12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég held, að það sé alveg óvanalegt, að það séu ekki bornar upp tillögur þingmanna, og það er komin fram till. um frestun fundarins. Er ekki meiningin að bera hana upp? (Forseti: Ég tel ekki ástæðu til að bera upp, hvort umr. skuli frestað, meðan menn eru á mælendaskrá.)

Herra forseti. Það eru nýir siðir með nýjum herrum. Hæstv. forseta þykir ekki einu sinni ástæða til þess að bera upp till., sem þingmenn koma með, og tillögur eru nú bornar upp, enda þótt menn séu á mælendaskrá, og oftast eru þær nú einmitt bornar upp, meðan menn eru á mælendaskrá, en ekki allir búnir að tala sig dauða, svo að menn geti ekki rætt um tillögurnar. Og í þessu tilfelli er það um framkvæmd á þingsköpunum, og ég tel það alveg óeðlilegt, að slíkt sé ekki borið undir hv. d., hvort þingfundi eða þessu máli skuli ekki frestað. Og til þess liggja m.a. þau rök, að þetta mál hefur fengið alveg óvanalega meðferð í þinginu, og á það hefur verið bent. Hæstv. sjútvmrh, sagði síðast, þegar þetta mál var rætt, að það hefði verið rætt meira en önnur mál. Að því hefur verið vikið hér, og það er ósköp eðlilegt, því að málefnaumræður hafa verið svo sáralitlar á þessu þingi, það sem af er. En hæstv. sjútvmrh. kom ekki inn í þessar umræður fyrr en á síðara stigi þeirra og þannig t.d., að ég, sem á sæti í fjhn., þar sem engar upplýsingar fengust um þetta mál, var búinn að nota minn ræðutíma og átti lítinn sem engan kost á að ræða við hæstv. sjútvmrh. ummálið. Þess vegna var það, sem nokkrir sjálfstæðismenn - og ég var sömu skoðunar og þeir — gerðu þá grein fyrir atkv. sínu, þegar þessu máli var vísað til 3. umr., að þeir vildu vísa málinu til 3. umr, og einmitt og sér í lagi í trausti þess, að þá kæmu fram í þessu máli nánari og fyllri upplýsingar, en enn hafa komið. Og það er hart, þegar þingmenn eru að gegna þingskyldu sinni, að reyna að kryfja hvert mál til mergjar, áður en endanleg atkvgr. er látin fram fara, að hæstv. ráðherrar skjóta sér undan að svara beinum fsp., sem fram hafa verið bornar, og hæstv. sjútvmrh. mátti vita það, að þegar 3. umr. um þetta mál fór fram, var einmitt sérstaklega til þess ætlazt, að hann væri hér til þess að veita andsvör af hálfu hæstv. ríkisstj.

Hæstv. sjútvmrh, kvartaði undan því við 2. umr. þessa máls, að það væri gengið fram hjá því að ræða efni málsins og önnur óskyld atriði væru rædd, eins og kjaradeilur og verkföll, sem átt hefðu sér stað fyrr á árinu.

Nú er spurning um það, hvað er efni frumvarps. Er það aðeins orðanna hljóðun í frumvarpinu, eða er það kannske einnig og ekki síður það markmið og tilgangur, sem frv. hefur? Ég held, að hæstv. sjútvmrh. og stjórnarsinnar mættu gera sér grein fyrir þessu.

En ég skal ræða báða þætti þessa máls, og ef við vikjum að því fyrsta, þá er það aðeins orðanna hljóðun í þessu frv., — hver er hún? Hún er sú, að það skuli vera heimilt að taka yfirfærslugjald af erlendum skipaleigum. Það segir þetta frv. í orði kveðnu: að taka yfirfærslugjald af erlendum skipaleigum, m.ö.o.: frumvarpið er að leggja ný útgjöld á vissa þjónustu, sem áður var ekki fyrir hendi. En hvað segir svo hæstv. ríkisstj., þegar hún fer með brbl. til hæstv. forseta Íslands? Í grg. fyrir brbl. segir:

„Forsætisráðherra hefur tjáð mér, að brýna nauðsyn beri til að breyta nú þegar lögum nr. 86 1956, um útflutningssjóð o.fl., að því er varðar innheimtu yfirfærslugjalds. Fyrir því eru hér með sett bráðabirgðalög“ o.s.frv.

