16.10.1957
Sameinað þing: 3. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er nýlunda, að kvöldfundur er haldinn við 1. umr. fjárl. Fjmrh, mun sérstaklega hafa óskað þessarar tilhögunar nú á þeirri forsendu, að fáir hafi aðstöðu til þess að hlusta á útvarp að deginum. Sjálfstfl. hefur auðvitað ekkert á móti því, að sem flestum landsmönnum gefist kostur á að hlýða á fjárlagaumr., þótt í fljótu bragði kunni að vera erfitt að átta sig á, hvers vegna fjmrh. hefur ekki fyrr sýnt þennan áhuga á að auðvelda almenningi að fylgjast með fjárlagaumr.

Þegar betur er að gáð, verður þó þessi mikli áhugi ráðh. að ná eyrum sem flestra landsmanna skiljanlegur. Ef goðsögn framsóknarmanna um yfirburða fjármálasnilli núverandi hæstv. fjmrh. á ekki að verða efni í næsta hefti af Íslenzkri fyndni, mun ekki veita af ræðusnilli hans til þess að fegra með einhverju móti það furðulega plagg, sem lagt hefur verið fyrir Alþ, og kallað frv. til fjárl. fyrir árið 1958. Vettvangurinn er líka hinn hentugasti fyrir þá, sem eiga hinn erfiða málstað að verja, því að í þessum umr, hefur fjmrh. ótakmarkaðan ræðutíma og stuðningsflokkar hans sinn hálftímann hvor, en stjórnarandstaðan hefur aðeins einn hálftíma. Mér er þó nær að halda, eftir það sem af er þessari umr., að hinn margfaldi ræðutími muni ekki nægja til að draga hulu yfir það fen, sem ráðleysi núverandi hæstv. ríkisstj. er að leiða þjóðina út í.

Þegar vinstri stjórnin svokallaða lagði fram fyrsta fjárlfrv. sitt í fyrra, vakti ég athygli á því, að þar örlaði litið á þeirri algeru stefnubreytingu, sem af yfirlæti hefði verið boðuð með tilkomu þessarar ríkisstj. Því var til svarað, að ríkisstj. hefði ekki haft tíma til að marka fjármálastefnu sína, áður en það fjárlfrv. var lagt fram, en þegar næsta fjárlfrv. yrði lagt fram, skyldum við sjálfstæðismenn fá að sjá, að traustum höndum væri haldið um stjórnvölinn. Og sjálfur hæstv, núverandi fjmrh., Eysteinn Jónsson, lýsti með dökkum litum því stjórnleysi, sem orðið var á fjármálum þjóðarinnar í tíð fyrrverandi fjmrh., Eysteins Jónssonar. Komst hann svo að orði við 1. umr. fjárl. s.l. haust:

„Það hlaut að vera blindur maður, sem ekki sá, að farið var að reka, og það á ekki við framsóknarmenn að sætta sig við slíkt, ef annars er kostur. Þess vegna vildu þeir eiga þátt í, að báturinn væri mannaður upp.“

Nei, það á ekki við framsóknarmenn að láta reka, og til þess að tryggja örugga stjórn á þjóðarskútunni settu þessir miklu stjórnvitringar með sér til skipstjórnar menn, sem hvað eftir annað höfðu orðið sannir að sök um að hafa reynt að sökkva skútunni.

Nú hefur hæstv. fjmrh. siglt með þessari nýju skipshöfn í nær 15 mánuði, og maður skyldi ætla, að nú væri ekki látið reka. Það er því fróðlegt fyrir farþegana á skútunni að líta yfir farinn veg og reyna að skyggnast svolítið fram á leið, þótt lítið verði greint í þeim sorta, sem verið er að sigla inn i. Að vísu virðist skipstjórnarmennina greina nokkuð á, hversu útlitið er, því að hæstv. fjmrh, taldi mjög alvarlega horfa, en hæstv. félmrh. taldi allt vera í bezta lagi. Og það er ekki amalegt fyrir þá, sem þurfa að fá nauðsynleg lán og gjaldeyrisleyfi, að heyra það af vörum hæstv, félmrh., að peningarnir streymi nú inn í bankana og gjaldeyrisstaðan fari batnandi. Það skyldi þó ekki vera svo, að raunveruleikinn sé ekki í samræmi við orð hæstv. ráðh.? Það hefur komið fyrir áður. Ég hef ekki hér fyrir mér þær tölur, sem hann nefndi um sparifjáraukningu banka og sparisjóða, en vil þó aðeins minna hér á þrjár tölur, að 1. sept. 1955 var sparifjáreign í bönkum 903 millj., 1956 um sama leyti 1.005, hafði aukizt um rúmar 100 millj., en 1957 1.054, eða hafði aukizt þá aðeins um helming eða 50 millj, Ég býst við, að sparifjáraukning í sparisjóðum sé eitthvað svipuð.

