13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hafði um það mjög sterk orð og espaði sig, að ef stjórnarandstaðan væri ekki sammála ríkisstj. um það, hvernig ætti að afgreiða mál, þá ætti hún að bera fram sínar eigin till. Það fyrsta, sem til þess þarf að átta sig á, hvort maður sé stjórninni sammála eða ekki, er það, að till. stjórnarinnar sjálfrar liggi fyrir, en erindi hæstv. fjmrh. hingað í stólinn var fyrst og fremst að tilkynna, að enn getur hann ekki sagt, hvaða till. ríkisstj. ætli að gera í heildarafgreiðslu fjárlaganna. Þegar Alþingi kom saman, var það borið fyrir, að ríkisstj. hefði ekki getað gert till. um þetta, af því að hún hefði þurft að hafa samráð við sína fylgismenn. Önnur eins uppgjöf hefur aldrei þekkzt í stjórnmálasögu Íslendinga, annað eins afsal frá þeim, sem hafa tekið að sér forustu: Að gefast upp með þeim hætti, að þeir hafa ekki einu sinni manndóm til þess sjálfir að gera till. eftir sínum eigin vitnisburði. En það er í samræmi við annað hjá hæstv. fjmrh., þá starfshætti, sem hann hefur nú tekið upp, að auðvitað var það ekki það, að þeir hefðu ekki haft samráð við sína fylgismenn, heldur var það, að þeir voru sjálfir gersamlega úrræða- og áttavilltir um það, hverja stefnu skyldi taka, og það er opinbert mál og af öllum þingheimi vitað, að stjórnarliðar, venjulegir þingmenn, hafa ekki allan þann tíma, sem Alþingi nú hefur setið, fengið neitt að fylgjast með, hvaða ráðagerðir væru uppi hjá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, og hv. fjvn. var svo afskipt frá vitneskju um þessi efni, að jafnvel á laugardag voru fjvn.-menn með öllu óvissir um það, hvort ætti að afgreiða fjárlög fyrir jól, hvað þá eftir hverjum meginreglum skyldi farið, og það var ekki fyrr, en á sunnudaginn, sem þessir hv. nm. fengu beina fyrirskipun frá hæstv. fjmrh. og félögum hans í ríkisstj. um, að afgreiðslan skyldi fara fram, og þeir tóku til óspilltra málanna. Mér er það ókunnugt, hvort þessir menn vita enn þá, hvert er verið að stefna, hvaða till. þeir eiga að gera nú að fáum dögum liðnum, a.m.k. tala þeir í fullkomnum hálfyrðum, og öll þeirra hegðun er eins og hæstv. fjmrh., eins og manna, sem staddir eru í þoku og vita ekki sitt rjúkandi ráð, þekkja hvorki hvað snýr fram né aftur.

Hæstv. fjmrh., — og það sýnir sannsögli þessa hæstv. ráðh. og hverju hann leyfir sér að halda fram hér á Alþingi — hann segir: Það er engin ný bóla, það er ekkert nýtt, að fjárlög séu afgreidd í spretti fyrir jólin. Það var síðast 1955. Þá var nál. ekki útbýtt fyrr en 12. des. En voru fjárlögin þá 1955 afgreidd fyrir jól? Voru þau afgreidd fyrir jól? Hæstv. fjmrh. veit ósköp vel, að þó að hann talaði þannig, að þeir áheyrendur, sem ekki vissu betur, hlytu að skilja það svo, að hann væri að fræða þingheim á því, að fjárlögin væru afgreidd fyrir jól, þá voru þau einmitt ekki afgreidd fyrir jól, heldur eftir jól. Þau voru ekki afgreidd fyrr en um mánaðamótin jan.–febr. Það kemur ótvírætt fram í þingtíðindunum frá því þingi, og hæstv. fjmrh. þarf ekki að láta svo, að minni hans sé svo gersamlega bilað og allur hugsanagangur úr skorðum genginn, að hann muni ekki það, sem þá gerðist í þessu, en þá lagði hæstv. fjmrh. einmitt sérstaka áherzlu á það, að fjárlögin yrðu afgreidd fyrir áramót án tillits til þess, hvernig færi með afgreiðslu og meðferð efnahagsmálanna að öðru leyti. Við sjálfstæðismenn neituðum þessu algerlega. Við töldum, að hér væri um eitt og sama málið að ræða. Við höfum ætíð verið því andvígir, þó að við til samkomulags féllumst á að taka greiðslur til atvinnuveganna út úr fjárlögum á þann veg, sem hæstv. núv, fjmrh. hefur beitt sér fyrir. En þó að við féllumst á það til samkomulags, þá var okkur ljóst, að hér var í raun og veru um eitt og sama málið að ræða, og það var alveg útilokað að ætla að láta meðferð efnahagsmálanna, eins og þá stóð til að afgr. þau, bíða, en afgr. fjárlögin.