Þetta er það eina, sem grg. segir, og hér hefur sýnilega verið að skrökvað að hæstv. forseta Íslands í greinargerðinni. Þetta frv. er ekki um innheimtu yfirfærslugjalds, En grg, frá hæstv. forsrh. segir, að það beri brýna nauðsyn til að breyta lögunum um útflutningssjóð að því er varðar innheimtu yfirfærslugjalds. Það er ekki stafur um innheimtu yfirfærslugjalds í þessu frv. Það, sem frv. segir, er um nýja álagningu yfirfærslugjalds, að það megi nú leggja yfirfærslugjald á þjónustu, sem áður var ekki hægt að leggja yfirfærslugjald á. En það er sitthvað álagning útgjalda eða innheimta útgjalda, og það hafa heldur ekki í þeirri reglugerð eða auglýsingu, sem sett var, nein ákvæði verið sett um innheimtu yfirfærslugjaldsins. Hún er algerlega óbreytt og reglugerð um innheimtu yfirfærslugjalds nákvæmlega sú sama og áður var.

Þegar svona er í pottinn búið, þá er eðlilegt, að þingmenn eigi erfitt með að átta sig á málunum, og það hefur tekið langan tíma að toga upplýsingarnar upp úr hæstv. ríkisstj. Og það skeður áreiðanlega ekki á hverjum degi, að það eru færðar rangar forsendur fyrir nauðsyn brbl., sem sett hafa verið.

Við höfum áður, sjálfstæðismenn, vítt, hvernig þetta mál ber að og meðferð þess, og með þeim orðum, sem ég hef nú sagt, eru þær vítur endurteknar. Ef við síðan komum að og viljum ræða nánar, en þegar hefur orðið tilgang og takmark þessarar löggjafar, þá hefur það verið viðurkennt af hæstv. sjútvmrh., að takmark þess sé eða tilgangur að efna fyrirheit, sem gefin voru í sambandi við lausn farmannadeilunnar í sumar. Þegar það eitt út af fyrir sig liggur fyrir, að ákveðin loforð hafa verið gefin um lausn vinnudeilu, sem setja þarf löggjöf um á síðara stigi málsins, þá á þingið kröfu til þess, að því sé gerð grein fyrir því, hvaða þörf var á þessu ákvæði, hvað er með þessu ákvæði verið að bæta skipafélögunum mikið, hvað þau töldu sig þurfa miklar uppbætur í einni eða annarri mynd til þess að standast hinar nýju kröfur og hvað miklar uppbætur felast í þessu, og Alþ. á kröfu til þess, fyrst það á að leysa verk vinnudeilunnar með löggjöf, að þessar upplýsingar séu lagðar á borðið. Það hefur verið látið að því liggja, og ég hef haldið því fram, að ég hafi heyrt því fleygt, að með þeim farmgjaldahækkunum, sem Eimskipafélagi Íslands voru heimilaðar á þeim farmgjöldum, sem háð eru verðlagseftirliti, sé talið, að það nemi um það bil helmingnum af þeim aukna tilkostnaði, sem af verkfallinu og vinnudeilunum leiddi. En hvað gerir þetta? Hvað gerir þetta til viðbótar, og hverjum er þetta frv, þá fyrst og fremst til hagsbóta?

Eins og ég sagði áðan, þá ætti það ekki eftir orðalagi frv. að verða neinum til hagsbóta nema útflutningssjóði, sem ætti að fá auknar tekjur. Það hefur verið spurt eftir því, hvað útflutningssjóður hafi fengið miklar auknar tekjur skv. þessu frv. Hæstv. sjútvmrh. taldi sig á því stigi málsins ekki hafa upplýsingar um það, en aðrir aðilar gætu gefið þær upplýsingar. Auðvitað bar þessum hæstv. ráðh. að afla þessara upplýsinga á milli umr. og gefa þær nú ekki síðar, en við 3. umr. málsins, sem á sama tíma er síðasta umr. í þinginu. Þetta er óverjandi lítilsvirðing fyrir þinginu, hvernig hæstv. ráðh. koma fram. Hæstv. sjútvmrh. skildi hér við ræðustólinn við 2. umr. með óbótaskömmum og svívirðingum um einstaka þm., og síðan flýr þessi hæstv. ráðh. af hólmi, þegar lok umr. eiga að fara fram um málið.

