Þegar lánin voru tekin, var vitað, að það þurfti að borga vexti og afborganir af þeim, og bóndinn reiknaði út, að hann gæti staðið í skilum með því að hafa ákveðna bústærð, með því að framleiða svo og svo marga mjólkurlítra á ári. En ef stjórnarvöldin koma nú aftan að þessum mönnum og beinlínis kippa öllum stoðum undan áætlunum þeirra, þá verður útkoman sú, að þessir menn, sem fram til þessa hafa alltaf staðið í skilum og reiknuðu sitt dæmi rétt, þegar í framkvæmdina var ráðizt og til lántökunnar var stofnað, þá verða þeir vegna aðgerða hins opinbera, gerðir að vanskilamönnum, vegna þess að þeim er meinað að framleiða eins mikið og þeir höfðu áður reiknað með.

Ég hygg, að þeir, sem hafa kunnugleika á landbúnaði, eigi létt með að gera sér grein fyrir þessu og yfirleitt þeir, sem vilja hafa yfirsýn yfir atvinnulífið, þótt þeir séu búsettir við sjó. Þótt þeir stundi ekki landbúnað eða séu í snertingu við hann, þá hygg ég, að allir þeir eigi létt með að gera sér grein fyrir þessu. En það virðist svo sem íslenzkir bændur eigi ekki málsvara innan ríkisstj. að þessu sinni eða stjórnarflokkanna, og býst ég við, að bændur finni það nú, að breytt hefur um og að málstaður þeirra er ekki túlkaður meðal valdhafanna eins og stundum hefur áður verið gert.

Það hefur verið talað um, að sjávarútvegurinn væri undirstaðan að okkar efnahagslífi og það bæri að efla hann. Ekki skal ég draga úr því, að sjávarútvegurinn hefur mikið gildi fyrir þjóðarheildina. En um leið og það er viðurkennt, að sjávarútvegurinn er okkur mikils virði, þá vil ég, að menn hafi það í huga, að landbúnaðurinn leggur meira til þjóðarbúsins en aðeins það verðmæti, sem fæst fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir. Landbúnaðurinn leggur matvæli til þjóðarbúsins, sem eru mikils virði, og menn mega ekki gleyma því, að verðmæti landbúnaðarvaranna er ekki aðeins það, sem flutt er út, heldur einnig það, sem þjóðin notar í æ ríkari mæli og á að nota vegna hollustu þeirrar fæðu.

En við skulum ekki deila um það, að það þarf að byggja upp sjávarútveginn og að sjávarútvegurinn er og verður einn okkar aðalatvinnuvegur. Við skulum vera sammála um það, um leið og við viðurkennum réttmæti og gildi annars atvinnuvegar. Og ég vil í sambandi við sjávarútveginn og um leið og ég viðurkenni gildi hans staðfesta það, sem oft hefur verið sagt áður, að Sjálfstfl. hefur alltaf skilið þýðingu sjávarútvegsins, Sjálfstfl. hefur einnig alltaf skilið, hversu mikils virði það er, að landhelgin verði færð út, og enginn flokkur hefur barizt ötullegar eða betur fyrir útfærslu landhelginnar heldur en Sjálfstfl. Það er þess vegna mikið ómaklegt, þegar það birtist a.m.k. í einu stjórnarblaðanna ásökun á hendur Sjálfstfl. og beinlínis fullyrt, að Sjálfstfl. standi í vegi fyrir útfærslu landhelginnar. Slík fullyrðing er vitanlega alls ekki svaraverð, vegna þess að það hefur enginn flokkur á Íslandi haft meiri áhuga fyrir útfærslu landhelginnar en Sjálfstfl., og tel ég ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum að þessu sinni. Sjálfstfl. hefur ávallt haft áhuga fyrir uppbyggingu sjávarútvegsins, og í síðustu ríkisstj. var formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors, sjútvmrh. og beitti sér fyrir uppbyggingu sjávarútvegsins, byggingu frystihúsa og aukningu fiskiskipaflotans, enda þótt ekki væru þá keyptir togarar. Og ég vil minna á tölur og lesa aftur tölur, sem hv. 3. þm. Reykv. var hér með í sambandi við fjárfestinguna í sjávarútveginum, og þær tölur vitna eftirminnilega gegn núverandi hæstv. ríkisstj., en aftur á móti vitna þær með fyrrverandi ríkisstj.