Þegar hinn nýi skipherra, hæstv. forsrh., tók um stjórnvölinn, lýsti hann því við mörg tækifæri, hversu ægilegur viðskilnaður væri hjá fyrrverandi stjórn, þar sem Framsfl. átti í þrjá ráðh. af sex, nú skyldi hreinsa til og tekin upp ný vinnubrögð. Hreinsunin hefur verið í því fólgin að reyna með öllum ráðum að koma sjálfstæðismönnum úr ýmsum trúnaðarstöðum til þess að tryggja stjórnarliðum vegtyllur og óspart hafa verið búnar til nýjar stöður og embætti. Þá boðaði skipherrann úttekt á þjóðarbúinu, sem gerð yrði fyrir augum alþjóðar.Útlendir sérfræðingar voru fengnir til þess að sannfæra þjóðina um hinn illa arf frá fyrrverandi stjórn. En nú gerðust mikil undur. Skipherrann lýsti yfir á framsóknarfundi, að úttektin hefði sannað allar sínar ákærur, en mánuðir liðu og úttektin var ekki birt. Þá tóku hinir ákærðu sjálfir að krefjast þess, að dómurinn væri birtur. Svör hæstv. forsrh. voru þá þau ein, að ekki væri hægt að birta álit hinna erlendu sérfræðinga nema breyta því, en í athugun sé að gefa það þannig út. Enn í dag hefur hæstv. ríkisstj. ekki getað gert þær breytingar, að hún telji sér fært að láta þjóðina sjá úttektina miklu, og allt tal um hinn slæma arf, hefur hljóðnað. Þannig fór um þá sjóferð.

Þegar ríkisstj. tók við völdum, gaf hún tvö veigamikil loforð auk margra minni. Annað var að koma varnarliðinu sem skjótast úr landi. Allir þekkja efndir þess loforðs. Hitt var að leysa efnahagsvandamál þjóðarinnar til frambúðar. Efnd þess loforðs var jólagjöfin svonefnda, 250–300 millj, kr. nýir skattar á þjóðina. Um þær ráðstafanir ætla ég ekki að ræða sérstaklega, en nauðsynlegt er að minna þjóðina vel á það núna við þessar fjárlagaumr., að sú lausn vandamála atvinnuveganna og tekjuöflunin fyrir ríkissjóð átti að vera til frambúðar. Var alveg sérstaklega tekið fram af hálfu stjórnarinnar og blaða hennar, að þessar ráðstafanir og fjármálastefna ríkisstj. yfirleitt væri við það miðuð, að engar frekari ráðstafanir þyrfti að gera um næstu áramót. Átti þetta að sýna önnur vinnubrögð, en hjá fyrrverandi ríkisstj. En til þess að gera þjóðinni enn betur ljóst, að hún lifði nú nýja og betri tíma, var ríkisstj, óspör á margvísleg loforð: Lofar strax í fyrrahaust 15 nýjum togurum til þess að tryggja atvinnu við sjávarsiðuna. Ekki er vitað, að enn sé farið að smíða þá togara. Lofar stórauknu fé til íbúðabygginga. Miklar vanefndir eru á því loforði, og nú fyrst skilst mér að verið sé að setja reglugerð um framkvæmd skyldusparnaðarins, sem átti að verða ein helzta tekjulindin.Útgerðinni var lofað, að nú þyrfti ekki að biða eftir útflutningsuppbótunum. Miklar vanefndir eru á því loforði þrátt fyrir fullyrðingar hæstv. félmrh., því að vanskil eru nú 50–60 millj. kr. og eftir greiðslureglum útflutningssjóðs má gera ráð fyrir, að 150 millj. kr. útflutningsverðmæti verði í landinu, sem útflutningssjóður verður að greiða uppbætur á næsta ár, — það verði í landinu nú um áramótin. Lofað var að taka lán til hafnargerða. Ekkert bólar enn á því fé. Þannig mætti lengi telja.

Þegar bjargráðatill. ríkisstj, voru til meðferðar á Alþ. fyrir síðustu áramót, leyfðum við sjálfstæðismenn okkur að halda því fram, að með þeim ráðstöfunum væri ekki fundin nein frambúðarlausn, heldur stefnt út í ófærð. Fyrrverandi ráðh. úr stjórnarliðinu, Áki Jakobsson, komst þá svo að orði: „Sú stórfellda skattheimta, sem hér er lögfest, mun valda truflunum, sem munu leiða til stöðnunar í atvinnu- og viðskiptalífi þjóðarinnar.“ Og nú í dag erum við reynslunni ríkari. Nú þýða ekki hástemmdar yfirlýsingar um frambúðarlausn, og mér kæmi satt að segja ekkert á óvart, miðað við annan málflutning, að ríkisstj. staðhæfði nú, að engri frambúðarlausn hefði verið lofað.

Ég hygg, að hæstv. fjmrh. sé höfundur þeirrar kenningar, sem oft er hampað í málgögnum framsóknarmanna, að fjármál og efnahagsmál séu sitthvað. Hlutverk fjmrh. ætti eftir þessu nánast ekki að vera annað, en passa pottinn og útvega í ríkissjóðinn nægilegt fé. Þótt sú leið hafi verið valin að styrkja útflutningsframleiðsluna með beinum ríkisframlögum, hefur sú kynlega tilhögun verið höfð að kröfu fjmrh. að halda öllum þeim greiðslum á sérstökum reikningi og talið ríkissjóði óviðkomandi. Því er nú svo komið, að fjárl. og ríkisreikningur gefa ekki neina raunverulega mynd af tekjum og gjöldum ríkissjóðs.