Ég hef spurt um: Hvað hefur útflutningssjóður fengið miklar nýjar tekjur? Það er steinhljóð. Kannske hæstv. aðrir ráðh., sem hér eru viðstaddir, geti gefið þessar upplýsingar, og er þess að vænta. Ef þeir ekki vita það, þá gætu þeir kannske reynt að ná í sína aðstoðarmenn og koma þessum upplýsingum á framfæri, áður en umr. lýkur. Ég hef í öðru lagi spurt: Hvernig er hagað framkvæmd þessa frv.? Á hvern hátt er framkvæmdinni hagað, þannig að þetta mál geti orðið þannig til hagsbóta fyrir skipafélögin, að þau fái upp bætt að einhverju leyti þau nýju gjöld, sem á þau voru lögð við samningana, sem fóru fram í sumar? Hvernig er því hagað? Eftir auglýsingu, sem gefin var út sama dag og bráðabirgðalögin voru sett, voru ákvæði um það, að allar aðrar gjaldeyrisgreiðslur fyrir skipaleigu, en gjaldeyrisgreiðslur fyrir olíu og salt og einhverja einn eða tvo liði, sem ég man nú ekki, skuli háðar 8% yfirfærslugjaldi, og af þessari auglýsingu leiðir, að þegar skip er leigt af erlendum aðila og yfirfæra þarf gjaldeyri til greiðslu á flutningsgjaldinu, ber að leggja á 8% og skila útflutningssjóði þessu 8% gjaldi. En hvernig kemur þetta þá til góða hinum innlendu skipafélögum? Ekki felst í þessu nein heimild fyrir þau til að leggja 8% gjald á skipaleigurnar, og hvernig er það framkvæmt?

Þetta mun fyrst og fremst koma til hagsbóta skipaútgerð Sambands ísl. samvinnufélaga og einu skipaútgerðarfyrirtæki í Reykjavík, eftir því sem manni er tjáð, og mér skilst, að það eigi að koma þeim þannig til hagsbóta, að þegar erlendu skipaleigurnar hækka um 8% vegna þessa nýja yfirfærslugjalds, þá geti þessir aðilar hækkað sínar skipaleigur sem því nemur. M.ö.o.: skipaleigan, sem kostaði í einhverri einingu 100 kr. áður, mundi þá mega innheimtast sem 108 kr. nú til samræmis við það, sem erlenda skipaleigan er. Þetta skilst mér að sé tilgangurinn.

En hvernig er þetta framkvæmt? Ég hef áður lýst því í þessum umr., að mér er kunnugt um, að innflutningsfyrirtæki hafa fengið hér reikninga fyrir skipaleigu frá íslenzkum aðila, þar sem ekki er um neina yfirfærslu eða gjaldeyrisgreiðslu að ræða, og skipaleigan er tiltekin, og síðan er bætt á hana 8%. Er meiningin að framkvæma þetta svona? Samband ísl. samvinnufélaga, sem flytur með sínum eigin skipum, kemst þannig fram hjá því, að það hækkar auðvitað vöruna, og hjá innflytjendunum, sem flytja vöruna, hvort sem er með erlendum eða íslenzkum skipum, verða þeir að hækka, og er viðurkennt, að þeir megi hækka vöruna sem þessu nemur, og endanlega er það þá borgarinn, hinn almenni borgari í þjóðfélaginu, sem borgar kostnaðinn af verkfallinu eða það sem það kostaði að leysa deiluna frá s.l. sumri. Hér er einkum og sér í lagi að ræða um flutningsgjöld á sementi og timbri, sem eru aðalbyggingarefnavörur landsmanna og hafa að sjálfsögðu leitt til þess, að þessar vörur eru nú gagnvart almenningi hærri í verði ,en þær ella væru.