1955 er fjárfesting í sjávarútvegi 91 millj. kr., 1956 146 millj. kr., en ráðstafanir til þeirrar fjárfestingar hafði fyrrv. ríkisstj. gert að öllu leyti. Það var þá, á því ári, sem bátar komu til landsins, en þeir bátar höfðu verið pantaðir á árunum 1954 og 1955. Núverandi hæstv. ríkisstj. getur þess vegna ekki stært sig af því, að fjárfesting í sjávarútvegi hafi aukizt á árinu 1956, því að það, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur gert í sambandi við fjárfestingu í sjávarútvegi, kemur tæplega fram að verulegu leyti fyrr, en á þessu ári. 1957 komu margir bátar til landsins, sem höfðu verið pantaðir í tíð fyrrv. ríkisstj., en þá er fjárfesting í sjávarútvegi 147 millj., sem er að vísu nokkru minna, en á árinu 1956, ef miðað er við þá verðhækkun, sem hefur orðið á innfluttum skipum, vélum og öðru slíku, sem sjávarútveginum tilheyrir. En kunnugir menn segja, að á árinu 1958 muni fjárfesting í sjávarútvegi verða mun minni, en á árunum 1956 og 1957. Þess vegna undrast ég ekki, þótt hv. 3. þm. Reykv., sem hefur alveg sérstakan áhuga fyrir eflingu sjávarútvegsins, sé óánægður með núverandi hæstv. ríkisstj., þar sem hún stefnir beinlínis aftur á bak í þessum málum, gengur til baka í staðinn fyrir að ganga áfram, enda kom fram hjá þessum hv. þm., að það hefur ekkert verið gert enn þá í togarakaupunum, en það er þó miklu nauðsynlegra nú, að gera ráðstafanir til þess að kaupa eitthvað af togurum, heldur en í tíð fyrrv. stjórnar, vegna þess að togararnir eldast, og það er vitanlega nauðsynlegt alltaf að gera ráðstafanir til endurnýjunar, ekki sízt eftir því sem árin líða og togararnir eldast. Það er líka réttari stefna í togaramálunum að kaupa 3–4 togara á ári til endurnýjunar, heldur en kannske 15–20 í einu og eðlileg og sjálfsögð fjármálastefna að selja elztu togarana, en endurnýja þá smátt og smátt.

Þáttur hæstv. ríkisstj. í sjávarútvegsmálunum. ætlar þá að verða anzi linur eins og í flestu öðru. En það stóð mikið til á því sviði, eða minnast hv. alþm. ekki margra slagorða og margra loforða í sambandi við uppbyggingu sjávarútvegsins? Ég tel mjög illa farið, að ekki skuli vera haldið áfram þeirri stefnu, sem fyrrv. ríkisstj. tók í sjávarútvegsmálum og uppbyggingu sjávarútvegsins. Ég tel mjög illa farið, að það skuli vera gengið aftur á bak í þessu efni og fjárfesting í sjávarútvegi skuli jafnvel lækka á þessu ári í krónutali, enda þótt verðhækkanir hafi orðið gífurlegar. Það hlýtur þó að vera eitt, sem við getum verið sammála um, og það er það, að atvinnuvegirnir mega ekki ganga saman. Þeir þurfa að aukast, þeir þurfa að eflast, og það þarf fjölbreyttara atvinnulíf í þessu þjóðfélagi, ef þjóðin á að geta lifað við slík lífskjör sem hún hefur lifað til þessa. Þess vegna er ekki nóg að byggja aðeins upp sjávarútveginn. Við getum ekki lifað á honum einum, við þurfum fleira, við þurfum fleiri máttarstoðir undir þjóðfélagið, ef vel á að fara. Við þurfum öflugan landbúnað, við þurfum öflugan og vaxandi skipastól, aukinn sjávarútveg, en við þurfum líka aukinn og vaxandi iðnað, og iðnaðurinn, sem er ungur í þessu landi, hefur nú þegar gert margt gott og reynzt nýt máttarstoð á margan hátt. En það þarf að efla þennan atvinnuveg, og það þarf hér að taka upp stóriðju og nota fossaflið, sem við eigum í svo ríkum mæli. Við vitum, að í Þjórsá einni eru um 3 millj. hestafla, sem eru ónotuð. Við vitum, að þegar Sogið er fullvirkjað, þá líða ekki nema fá ár, þangað til við búum enn við raforkuskort, þótt ný iðnfyrirtæki komi ekki til. Það þolir þess vegna enga bið, að stórfljót verði tekið til virkjunar, þótt ekki væri nema til þess að fullnægja nauðsynlegri raforkuþörf fyrir heimili og þann iðnað, sem við nú höfum. En við þurfum fjölbreyttara atvinnulíf, við þurfum að taka upp stóriðju í landinu, sem getur orðið til þess að auka okkar útflutningstekjur, skapa gjaldeyri og forða okkur frá þeim gjaldeyrisskorti, sem við búum við.