Þessi kenning og framkvæmd er auðvitað fjarri öllu lagi. Yfirleitt mun litið svo á með öðrum lýðræðisþjóðum, að fjárlög túlki heildarstefnu ríkisstj. bæði í efnahagsmálum og fjármálum, liggur enda í augum uppi, að fjármálastefna ríkisins á hverjum tíma, bæði skattheimta, fjárfesting o.fl., hefur veigamikil áhrif á efnahagsþróunina. Það er því ekki hægt að leggja á háa skatta og telja sér alveg óviðkomandi áhrif þeirra á atvinnulífið. Með öðrum þjóðum er því fjárlagafrv. beðið með óþreyju, því að þar er jafnan að finna stefnu þá í fjármálum og efnahagsmálum, sem ætlunin er að fylgja.

Ég hygg ekki ofmælt, að aldrei hafi verið lagt fyrir Alþingi Íslendinga fjárlagafrv., sem er mótað af jafnalgeru stefnuleysi og ráðþrotum og þetta annað fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar. Það er auðvitað góðra gjalda vert að leggja fjárlagafrv. fram í þingbyrjun, en sem grundvöllur að fjárl. hefur frv. harla litið gildi, eins og það er úr garði gert. Frv. sem þetta gátu starfsmenn ráðuneytisins samið án allra afskipta ráðh., en innlegg ríkisstj, er að finna í hálfrar blaðsíðu grg., þar sem m.a. getur að líta þessa eftirtektarverðu yfirlýsingu:

Ríkisstj. telur sér engan veginn fært að ákveða það án náins samráðs við þingflokka þá, sem hana styðja, hvernig leysa skuli þann vanda, sem við blasir í efnahagsmálum landsins, þ. á m. hvernig mæta skuli þeim mikla halla, sem er á fjárlagafrv. Ríkisstj. hefur ekkert tækifæri haft til þess að ráðgast við stuðningsflokka sína á Alþ. um fjárlagafrv. né viðhorfið í efnahagsmálunum, eins og það er nú eftir reynsluna á þessu ári.“

Öllu greinilegri gjaldþrotayfirlýsingu er naumast hægt að gefa. En hver er þessi mikli vandi, sem ríkisstj. stendur ráðþrota andspænis? Munu menn spyrja. Voru ekki vandamálin leyst til frambúðar um síðustu áramót? Vandinn er sá, að bjargráð ríkisstj. um síðustu áramót hafa reynzt alger óráð. Skattpíningin jafnhliða lamandi afskiptasemi ríkisvaldsins, stórfelldum vanskilum á lofuðum framlögum til útflutningsatvinnuveganna og stóraukinni verðbólgu vegna nýju skattanna er farin að segja til sín. Og nú skýrir Alþýðublaðið frá því fyrir nokkrum dögum, að hæstv. menntmrh. hafi sagt í ræðu, að aðalvandamál ríkisstj. nú, væri ekki varðandi framtíðina, heldur að standa við gefin loforð um fjárframlög til atvinnuveganna. Frumvarpið, sem lofað var að skyldi sýna hina nýju fjármálastefnu í framkvæmd, liggur nú fyrir framan okkur. Greiðsluhalli 71.4 millj. kr., en auk þess er tekið fram í athugasemdum, að enn vanti 20 millj., ef halda eigi áfram niðurgreiðslum á verðhækkun landbúnaðarvara á þessu hausti. Greiðsluhalli er því raunverulega rúmar 90 millj. að óbreyttri fjármálastefnu. Miðað við reynslu, hlýtur frv. að hækka verulega í meðferð þingsins. Er því ekki ósennilegt, að raunverulega vanti um 130 millj. Og það er lítt skiljanlegt, sem hv. þm, Hafnf. sagði hér áðan, að það mundi vandalítið að leysa þetta eftir venjulegum leiðum.

Þá er upplýst af ríkisstj., að útflutningssjóð vanti mikið fé til þess að standa við skuldbindingar sínar, og er ekki ólíklegt, að það vanti nú samtals svipaða upphæð aftur og þurfti að leggja á þjóðina um síðustu áramót. Er þó raunar enn ekki séð, nema greiðsluhalli verði meiri, því að einhvern veginn verður að afla fjár til að greiða hallann á ríkissjóði og útflutningssjóði á yfirstandandi ári.

Einn þáttur hinnar nýju stefnu átti að vera sparnaður í ríkisrekstrinum. Á undanförnum árum hafa kommúnistar og Alþýðuflokksmenn verið stóryrtir um ríkisbáknið og nauðsyn þess að skera af því marga skanka. Við meðferð fjárlaga á síðasta þingi var skýrt frá því, að þriggja manna sparnaðarnefnd væri starfandi og árangur hennar starfa, væri væntanlegur í fjárlagafrv. fyrir árið 1958. Eitthvað virðist hafa seinkað störfum nefndar þessarar, því að hvergi er að finna neina sparnaðartillögu varðandi ríkisreksturinn sjálfan í þessu frv. Í grg, frv. er það eitt sagt, að fast hafi verið staðið gegn útþenslu á starfrækslukostnaði ríkisins. Mér telst þó svo til skv. upplýsingum í fjárlagafrv., að föstum ríkisstarfsmönnum fjölgi um 150, og er þó ekki með talin útþensla í bankakerfi og verðgæzlu. Þótt eigi hafi verið hjá komizt að auka starfslið ríkisins eitthvað, t.d. bæta við kennurum, þá fullyrði ég, að ekki hafi verið þörf allra þeirra nýju starfsmanna, sem hæstv. núv, ríkisstj. hefur ráðið til starfa. Virðist hæstv. fjmrh, hafa gersamlega gefizt upp við allar tilraunir til sparnaðar, sem gleggst má sjá af því, að hann vildi ekki lita við till. okkar sjálfstæðismanna á síðasta þingi um sameiningu tóbakseinkasölu og áfengisverzlunar ríkisins, sem hann þó sjálfur hafði áður flutt frv. um og talið leiða til verulegs sparnaðar.