En veit almenningur þetta? Hefur almenningi nokkurn tíma verið sagt þetta? Nei. Og lausn málsins hefur beinlinís verið hagað með það fyrir augum að hylja og dylja almenning um það sanna í þessu sambandi. Það hefur hagað þannig til, að verðfall hefur orðið á þessum vörum, og þar af leiðandi hafa þær ekki hækkað, jafnvel lækkað, en mundu auðvitað hafa lækkað meira, ef þessi nýi tilkostnaður hefði ekki til komið, en stjórnarliðið hefur hér á Alþ, — og það hafa menn auðvitað heyrt — gengið mjög vel fram í því að reifa ekki þessa hlið málsins. En þetta er ekki í ósamræmi við lausn annarra mála hjá hæstv. núverandi ríkisstj.: leggja á ný gjöld, reyna að hylja eða dylja hið rétta eðli þeirra, segja við almenning, þegar lagðar eru á 250-300 millj. kr.: þetta kemur ekkert niður á almenningi, það kemur bara niður á kaupmönnum og heildsölum, — falsa vísitöluna, búa til gjöldin á vörurnar beinlínis með tilliti til þess, að þær gangi ekki inn í vísitöluna, svo að almenningur fái ekki í kaupi sínu bættan hinn aukna tilkostnað. Þetta er ekki nýtt. Þetta var gert, þegar álögurnar voru lagðar fyrir þingið til útflutningssjóðs í lok s.l. árs. En yfir þessu frv. er þó enn þá meiri leynd, og hæstv. ráðh. skjóta sér hjá því að svara þeim spurningum, sem þeir eru spurðir að í þessu sambandi.

Það eru sem sagt nýjar álögur, sem valda hækkun á vöruverði, aukinni verðbólgu og meiri dýrtíð. Það er leyst á þann hátt, — það er ekki frá því sagt, — en byrðarnar lenda á almenningi í þessu máli eins og öðrum, áður en lýkur, og svo vill það gjarnan henda, að Samband ísl. samvinnufélaga fái svolítið í sinn hlut í leiðinni. Menn muna eftir Hamrafellssamningnum, samningi ríkisstj. um leiguna á því, það var ekki svo lítið rætt á síðasta þingi. Það þarf enginn að halda, að það séu ekki einhverjir fleiri samningar í sambandi við það mál á milli hæstv. sjútvmrh. og hæstv. fjmrh., en það er áreiðanlegt, að þeir segja ekki þm. frá þeim samningum, fyrst þeir fást ekki til þess að tala um frv., sem fyrir liggja.

Þetta var önnur spurningin, sem ég spurði um: Hvernig er þetta framkvæmt? Grg. fyrir því hefur ekki verið gefin. Það hefur ekki verið sagt, hvað útflutningssjóður hefur fengið mikið í sinn hlut, og það er á engan hátt gefið í skyn, hversu mikil eða lítil bót þetta er, miðað við það, sem skipafélögin fóru fram á. Hérna eru þrjú atriði, sem mikilvæg eru við afgreiðslu þessa máls, og það er steinþagað við öllu.

Það skýtur alveg skökku við sú venja, sem virðist vera að ryðja sér til rúms, að það er ekki aðeins neitað að gefa almenningi upplýsingar um veigamikil mál, sem afgreidd eru af ríkisstj. utan þings, heldur er jafnvel neitað að gefa upplýsingar, þegar komið er inn í þingsalina sjálfa. — Ég sé nú, að hæstv. sjútvmrh. er kominn í sæti sitt, svo að ég held, að ég megi fara að byrja á byrjuninni aftur, svo að til hans verði beint nokkru af því, sem meiningin var að fá hann til að svara.