Og hvernig má þetta gerast? Það verður ekki gert nema með því að fá útlent fjármagn í þessu skyni, útlent fjármagn til þess að virkja í stórum stíl og til þess að byggja hin stóru iðjuver, og samningana um þetta fjármagn þarf að gera á þann hátt, að lánin megi greiða með framleiðslu iðjuveranna. Þetta hafa aðrar þjóðir gert, smáþjóðir hafa gert slíka samninga, hafa komið fótunum undir sitt efnahagslíf á þennan hátt, og þetta þurfum við einnig að gera, og þetta má ekki dragast. Þótt við deilum um margt, þá erum við sammála um það, að við þurfum að útrýma gjaldeyrisskortinum, að við þurfum að tryggja það, að hér skapist ekki atvinnuleysi, og við höfum vitanlega allir gert okkur ljóst, að þjóðinni fjölgar ört, 3–4 þús. manns á ári, 3–4 þús. vinnandi hendur, sem koma á hverju ári. Atvinnuvegirnir mega þess vegna ekki standa í stað. Það er þetta, sem við horfumst í augu við nú, að það þarf að byggja upp atvinnuvegina, auka þá til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi, afla meira, svo að þjóðin geti búið við ekki lakari kjör, en hún býr við nú, og fámenn þjóð eins og Íslendingar þarf að framkalla þá orku, sem í henni býr og í hverjum einstaklingi. Það er þess vegna nauðsynlegt, að þeir, sem vilja vinna, fái atvinnu, að þeim, sem vilja bjarga sér og reka atvinnutæki, verði ekki hegnt, heldur megi þeir fremur njóta stuðnings og skilnings stjórnarvaldanna, vegna þess að ef einstaklingurinn hefur nokkurt frelsi til athafna og leggur orku sína fram, þá er þar möguleiki til þess, að þjóðin megi verða sterk og sjálfstæð, bæði efnalega og pólitískt. En njóti einstaklingurinn einskis frelsis, sé hann heftur í fjötra, þá er hætt við, að atvinnugreinarnar dragist saman, að þjóðin verði fátæk, að hún verði ekki sjálfri sér nóg. Það er nauðsynlegt, að framleiðslan aukist, að atvinnuvegirnir komist á öruggan starfsgrundvöll, að það verði þannig að þeim búið, að þeir geti starfað styrkjalaust og notið sín að fullu. Það styrkjakerfi, sem nú er búið við, hefur gengið sér til húðar að áliti allra, og þess vegna sýnist vera tími til þess kominn að leggja grundvöllinn að heilbrigðum atvinnuháttum, heilbrigðu atvinnulífi. En núv. hæstv. ríkisstj. gerir það ekki, því miður, segi ég, því að ef henni hefði tekizt það, mundi öll þjóðin njóta þess, eins og öll þjóðin líður fyrir það að búa við ráðleysi og úrræðaleysi núv. hæstv. ríkisstj.