Meðan hæstv. ráðh. sat í stj. með sjálfstæðismönnum, kenndi hann þeim um alla útþenslu í ríkisrekstrinum. Nú erum við ekki lengur til að setja fótinn fyrir sparnaðarviðleitni hæstv. ráðherra. Hverjum er nú um að kenna? Sennilega ekki hæstv. félmrh., sem mér skildist helzt á áðan að ætti í pokahorninu ýmsar sparnaðarráðstafanir, sem hann bjóst við að þurfa að leita stuðnings hjá stjórnarandstöðunni að koma fram. Og mér skildist jafnvel hv. þm. Hafnf. tala í sama dúr.

Þó væri rangt að halda því fram, að ekki væri um neina sparnaðarviðleitni að ræða. Hæstv. fjmrh. hefur fundið sömu ráð til sparnaðar og á síðasta þingi: að skera niður framlög til verklegra framkvæmda. Þannig eru framlög til vega lækkuð um 3.9 millj, kr., til brúa um 2.9 millj., til hafna um 3.5 millj. og til skóla um 3.5 millj., eða alls lækkuð framlög til verklegra framkvæmda um 13.6 millj. kr. frá gildandi fjárl.

Miðað við þær yfirlýsingar ríkisstj., að hún beri sérstaklega hag strjálbýlisins fyrir brjósti, hljómar sú staðreynd næsta kynlega, að eina sparnaðarúrræðið skuli vera að draga úr þeim framkvæmdum, sem einkum varða íbúa strjálbýlisins.

Til viðbótar þessu hefur svo að fyrirlagi hæstv. forsrh. verið dregið stórlega úr framkvæmdum héraðsrafmagnsveitna ríkisins, miðað við undanfarin ár.

Útgjöld ríkissjóðs á næsta ári eru áætluð rúmum 40 millj. kr. hærri, en í fjárlögum þessa árs, en tekjur hins vegar 31.3 millj. kr. lægri. Er þessi áætlun byggð á því, að tekjur ríkissjóðs hafi brugðizt á þessu ári. Hefur því reyndin orðið sú, að hinir vísdómslegu útreikningar ríkisstj, um síðustu áramót hafa ekki staðizt. Þetta er afsakað með því, að afli hafi brugðizt. Þessi röksemd stenzt ekki. Útflutningur á þessu ári til ágústloka hefur verið 613.1 millj. Á sama tíma í fyrra var hann ekki nema 602.2 millj. og á sama tíma 1955 aðeins 498.8 millj. Þar að auki hefur ríkisstj, tekið erlend lán og fengið gjafakorn frá Bandaríkjunum. Hæstv. viðskmrh. sagði líka í ræðu á frídegi verzlunarmanna í ágúst í sumar: „Gjaldeyriserfiðleikar okkar stafa ekki af neinu óvæntu atviki eða óhöppum. Það sem af er þessu ári, höfum við haft úr að spila jafnmiklum gjaldeyri, einnig svonefndum frjálsum gjaldeyri, og á sama tíma í fyrra, en þá var mesta gjaldeyriseyðsluár í okkar sögu.“

Samkv. þessu virðist augljóst, að tekjuáætlanirnar hafi verið óraunhæfar og hin nýja skipshöfn fjmrh. hafi svo villt fyrir honum, að hann þekki ekki lengur á sjókortið, og er þá ekki von, að vel fari. Er það auðvitað engin afsökun fyrir hæstv. fjmrh., þótt við sjálfstæðismenn í fjvn. höfum lagt til að lækka tekjuáætlun um 1%, því að það var áætlun ráðh. sjálfs, sem endanlega var samþykkt, og hún hefur stórlega brugðizt. Við sjálfstæðismenn fengum ekki nauðsynlegar upplýsingar til að meta tekjuhorfurnar, og kvartaði ég yfir því, bæði við 2. og 3. umr. fjárlaga í fyrra. Hins vegar þekktum við af fyrri reynslu, að hæstv ráðh. áætlaði jafnan tekjur mjög varlega, og vissum ekki, að hann hefði varpað þeirri gætni fyrir borð.

Þótt þjóðin sé ýmsu vön af hæstv. núverandi ríkisstj., mun þó flestum hafa þótt mælirinn fullur, er þeir litu þetta fjárlagafrv. Mest áfall hlýtur frv. þó að vera fyrir þá, sem trúað hafa á einstæða fjármálasnilli hæstv. núverandi fjmrh. Framsóknarmenn hafa oft breitt sig út yfir fjmrh. Sjálfstfl. fyrir að hafa stundum orðið að sýna fjárlagafrv. með greiðsluhalla. Mesti greiðsluhalli á fjárlagafrv. hefur áður verið tæpar 22 millj. kr., en er nú rúm 71 millj. og raunar 20 millj. betur.