Ég vildi mega benda hæstv. sjútvmrh, á það í fyrstu, hvort ekki þætti ástæða til, áður en þetta frv. væri afgr., að leiðrétta þau ósannindi, sem í grg. frv. eru og hafa verið höfð í frammi gegn hæstv. forseta Íslands, að þetta frv. varði innheimtu yfirfærslugjalds, því að um það fjallar ekki þetta frv. Það fjallar um það að leggja nýtt yfirfærslugjald á vissa þjónustu, sem áður var undanþegin yfirfærslugjaldi. Þá vænti ég þess, að hæstv. sjútvmrh. svari þeirri fyrirspurn, sem ég hef ítrekað borið fram, hvað útflutningssjóður hafi fengið miklar tekjur skv. þessu frv. eða bráðabirgðalögum, sem nú er ætlazt til að staðfest séu. Loksins hef ég spurt, hvernig hagað sé framkvæmd þessa máls, þegar 8% yfirfærslugjald er lagt á erlenda skipaleigu, — hvernig er þá hagað framkvæmdinni á því, að íslenzku skipafélögin fái þær hagsbætur, sem þau eiga að hafa af þessu til þess að bæta þeim upp aukinn tilkostnað vegna verkfallanna í sumar, eins og gerð hefur verið grein fyrir af hæstv. sjútvmrh. Og loksins, þar sem nú á í raun og veru að láta löggjafann fjalla um það, hvernig leyst var vinnudeila, þá ber að gefa löggjafanum skýringu á því, hvað er hér um að ræða mikla eða litla uppfyllingu af þeim kröfum og óskum, sem af hálfu skipafélaganna var beint til ríkisstj. í sambandi við lausn deilunnar. Hæstv. ríkisstj. getur samið að sjálfsögðu, meðan hún hefur vald til, um lausn vinnudeilnanna og verkfallanna, ef það er ekki mál, sem undir löggjafarvaldið heyrir, án þess að löggjafinn telji, að hann þurfi að fá upplýsingar um það. En þegar hæstv. ríkisstj. leysir verkföll og vinnudeilur með þeim hætti, að það þarf að leita til löggjafans um þær ákvarðanir, sem gerðar eru, þá á löggjafinn kröfu til þess að vita, á hverju ákvörðunin er byggð: Af hverju 8%, af hverju ekki 6%, af hverju ekki 10%, — af hverju 8%? Að hve miklu eða litlu leyti er með þessu orðið við þeim kröfum, sem gerðar voru? Tölulegar upplýsingar hljóta að liggja fyrir í þessu efni. Þær hljóta að hafa verið gerðar af hálfu skipafélaganna eða þeirra krafizt af hálfu ríkisstj., áður en staðfest er samkomulag við viðkomandi aðila, og þegar löggjafinn er kvaddur til þess að leggja blessun sína yfir þessa ráðstöfun, þá á hann heimtingu á því að fá þessar upplýsingar, að þær liggi fyrir.

Þá hef ég vikið að því á fyrra stigi þessa máls, að því hafi verið haldið fram í erlendum blöðum, sem um fjármálaefni fjalla, að við Íslendingar værum að gerast brotlegir við samninga okkar við önnur ríki í því efnahagssamstarfi, sem við eigum við Vestur-Evrópuríkin, og það hefur verið ítrekað af öðrum en mér, og það hefur verið leitað svars um það, hverjar eru skoðanir ríkisstj. á þessu máli, að hve miklu eða litlu leyti þessar ásakanir fái staðizt. Þær eru ekki alveg út í bláinn fram settar, þær eru settar fram vegna þess, að því er haldið fram, að þeir, sem hafa hagsmuna að gæta í hinum erlendu skipafélögum, njóti ekki sömu kjara og innlend skipafélög og það sé verið að mismuna þeim og brjóta þau samningsákvæði eða þær skuldbindingar, sem íslenzk stjórnarvöld hafa tekizt á hendur í efnahagssamvinnu Evrópuríkjanna. Nú hef ég bent á, að þessu hefur verið haldið fram á erlendum vettvangi, og beðið um nánari upplýsingar um þetta mál og ríkisstj. a.m.k. gerði grein fyrir því viðhorfi sínu, að hve miklu eða litlu leyti þetta sé rétt. Engu hefur verið um þetta svarað.