Núv. hæstv. ríkisstj. lofaði miklu, um það leyti sem hún settist að völdum. Hún þóttist hafa ráð á hverjum fingri og geta leyst allan vanda. Hún ætlaði að leggja fram varanleg úrræði í efnahagsmálunum án samstarfs eða samráðs við Sjálfstfl., og hún ætlaði að gera þetta án þess, að nokkur kjaraskerðing kæmi til greina hjá einum eða öðrum. Þetta voru kosningaloforðin. Þetta var sagt um það leyti sem samstarfinu var slitið við sjálfstæðismenn. Og nú, eftir að hæstv. ríkisstj. er uppvís að svikunum, hafa hæstv. ráðh. hér við þessar umr. komið fram með allmiklum gorgeir og krafizt þess, að Sjálfstfl. kæmi með till. til úrbóta. Ég segi: Þeir hafa komið hér sumir hverjir með allmiklum gorgeir í stað þess að vera auðmjúkir og biðja um fyrirgefningu, biðja afsökunar á því, að þeir gátu ekki staðið við neitt af því, sem lofað var, biðja afsökunar á því að hafa lagt fram það frv., sem við nú erum að ræða um. Eða ber að skilja það svo, að hæstv. ráðh. séu ánægðir með þetta frv., séu ánægðir með að leggja fram frv., sem felur í sér útgjöld 700–800 millj. kr. á ári, en er þó aðeins, eins og þeir sjálfir segja, til bráðabirgða? Það getur tæplega verið. En sjálfstæðismenn hafa ekki lagt fram að þessu sinni till., en þeir munu gera það, þegar sá tími kemur, og það hefur ekki verið búizt við því, fyrr en nú við þessar umr., að hæstv. ríkisstj. kallaði eftir till. frá sjálfstæðismönnum, vegna þess að þeir hafa, hæstv. ráðh., fram á síðustu tíma sagt, að þeir ætluðu að leysa þessi mál án samstarfs við sjálfstæðismenn.

En það má vera, að hæstv. ríkisstj. sé í einhverjum efa um, að þetta frv. hafi meiri hl. í þinginu, eftir að formaður stærsta stuðningsflokks stjórnarinnar hefur borið hér fram nokkurs konar vantrauststillögu með till. um rökstudda dagskrá og lýst sig algerlega andvígan þessu frv., sem hann telur að komi dýrtíðarskriðu af stað, stærri dýrtíðaröldu, en nokkurn tíma hefur komið yfir þessa þjóð. Mig undrar ekki, þótt hæstv. ráðh. búist jafnvel við því, að það vanti meiri hl. fyrir frv. í þessari hv. d., og það mun fela í sér skýringuna á því, að þeir nú allt í einu koma og hrópa til sjálfstæðismanna og biðja þá um tillögur, ef þeir séu ekki ánægðir með þetta.

En það er alveg vonlaust fyrir hæstv. ríkisstj. að koma í liðsbón til Sjálfstfl. um þetta frv. Sjálfstfl. mun hvenær sem er ljá góðu máli fylgi, en ekki þessu máli, því að þetta er vont mál. Þetta er, eins og sagt var hér áðan af hv. 8. þm. Reykv. (EOI), mál sem allur almenningur í þessu landi lítur á sem vandræðamál og skapar almenningi öllum miklar áhyggjur og kippir öryggistilfinningunni frá allflestum. Það er ekki björgulegt að gera ráðstafanir til þess að kippa stoðunum undan atvinnulífinu, eins og gert er með þessu frv., eftir að þjóðinni hafa verið bundnir ýmsir þungir baggar af núverandi hæstv. ríkisstj.

Ég býst við því, að allir, sem á mál mitt hlýða, hafi heyrt hæstv. ráðh. hrósa sér af því, að þeir hafi verið duglegir að útvega erlend lán, og að vissu marki er slíkt hrósvert, ef lánin eru notuð til nauðsynlegra framkvæmda, til þess að byggja upp atvinnulífið, til þess að skapa gjaldeyri, til þess að auka þjóðartekjurnar. En því miður hefur ekki nema hluti af þessum erlendu lánum, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið, verið notaður í þessu skyni. Nokkur hluti af þessum lánum hefur verið notaður til þess að greiða ríkissjóði tolla, nokkur hluti af þessum lánum hefur verið notaður til þess að greiða venjulegan innflutning, — innflutning, sem framleiðsla þjóðarinnar að undanförnu hefur greitt hverju sinni. Og sá hlutinn, sem hefur verið notaður til þess að greiða ríkissjóði tolla og til þess að greiða venjulegan innflutning, er ekkert nema eyðslulán, sem ekki er leyfilegt að taka, vegna þess að það bindur þjóðarbúinu bagga, sem það á erfitt með að rísa undir.