Við höfum nú í kvöld hlýtt á útskýringar og afsakanir hæstv. fjmrh. og hinna nýju skipverja hans og munum fá meira af slíku tagi nú á eftir. Ég hef haft mætur á hæstv. fjmrh. og talið hann gætinn og íhugulan fjármálamann, og rennur mér því satt að segja til rifja, hversu hann hefur látið hæstv. forsrh. teyma sig út í botnlaust fúafen með því að gerast fjármálalegur ábyrgðarmaður núverandi ríkisstjórnar. En hann kemst ekki hjá því að taka stærstan hluta þeirrar ábyrgðar á eigin herðar, því að hann átti að sjá betur.

Á því er vert að vekja athygli, að um margra ára skeið hefur verið mikill greiðsluafgangur hjá ríkissjóði, 20 millj. kr. 1953, 40 millj. 1954, 65.6 millj. 1955 og 15.5 millj. 1956. Þessa góðu afkomu hafa framsóknarmenn eingöngu þakkað frábærri fjármálastjórn Eysteins Jónssonar. Það hlýtur því að vekja nokkra undrun, hvers vegna þessi fjármálasnilli nýtur sín ekki eins í samstarfi við aðra flokka.

Nú á fyrsta fjárlagaári vinstri stjórnarinnar er boðaður mikill greiðsluhalli hjá ríkissjóði og fjárlagafrv. fyrir næsta ár með raunverulega 90 millj. kr. halla. Ætli menn sjái ekki af þessu, hversu stóran þátt sjálfstæðismenn eiga í hinni góðu afkomu ríkissjóðs á undanförnum árum?

Hæstv. fjmrh. hefur ekki verið eftirbátur annarra stjórnarliða í því að reyna í vandræðum sínum að kenna sjálfstæðismönnum um það öngþveiti, sem vinstri stjórnin hefur leitt þjóðina út í, og hefur sá söngur hljómað hér í kvöld í ýmsum útgáfum frá þeim, sem talað hafa.

Var hæstv. félmrh. auðvitað háværastur, eins og við var að búast, en rökin í öfugu hlutfalli við hávaðann. Sá þvættingur, að Sjálfstfl. hafi komið af stað verkföllum og reynt að spilla fyrir lántökum, hvort heldur er meðal hvítra manna eða svartra, — eins og hæstv. ráðh. komst að orði, — sem hæstv. ríkisstj. hefur beðið um lán hjá, er svo marghrakinn, að ég eyði ekki orðum að honum, enda ekki hægt að ræða allt á einum hálftíma. Undir þennan söng tók að vísu einnig hv. þm. Hafnf., en hann ætti þó að hafa séð það í Alþýðublaðinu, að þar er tekið fram, að raunverulega hafi engin teljandi verkföll verið á þessu ári. Og hann ætti jafnframt að vita það og þeir báðir, þessir hæstv. ráðh., að því var haldið fram, þegar talað var um, að Sjálfstfl. væri ekki hæfur til stjórnarsamstarfs, að það væri einmitt vegna þess, að hann hefði ekkert traust hjá verkalýðsfélögunum í landinu. Nú á hann að geta komið öllu á annan endann.

Í sambandi við þennan áróður allan langar mig til að biðja þjóðina að íhuga vel eftirfarandi staðreyndir:

Í fyrsta lagi: Það voru sjálfstæðismenn, sem árið 1950 mörkuðu þá stefnu, sem Tíminn sagði í ársbyrjun 1955 að hefði lagt grundvöll að mesta framfaratímabili í sögu þjóðarinnar.

Í öðru lagi: Það var þessi stefna, sem hæstv. fjmrh. lýsti svo í þingræðu 30. jan. 1956, að hefði leitt til þess, að framleiðslan hefði farið vaxandi, verðlag haldizt stöðugt í 21/2 ár, sparnaður aukizt mikið, greiðsluafgangur verið í ríkisbúskapnum, hægt að lækka skatta- og tollaálögur árlega nokkuð.

Í þriðja lagi: Það voru núverandi samstarfsflokkar hans, sem beittu sér fyrir hinu pólitíska verkfalli 1955, sem beinlínís var stofnað til þess að eyðileggja hinn góða árangur af stefnu þáverandi ríkisstj., og valdamiklir menn í flokki hæstv. fjmrh. komu þar einnig við sögu. Fáir fordæmdu þá meir þau óhappaverk, en Eysteinn Jónsson, sem réttilega benti á, að með þeim ógiftusamlegu tiltektum, sem hæstv. núv. félmrh, var forustumaður að, væri brotið blað í efnahagssögu landsins og ætlun verkfallsforingjanna hefði ekki verið að bæta kjör hinna efnaminni, heldur fyrst og fremst að gera mikið tjón.

Í fjórða lagi, að Þjóðviljinn þakkaði Tímanum sérstaklega fyrir vinsamleg skrif um þetta pólitíska verkfall kommúnista. Mun hæstv, núv. forsrh. hafa átt sinn skerf af því þakklæti.