Hæstv. fjmrh, var ákaflega andsnúinn því, að þessi háttur skyldi verða viðhafður. Það kynni þó svo að vera, að nú hefði hann fengið vilja sínum framgengt. Það var ljóst, og okkur var ljóst, að hann undi samstarfinu við okkur sjálfstæðismenn illa og í vaxandi mæli illa, vegna þess að þar átti hann við menn, sem höfðu sjálfstæðar skoðanir og þorðu að fylgja þeim eftir og létu þessum hv. herra ekki haldast uppi að beita þeirri hlutdrægni og einsýni, sem hann er svo áfjáður í. Það var vegna þessa, sem hann var orðinn óþolinmóður í samstarfinu. Ef hann hefur nú fengið þeirri firru framgengt að láta afgreiða fjárlögin ein út af fyrir sig, en slá vanda efnahagsmálanna á frest án tillits til afgreiðslu fjárlaga, þá sýnir það, að hann á nú við þá, sem lúta að minnu, en við sjálfstæðismenn gerðum, og var það raunar vitað áður.

Hæstv. fjmrh. var svo hér að halda því fram, að það væri ekkert nýtt, að það væri lagt fram fjárlagafrv. með lægri fjárveitingum til verklegra framkvæmda, en að lokum yrðu samþykktar. Að svo miklu leyti sem hér er um venju að ræða og það, sem áður hefur skeð, í hvern er hæstv. fjmrh. að vitna annan, en sjálfan sig? Hver hefur allra Íslendinga lengur verið fjmrh. en einmitt þessi hæstv. ráðh., og hver hefur gegnt fjármálaráðherraembætti látlaust nú frá 1950? Og ef þessi venja hefur komizt á, hver ber þá mesta ábyrgð á henni? Annars er það sannast sagt, meira en hlálegt og skoplegt af hæstv. ráðh. að koma nú hér upp dag eftir dag og kunna það ráð eitt sér til varnar og afsökunar, að það sé alveg sama regla, sem þeir fylgi, eins og fyrrverandi ríkisstj. gerði, að allt hið illa, sem fyrrverandi stjórn gerði, og vissulega var hún ekki fullkomin frekar en aðrir menn, allt það, sem helzt má gagnrýna, það hefur þessi hæstv. stjórn af trú og dyggð haldið við og gert enn verra og magnað út í öfgar, miðað við það, sem áður var. En svo skal hæstv. fjmrh. þar fyrir utan ekki ætla, að Íslendingar, hvorki almenningur né þingheimur, séu svo gleymnir, að þeir muni ekki, þegar hann brýndi raustina hér við 1. umr. fjárlaga og sagði, að það yrði að ganga hægt um framkvæmdanna dyr og að við hefðum á undanförnum árum ráðizt í of miklar framkvæmdir og umbætur á þessu landi. Það var sá boðskapur samdráttarins í verklegum framkvæmdum, umbótum fyrir allan almenning í þessu þjóðfélagi, sem þessi hæstv. fjmrh. þá gerði sig að talsmanni fyrir. Nú skortir hann kjark til þess að fylgja þessu eftir. Þessi hæstv. ráðh. gerir sig minni mann, með hverjum degi sem líður, þó að hann hafi að vísu ekki afrekað það enn í dag, sem hann gerði 1 gær, þegar hann hrópaði hótun fram til eins þm. um, að það skyldi ekki borga sig fyrir hann að halda hér fram sjálfstæðri skoðun. Vonandi kemst hæstv. fjmrh. aldrei neðar, en hann komst þá.