Þá verð ég að vekja athygli hæstv. sjútvmrh. á því, að hann hefur kvartað undan því, að við ræddum ekki efni þessa frv. og færum út fyrir efni þess. Ég gerði grein fyrir því, áður en hann kom, að annars vegar má skoða efni frv. eftir orðalagi frv., eftir orðanna hljóðan, en hins vegar og ekki síður eftir tilgangi og takmarki frv., og þegar viðurkennt er af hæstv. sjútvmrh. sjálfum, að tilgangur og takmark þessa frv. sé að staðfesta samkomulag, sem gert hafi verið til lausnar vinnudeilum, þá er það ekki fyrir utan efni þessa frv. að ræða um það samkomulag, sem þarna varð, eða þá vinnudeilu, sem nauðsynlegt var að leysa með umgetnu samkomulagi. Allt tal hæstv. sjútvmrh. á fyrra stigi þessa máls um, að það hafi af hálfu sjálfstæðismanna verið farið út fyrir efni málsins, fær því ekki staðizt. Hitt stendur eftir sem áður, að raunverulegt efni málsins átti að dylja þingheim og aðra og láta líta út fyrir, að hér væri um allt annað að ræða, en raun ber vitni um.

Í stórum dráttum er efni málsins þetta, og það eru lögð á ný gjöld, sem verða til þess, að nauðsynjavörur í landinu, fyrst og fremst byggingarvörur eins og sement og timbur, eru hærri fyrir almenning, en ella mundi vera, og var þó ekki á bætandi kostnaðinn við íbúðabyggingar í landinu. En hæstv. ríkisstj. er að framfylgja verðstöðvunarstefnunni með þessu, með því að gera beinar ráðstafanir til þess, að vöruverð hækki. Við höfum ekki í sjálfu sér gagnrýnt, hvort nauðsyn bar til þess að gera þetta eða ekki, en við höfum haldið fram, sjálfstæðismenn, að ef slíkar ráðstafanir eru gerðar, beri stjórnarmönnum skylda til að segja það, vegna hvers ráðstafanirnar eru gerðar og í hverju þær felast, — segja einfaldlega við almenning í þessu landi: Ja, við neyðumst til þess að leyfa hækkun á farmgjöldum til landsins, sem leiða mun til hækkunar á byggingarvörum eins og sementi og timbri, við sjáum okkur ekki annað fært; þið verðið svo að dæma okkur eftir málefnum og eftir því, hvernig hver og einn metur kringumstæðurnar. — En það er ekki það, sem er gert, og það var heldur ekki gert, þegar álögurnar miklu, jólagjöfin, voru á lagðar. Þá voru sérfræðingar ríkisstj. búnir að leggja höfuðin í bleyti, hvernig hægt væri í sem ríkustum mæli að falsa vísitöluna, svíkjast aftan að almenningi, leggja á hann stórkostleg útgjöld, segja ósatt um það í þingsölum og útvarpi, að útgjöldin kæmu ekki á almenning, og tryggja það um leið, að almenningur fengi sem minnst bætt útgjöldin, m.ö.o.: að vísitalan hækkaði ekki. Það getur vel verið í þessu tilfelli, fyrra tilfellinu, alveg eins og í því, sem hér liggur fyrir, að annarra kosta hafi ekki verið völ. Ég skal ekki á þessu stigi málsins fella um það dóm. Ef ekki var annarra kosta völ, þá á að segja fólkinu bara, hvað gert hafi verið, og umfram allt hvorki hér né endranær að haga ráðstöfunum sínum þannig að hylja almenningi það, sem máli skiptir og skiptir alla hans lífsafkomu. Þetta er nákvæmlega sama og skeður, þegar verið er að greiða niður landbúnaðarvörur á s.l. hausti. Þá eiga sér stað svo og svo miklar niðurgreiðslur. Hvernig er þessum niðurgreiðslum hagað? Hvað mundi verðið vera, ef vörurnar væru ekki greiddar niður? Það hafa verið fluttar hér á þinginu till. til þess að fá þetta upplýst. Það þarf að toga þessar upplýsingar allar með töngum út úr hæstv. ríkisstj. og gengur stórerfiðlega, sem henni ber þó skylda til, ef hún vill sóma sinn í nokkru, að segja af sjálfsdáðum og eiga frumkvæði að því að upplýsa almenning um.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins hafa um þetta frv. fleiri orð nú. Ég vona, að í þessari síðustu lotu geri hæstv. sjútvmrh. tilraun til þess að svara þeim beinu fyrirspurnum, sem til hans hefur verið beint, og á síðara stigi málsins er þá ef til vill hægt að ræða þær enn nánar.