Í fimmta lagi, að á einu ári eftir verkfallið hækkaði kaupgjaldið um 22%, sem kippti algerlega fótum undan allri framleiðslustarfsemi í landinu og neyddi ríkisstj. til að hverfa frá skattlækkunarstefnunni, sem fylgt hafði verið frá 1950, og leggja á háa nýja skatta um áramótin 1955–56.

Í sjötta lagi, að þegar fyrir hið pólitíska verkfall kommúnista, hafði form. Framsfl, hafið baráttu sína fyrir myndun vinstri stjórnar, og eftir að kommúnistum hafði tekizt að koma dýrtíðarskrúfunni í fullan gang aftur, var þetta afrek talið ótvíræð sönnun þess, hversu bráðnauðsynlegt væri að fá þá til samstarfs við stjórn landsins. Að vísu var þagað um þá fyrirætlun fram yfir kosningar, en hæstv. fjmrh, hefur nýverið lýst yfir, að það hafi alltaf verið ætlunin að fá kommúnista til samstarfs.

Í sjöunda lagi: Þegar svo núv. ríkisstj. var mynduð, voru sjálfstæðismenn taldir ófærir um að leysa allan vanda og því lýst yfir, að ríkisstj. hefði öruggan stuðning vinnustéttanna í þjóðfélaginu og hefði því öllum stjórnum betri aðstöðu til að leysa vandamálin, enda lofað gerbreyttri stefnu og frambúðarlausn vandamálanna.

Það er staðreynd, að innan núv. ríkisstj. eru saman komin öll þau öfl, sem leyst hafa úr læðingi þann verðbólgudraug, sem ríkisstj. er nú að reyna að kveða niður með bágbornum árangri. Það eru þessi öfl, sem hæstv. fjmrh. taldi þjóðráð að manna bát sinn með, og eftir 15 mánaða siglingu virðist svo komið, að verðbólgudraugurinn hafi sjálfur tekið við stjórninni á skútunni og hinir stefnuföstu framsóknarmenn þurfi ekki að sætta sig við að láta reka, því að bátnum er stýrt öruggum höndum beint inn í ginnungagap fjárhagslegs öngþveitis.

Engir hafa rækilegar, en sjálfstæðismenn varað við hinum alvarlegu afleiðingum verðbólguþróunarinnar. Þeir vöruðu þjóðina við afleiðingunum af verkum upplausnaraflanna, sem eyðilögðu árangur jafnvægisstefnu þeirrar, sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn stóðu að með góðum árangri um fimm ára skeið.

Sjálfstæðismenn hafa ekki haft trú á því, að leiðin út úr vandanum væri að leiða upplausnaröflin til æðstu valda í þjóðfélaginu. Engu að síður hefði það verið gleðiefni, ef núv. ríkisstj. hefði tekizt að leysa þann vanda, sem hún lofaði með miklu yfirlæti að leysa, og leyfi ég mér að vísa heim til föðurhúsanna þeim fáránlegu staðhæfingum hæstv, félmrh., að Sjálfstæðisflokkurinn gleðjist yfir erfiðleikum þjóðarinnar.

Tilvera núv. ríkisstj, byggist á misnotkun stjórnarskrár og kosningalaga. Hún lofaði þjóðinni gulli og grænum skógum, en efndirnar eru stórfellt fjárhagsöngþveiti, sem ríkisstj. viðurkennir að hafa engin ráð tiltæk til að ráða fram úr.

Í fyrra var afsökunin sú, að stjórnin væri svo nýtekin við völdum, að hún hefði ekki haft tíma til að móta hina nýju fjármálastefnu sína fyrir afgreiðslu fjárlaga ársins 1957.

Nú er fjárlagafrv. lagt fram, með meira en þrisvar sinnum hærri greiðsluhalla, en mestur hefur áður verið á fjárlagafrv. Engin úrræði er bent á til lækkunar útgjalda og engar tillögur um tekjuöflun, og nú er afsökunin sú, að stjórnin hafi ekki neitt tækifæri til samráðs við stuðningsflokka sína.

Einhvern tíma hefði áreiðanlega þótt tiltækilegt að kveðja þingmenn til fundar utan þingtíma, ef eins alvarlega hefði horft og nú gerir.

Hæstv. fjmrh. sagði fyrir skömmu á fundi framsóknarmanna hér í Reykjavík, að núverandi stjórnarflokkar hefðu góða aðstöðu til að leysa verðbólguvandamálið. Hvernig stendur á, að þessi góða aðstaða er ekki notuð nema á mannfundum? Ríkisstj. reynir að vísu enn að halda því fram, að 300 millj. kr. álögurnar í fyrra hafi ekki verkað til aukningar dýrtíðinni. Slíkar blekkingar þýða ekki lengur. Enda þótt álögunum hafi verið þannig hagað, að þær kæmu sem minnst á vísitöluvörur, sem einhvern tíma hefði verið kölluð vísitölufölsun, þá er samt gert ráð fyrir 5 stiga vísitöluhækkun í fjárlagafrv., enda þótt niðurgreiðslur á vísitöluvörum séu einnig hækkaðar úr 84.1 millj. kr. í 125 millj. kr., eða um tæpa 41 millj. kr.