Nei. hæstv. fjmrh. gerði mikið af því um það bil, sem Alþingi kom saman, og nokkru áður að prédika, að nú væru varanlegu úrræðin alveg að koma, og talaði mikið um það, að ástandið í þjóðmálunum, efnahagsmálunum, væri slíkt, að þessi varanlegu úrræði mættu alls ekki bíða, enda væri það mjög í lófa lagið fyrir núverandi stjórnarflokka að finna þau úrræði. Það reyndist nú svo í það skiptið, að hæstv. félmrh. varð meiri forspármaður, en hæstv. fjmrh., og „var því þó aldrei um Álftanes spáð, að ættjörðin frelsaðist þar.“ Engum hafði komið til hugar, að hæstv. félmrh. væri snjallari fjármálaspekingur en hæstv. fjmrh. En hæstv. félmrh, sagði við 1. umr. fjárl., að það væri ekkert að marka það, sem hæstv. fjmrh. hefði verið að segja um slæmt ástand í fjármálum eða ískyggilegar horfur í atvinnumálum. Það væri bara, að hæstv. fjmrh. væri svo mikill búmaður, að hann teldi, að það þyrfti að berja sér, en það væri allt í lagi, bara ef sömu úrræðum væri fylgt og verið hefði.

Samkvæmt því, sem menn heyra, er það þessi skoðun hæstv. félmrh., sem nú hefur orðið ofan á í ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. telur sér fært að afgr. fjárlögin, án þess að nokkrar varanlegar ráðstafanir séu gerðar. Nú mun að vísu vera farið að tala um, að það eigi að standa einhver ósköp til í febrúar eða marz og þá eigi allt að umsteypast til góðs í þessu þjóðfélagi. En það spáir ekki góðu, úr því að sú eða ef sú bið verður, því að þá er skapningurinn þess eðlis, að hæstv. ríkisstj. telur sér og sínum flokkum augsjáanlega ekki til framdráttar, að hann verði sýndur fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Hins vegar er það eftirtektarvert, að aðalfjármálaráðunautur ríkisstj., kommúnisti að nafni Haraldur Jóhannsson, sem hefur skrifað margar og ýtarlegar greinar til þess að sanna bæði að það væri mjög misráðið að hafa ráðizt í svo miklar framkvæmdir í sveitum landsins, að það væri óhófseyðsla að leggja rafmagnsleiðslur til sveitafólksins og að íslenzka krónan væri ofskráð, — það er þessi maður, sem þennan boðskap flytur, sem er aðalráðunautur hæstv. ríkisstj. nú í efnahagsmálum, og hann hefur látið uppi þá skoðun, að óhjákvæmilegt væri, ef ætti að fá fólkið aftur til þess að sinna framleiðslu, að gera margar ráðstafanir, þ. á m. þá að gera útflutningsframleiðsluna arðbæra, og það yrði ekki gert nema með nýrri gengislækkun. En hann sagði: Það tekur marga mánuði að reikna út, hvernig nýja gengislækkunin á að vera. — Þetta var sagt fyrir einum eða tveimur mánuðum. Það stóðst á endum, að það þurfti þessa mánuði fram yfir bæjarstjórnarkosningarnar, til þess að þetta snjallræði yrði út reiknað, og manni skilst, að það sé nú helzt slíkt haldreipi, sem stjórnin hafi í huga varðandi lausn efnahagsmálanna. Það mun koma á daginn, hvort þau leysast til frambúðar fyrir áramót, a.m.k. að hve miklu leyti afgreiðslu þeirra mála verður blandað inn í afgreiðslu fjárlaga, þar sem þau eiga vitanlega heima, eða hvort þarna verður algerlega skilið á milli.