Ég býst við því, að flestir hafi gert sér grein fyrir því, að vaxtabyrðin, sem þetta þjóðfélag verður að standa undir núna, sé orðin allþung, og vaxtabyrðin er öll í frjálsum gjaldeyri. Vextir og afborganir s.l. ár munu hafa numið um 50 millj. kr. í hörðum gjaldeyri, og það er mikið fé. Á þessu ári verður upphæðin allmiklu hærri, 70–80 millj. kr. Á árinu 1958 verður þessi vaxtabyrði enn hærri og allt í hörðum gjaldeyri. En hver er gjaldeyrisöflun þjóðarinnar nú í hörðum gjaldeyri árlega? Ætli hún sé meiri en 500–600 millj. kr.? Er það þá ekki orðinn ískyggilega mikill hluti af gjaldeyristekjunum, sem fer í vexti og afborgun, og verður ekki þetta til þess að þyngja undir fæti með rekstur okkar þjóðarbús? Ég held, að allir séu sammála um það. Um þann hlutann af þessum lánum, sem hefur farið til Sogsins og í sementsverksmiðjuna og að nokkru leyti til rafvæðingarinnar, má segja, að það standi undir sér, vegna þess að það var nauðsynlegt að halda því áfram. En betra hefði verið að geta í stærri stíl notað innlent fjármagn, eins og gert var í tíð fyrrv. ríkisstj., því að þá var uppbyggingin sízt minni en nú, en munurinn var aðeins sá, að þá var unnið fyrir það fé, sem þjóðin aflaði, fyrir það, sem þjóðin sparaði saman, og þá voru erlendar lántökur sáralitlar. En þetta var hægt á þeim tímum, vegna þess að þjóðin hafði trú á þeirri stjórnarstefnu, sem fylgt var. Þjóðin hafði trú á því, að það borgaði sig að safna fjármagni, og sparifjármyndunin jókst í bönkunum og gerði mögulegt að ráðast í hinar stórfelldu framkvæmdir fyrir innlent fjármagn.

Þetta hefur snúizt við, síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við. Þrátt fyrir strangari hömlur á ýmsum sviðum og meiri erfiðleika hjá fólki að nota sitt fé, þá hefur sparifjáraukningin minnkað, þegar á hinar réttu tölur er litið. En núv. hæstv. ríkisstj. hefur reynt að fegra sinn málstað með því að telja hlaupareikningsinnstæður til sparifjáraukningar, en það hefur aldrei verið gert áður, og hlaupareikningsinnstæður, sem hækka vegna þess, að innflytjendur fá ekki innflutningsleyfi og geta ekki flutt inn vörur, eru ekki sparifjármyndun, og það vita vitanlega allir. Það vita líka þeir hæstv. ráðh., sem eru að reyna að fegra sinn hlut með því að segja, að sparifjármyndunin hafi ekki dregizt saman, með því að telja hlaupareikningsinnstæður til sparifjármyndunar.

Ég hef farið nokkrum orðum um þau bráðabirgðaúrræði, sem felast í þessu frv., og ég hygg, að öllum hugsandi mönnum sé ljóst, að þetta frv., ef að lögum verður, veldur samdrætti í atvinnulífinu, bæði til lands og sjávar. Það er augljóst með landbúnaðinn, það er augljóst með iðnaðinn, og ég hygg, að þótt þetta frv. eigi aðallega að vera til stuðnings sjávarútveginum, þá geti það einnig orðið sjávarútveginum fjötur um fót, því að enn er eftir að reikna það út, hvaða vit er í því að skattleggja útgerðina til þess að geta styrkt hana, eins og gert er í þessu frv., og enginn vafi á því, að sá skattur og endurgreiðslan, sem ætlað er að koma á styrknum, veldur ósamræmi, kemur niður þar, sem sízt ætti að vera, og getur í mörgum tilfellum orðið til þess að stöðva rekstur margra útgerðarmanna.

Ég hygg, að það sé erfitt að finna þann mann, sem hefur lesið þetta frv., sem í alvöru vill mæla því bót, telja það til gagns, telja það til styrktar framleiðslu og atvinnulífi. En hæstv. ráðh. og stjórnarflokkar, sem að þessu frv. standa, hugsa sér að reyna að berja það í gegn og lengja þannig eitthvað líf núv. hæstv. ríkisstj. En ég er sannfærður um, að þótt það sé einkenni á okkur íslendingum að deila og koma okkur saman um fátt, þá sé þjóðin nú að sameinast um eitt, sameinast um sannfæringuna á því, að þjóðin hafi ekki efni á því að hafa þá ríkisstj., sem nú situr, öllu lengur.