Og nú telur hæstv. fjmrh. ekkert athugavert við að fallast á niðurgreiðslur, svo að milljónatugum skiptir, án þess að hafa nokkurt fé í kassann, enda þótt hann neitaði í fyrra að fallast á till. sjálfstæðismanna um að halda vísitölunni niðri með niðurgreiðslum. Hefði okkar till. þá verið sinnt, væri ekki við þann vanda að glíma, sem við nú stöndum andspænis.

Sannleikurinn er líka sá, að verðbólgan hefur aldrei vaxið hraðari skrefum, en eftir tilkomu vinstri stjórnarinnar, sem þó þykist hafa allt í hendi sinni, og fjárlagafrv. fyrir 1958 er dæmigert verðbólgutákn. Þegar svo er komið, að allur rekstrarkostnaður hækkar stórum, en jafnhliða er dregið úr framkvæmdum, þá horfir illa.

Við sjálfstæðismenn getum út af fyrir sig vel við unað, að aðeins 15 mánaða stjórnarferill vinstri stjórnarinnar hefur sannað rækilega okkar aðvaranir og stefnu, en gert að engu flestar kenningar stjórnarflokkanna. Má því segja, að þjóðin verði reynslunni ríkari, þótt sú reynsla kunni að verða nokkuð dýrkeypt.

Sú falskenning framsóknarmanna, að hægt sé að leysa efnahagsvandamálin eftir einhverjum nýjum leiðum, ef hægt sé að losna við sjálfstæðismenn úr ríkisstj. og fá kommúnista og Alþýðuflokksmenn til samstarfs í staðinn, er að engu orðin. Sú kenning kommúnista og raunar vinstri flokkanna allra, að hægt sé að leysa allan vanda á þann einfalda hátt að taka gróða nokkurra auðkýfinga, hefur einnig reynzt vera hlægileg fjarstæða.

Loks er það mjög athyglisvert, að nú hafa kommúnistar neyðzt til að viðurkenna, að kauphækkun sé ekki ætíð kjarabót fyrir launþega, þótt þeir undanfarna áratugi hafi reynt að stimpla sjálfstæðismenn fjendur verkalýðsins fyrir að vekja athygli á þessari mikilvægu staðreynd.

Það er þó eigi síður athyglisvert, að kommúnistar telja því aðeins óhæfu, að verkalýðsfélög heimti kauphækkanir, ef kommúnistar eru í ríkisstjórn, en sjálfsagt, þegar aðrir flokkar fara með stjórn landsins. Eftir kokkabókum kommúnista á hlutverk verkalýðshreyfingarinnar því ekki fyrst og fremst að vera að stuðla að raunhæfum kjarabótum verkalýðnum til handa, heldur tryggja kommúnistum setu í ríkisstj. Þessa misnotkun kommúnista á verkalýðshreyfingunni telja framsóknarmenn góða og gilda og fyrirskipa sínum fylgismönnum í verkalýðsfélögunum að tryggja kommúnistum völdin þar.

Haldi kommúnistar áfram völdum í verkalýðshreyfingunni og geti haldið þar áfram skemmdariðju sinni, þá er það á ábyrgð Framsfl., á sama hátt og Framsfl. og þá ekki sízt hæstv. , fjmrh. ber meginábyrgð á því hörmungastjórnarfari, sem nú er í landinu. Ekkert verður ráðið af þessu fjárlagafrv., hvort ríkisstj. gerir ráð fyrir að fara enn þá leið að leggja 200–300 millj. kr. nýja skatta á þjóðina. En einhver úrræði verður að finna, ef á að firra ríkisgjaldþroti og algerri stöðvun atvinnulífsins.

Öll fjármála- og viðskiptalögmál eru nú gengin svo úr skorðum í okkar litla þjóðfélagi, að fullkominn háski er að. Í stað þess, að talað var um að uppræta spillinguna, hefur alls konar óeðlilegur viðskiptamáti og spákaupmennska margfaldazt. Úrræði stjórnvaldanna eru þau ein að setja nýjar reglur, skipa nýja eftirlitsmenn og bjóða og banna, þannig að menn viti í mörgum tilfellum ekki, hvað er leyft og hvað er bannað. Skriffinnska hefur stóraukizt og forsvarsmenn atvinnufyrirtækja verða að verja æ lengri tíma í að sitja í skrifstofum opinberra stofnana og nefnda.

Sem dæmi má nefna, að nú er ekki nóg, þótt menn eftir langan tíma og fyrirhöfn hafi herjað út gjaldeyrís- og innflutningsleyfi hjá innflutningsskrifstofunni, heldur tekur við ný píslarganga dag eftir dag niður í Landsbanka, sem hefur sett upp sína eigin gjaldeyrisúthlutun og lætur sig litlu varða pappíra frá innflutningsskrifstofunni. Hvernig halda menn að sé aðstaða fólks úti á landsbyggðinni, sem hvorki fær leyfi né lán, nema það komi hingað sjálft eða hafi umboðsmenn? Vegna hinna miklu tekjuþarfa ríkissjóðs og útflutningssjóðs hefur svo ríkisstj. neyðzt til að láta óþarfavarning svokallaðan sitja fyrir um innflutning. Tollakerfið er orðið hreinn óskapnaður, og úrræðin á því sviði eru 29 tollverðir. Herskarar verðgæzlumanna eru á háum launum við að sjá um verk, sem framsóknarmenn hafa hingað til talið samvinnufélögin fær um að annast.