En víst var það rétt, sem hv. frsm. minni hl. fjvn., hv. 2. þm. Eyf., sagði, að það er brot á öllum þinglegum reglum að viðhafa slíka meðferð á fjárl. sem hér er ráðgerð. Hæstv. fjmrh, svaraði þessu svo: Það er alveg rangt, að það eigi að tala almennt um málið við 2. umr. Það á að tala almennt um málin við 1. umr. og 3. umr. — Það er dálítið til í þessu. En til þess að hægt sé að tala um einstök atriði mála, verða þau einstöku atriði að liggja fyrir. Nú heyrðum við hv. frsm, meiri hl. fjvn. í sinni ræðu alveg réttilega gera grein fyrir því, að það væri ekki nema að litlu leyti, sem mynd fengist af raunverulegri afgreiðslu fjárl. við þessa umr. Hann gat þess m.a., að jafn veigamikið atriði eins og hverju á að verja til skólamála og skólabygginga er með öllu óútkljáð. Hann gat þess einnig, að sparnaðartill., sem manni skilst að séu allvíðtækar í undirbúningi, ættu fyrst að koma fram við 3. umr.

Ég vil fullyrða, að þetta sé á móti reglum þingskapa, þó að það stangist að vísu ekki við þennan bókstaf. Ég játa það. En það er á móti þeim reglum, sem þingsköpin halda uppi, og tilætlun þeirra, að um jafnveigamikil einstök atriði sem þetta liggja ekki fyrir tillögur frá ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar strax við 2. umr.

En mestu máli skiptir þó, að til þess að þrjár umr. geti farið fram um mál, verður málið að liggja fyrir í heildarmynd strax við 1. umr. En ég fullyrði, að þetta fjárlfrv., sem ég held á hér í hendinni, er ekki eðli sínu samkvæmt eiginlegt fjárlfrv. Það kann að vera efniviður í hluta af fjárlfrv. eða rytjur af væntanlegum till. hæstv. fjmrh. til tillagna um fjárlfrv., en það er alls ekki sú mynd af fjárlagaafgreiðslu, sem þingheimur þarf að hafa í huga til þess að átta sig á, hvað fyrir hæstv. ríkisstj, vakir um fjármálastjórnina á næsta ári, jafnvel fjármálastjórnina í þeirri þröngu merkingu, sem hæstv. fjmrh. helzt vill tala um hana, sem sagt eingöngu þann hlutann, er sjálfan ríkissjóðinn varðar.

Samkvæmt játningu hæstv. fjmrh, sjálfs vantar í þetta frv. nú nær 100 millj. kr. tekjur, til þess að það geti staðizt, eins og frv. er. Sjálfur segir hann: Til þess að fá jafnvægi á þetta með þeim auknu útgjaldatillögum, sem nú eru gerðar till. um og von er á, þarf annaðhvort að afla verulega mikilla meiri tekna eða taka veruleg útgjöld út. — Þetta er mikill fróðleikur. Er það nú stefna. Það er von, að Framsfl. sé hreykinn af þessum manni sem helzta fjármálasnillingi, sem hann hafi alið og á að vera hátindur framlags þess flokks til íslenzkra stjórnmála, að hæstv. fjmrh. skuli leyfa sér að koma hér á Alþ. við 2. umr. fjárlagafrv. og hafa ekki annað fram að færa um það, hvernig eigi að afgr. það mál, sem á að vera hans aðalstarf milli þinga að undirbúa till. í hendur Alþingis um, svo að Alþingi geti gengið að og tekið þær til athugunar, strax og það kemur saman. Hinn 13. des., örfáum dögum áður, en málið á að afgreiðast í heild frá Alþingi, er þetta öll sú vizka, sem við fáum að heyra um snjallræði ríkisstj. í þessum efnum.