Samræmið er þó ekki meira hjá ríkisstj. en svo, að einu félagi er á nokkrum mánuðum með samningum við ríkið tryggður 15 millj. kr. gróði, og er það mesti okurgróði, sem þekkist hérlendis. Alvarlegast er þó það, að vöruskortur er yfirvofandi, því að til þessa hefur verið gengið á þær miklu vörubirgðir, sem til voru í landinu, er stjórnin tók við völdum.

Hálmstráið, sem hæstv. ríkisstj. heldur dauðahaldi í, er vonin um stórt erlent gjaldeyrislán. Hafa stjórnarliðar helzt reynt að hæla ríkisstj.

fyrir dugnað við að útvega erlend lán. Það getur auðvitað verið gott og blessað að taka erlend lán. En vafasöm kenning held ég að það verði að teljast, að sá sé hæfastur til að stjórna, sem duglegastur er að safna skuldum.

Mönnum mun þykja þessi mynd af ástandinu ljót, en því miður er hún sönn. Mér hugkvæmist ekki að halda því fram, að hæstv. ríkisstj, vilji ekki láta gott af sér leiða. Hún ræður bara ekki við þann vanda, sem við er að fást.

Það getur verið gott að vera kokhraustur og segja: Ef núv. stjórn getur það ekki, þá hver? Eins og Tíminn hefur eftir hv, þm. V-Húnv. En hæstv. ríkisstj, ætti að vera farin að læra það af 15 mánaða reynslu, að vandamálin verða ekki leyst með grobbi einu og stærilæti.

Sjálfstæðismenn hafa aldrei reynt að blekkja þjóðina um eðli efnahagsvandamálanna. Þeir bentu á í síðustu kosningum, að ekki væri um nein töframeðul að ræða til þess að leysa efnahagsvandamálin, og vöruðu þjóðina við að hlusta á glamur núverandi stjórnarflokka um nýja stefnu og frambúðarlausn, sem þeir þóttust eiga tiltæka, þótt að vísu enginn fengi að vita, í hverju væri fólgin. Í stað þess að viðurkenna síðan hreinskilnislega, að sjálfstæðismenn hafi haft á réttu að standa, hefur ríkisstj. gripið til þess óyndisúrræðis að telja þjóðinni trú um, að verið væri að gera allt annað, en gert hefur verið. Með þessu móti er ríkisstj. beinlínis að vinna gegn því, að nokkur viðunandi lausn fáist á vandanum, og mætti ríkisstj. gjarnan reyna að haga sér í samræmi við þá nauðsyn raunsæis, sem hæstv. fjmrh. lagði áherzlu á í ræðu sinni í kvöld, og væri vel, ef hæstv. ríkisstj. ætlar hér eftir að fylgja þeirri stefnu.

Við þekkjum öll þær leiðir, sem til greina koma, en frumskilyrði þess, að hægt sé að beita þeim úrræðum með tilætluðum árangri, er að skapa hjá almenningi réttan skilning á eðli vandans og nauðsyn úrræðanna.

Meðan ríkisstj. ekki leggur fram neinar till. um lausn aðsteðjandi efnahagsvandamála, er ekki ástæða til að ræða, hverjar leiðir beri að velja út úr þeim vanda, sem ríkisstj. hefur stórkostlega aukið á sínum stutta valdaferli. Eitt er þó ljóst: Núverandi ástand í fjármálalífi þjóðarinnar er óviðunandi, og gera verður sem skjótast róttækar ráðstafanir, ef efnahagslegt sjálfstæði landsins á ekki að glatast í ráðleysisfeni hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. ber ein ábyrgð á því óvenjulega fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir til umræðu. Eðli málsins samkvæmt hlýtur ríkisstj. einnig að hafa forgöngu um að brúa það mikla bil, sem er milli tekna og gjalda í frv. Núverandi stjórnarflokkar hafa lýst Sjálfstfl. ósamstarfshæfan um lausn efnahagsvandamála þjóðarinnar og þannig útilokað allt samstarf við flokk, sem taldi við síðustu kosningar innan sinna vébanda yfir 42% þjóðarinnar. Af þeim sökum verður einnig ríkisstj. ein að bera alla ábyrgð á úrræðum í efnahagsmálum þjóðarinnar, meðan hún fer með völd. Það fer líka að mörgu leyti vel á því, að þeir leysi vandann, sem hafa skapað hann. En vegna þjóðarhagsmuna er þó áreiðanlega farsælast, miðað við hina slæmu reynslu af 15 mánaða vinstri stjórn, að ný áhöfn taki sem skjótast við þjóðarfleyinu.

Þjóðin framleiðir árlega mikil verðmæti, og mikil skilyrði eru til framleiðsluaukningar, þannig að ástæðulaust er að kvíða framtíðinni, ef rétt er á málum haldið. En hafi stjórnarvöldin að leiðarljósi þá stefnu að lama og hefta framtak og dug þjóðfélagsborgaranna, þá er voðinn vís. Þess vegna er þjóðinni brýn nauðsyn að losna sem fyrst við núv. ríkisstj.