Svo segir fjmrh. hæstv.: Af hverju koma ekki sjálfstæðismenn með till. um afgreiðslu fjárl.? Hvar hefur hæstv. fjmrh, yfirleitt verið? Af hverju heldur hann, að það sé sérstakt fjmrn.? Af hverju heldur hann, að hann hafi þegið laun af íslenzku þjóðinni nú sem fjmrh. hátt á annan áratug? Það er til þess að gera þessar till. ár hvert, og til þess hefur hann hið mikla ríkiskerfi í sínum höndum, vegna þess að enginn þm. né þingheimur í heild getur gert slíkar till. án þess að hafa þær upplýsingar, sem hér er um að ræða. Og þegar hann er spurður um upplýsingar, jafnvel einföldustu upplýsingar, hæstv. fjmrh., þá svarar hann út í hött. Eilífðar svarið, sem við fáum, er þetta: Það var eins og það var áður, það er ekkert verra hjá mér, en það hefur verið undanfarin ár. — Það er nánast eins og: þú getur farið til afa þíns og langafa, sem eru dánir og grafnir, og spurt þá. Hvers konar rökfærsla er þetta og hvernig er hugsanlegt, að íslenzka ríkinu geti vegnað vel undir forustu slíkra manna? Og verðum við ekki að játa það, sem okkur marga tekur sárt, mig ekki sízt, sem hef að ýmsu leyti enn mætur á þessum manni persónulega og hef ekkert nema allt gott um hann að segja sem einstakling, að mig tekur sárt að sjá, hvernig fyrir þessum manni er komið, Ég sé, að það er engin tilviljum, að hann getur ekki komið svo í opinbert hóf á Akranesi án þess að verða sér þar til skammar með því að fara að gefa Akurnesingum fyrirskipun um það, hvern þeir eigi að velja fyrir bæjarstjóra við næstu kosningar. Hann getur ekki hlustað hér á mál manna á Alþingi, venjulega er hann eins og fló á skinni, hoppandi til og frá og þolir ekki við inni í salnum. En ef hann er inni í salnum dálitla stund, þarf hann að hrópa hótanir til þm. um að beita þá fjárkúgun, eins og hv. 1. þm. Rang. (IngJ), eða þá að hann kemur hér upp í ræðustólinn og segir aðra eins dómadagsvitleysu og hann hefur haldið hér fram í dag, ýmist hrein ósannindi eða algerar blekkingar.

En þegar slíkt hendir mann eins og hæstv. fjmrh., þá er það vegna þess, að hann er lentur í ræningjahöndum og er að flytja mál, sem hann trúir ekki sjálfur á. Hann veit sjálfur, að hann hefur rangt fyrir sér, að hann hefur gert ófyrirgefanlega skyssu gagnvart þjóðinni um forsjá hennar mála, brugðizt því trausti, sem ýmsir menn höfðu til hans borið. Hann skammast sín fyrir að játa mistök sín og yfirsjónir, og í stað þess að koma sem iðrandi syndari fram og játa hreinlega sín glappaskot, forherðist hann í bili í yfirgangi og frekju, sem brýzt svo fram með þessum furðanlega hætti, frumhlaupi hans gagnvart Akurnesingum, hótunum hans hér í Alþ. í gær, beinum ósannindum hans í gær og aftur í dag.

Nei, auðvitað er það skylda stjórnarandstöðu að gera grein fyrir sínum till. og gagnrýna það, sem fram kemur. En það er fyrst og fremst skylda stjórnarinnar að leggja fram till. um þau mál, sem enginn annar en ríkisstj. getur undirbúið, þannig að frambærilegt sé, vegna þess að hún ein hefur þá þekkingu, þann efnivið, sem smíða verður till. úr, enda er það vitað, að fjárl. umfram allar aðrar till. eru fyrst og fremst og hljóta eðli sínu samkvæmt að vera till. ríkisstj. Það er meira að segja í sumum þjóðþingum svo, að þm. er óheimilt að gera hærri fjárveitingartill. en sjálf ríkisstj., af því að fjárl. eru þannig til komin, að það er umsögn ríkisstj. um það, hvað hún þurfi á miklu fé að halda til þess að halda ríkisbúskapnum við næsta fjárhagstímabil. Það er enginn annar en ríkisstj, sjálf, sem getur lagt fram þessar till., lagt fram þessa beiðni til þjóðþingsins um að fá henni svo og svo mikið fé í hendur. Það er alveg eins og þegar hæstv. ráðherrar eru að ásaka sjálfstæðismenn fyrir það, að þeir skyldu ekki í fyrra koma með sjálfstæðar tillögur um lausn efnahagsmálanna í samkeppni við jólagjöfina alræmdu, till., sem byggðar eru þannig upp samkvæmt margra ára viðtekinni reglu, að það er ómögulegt að semja þær án þess að hafa aðgang að gögnum, sem ríkisstj. ein og hennar trúnaðarmenn og margar ríkisstofnanir hafa yfir að ráða. Það eru þessir aðilar einir, sem gögnin hafa, og þess vegna geta engir, eins og fyrirkomulagið nú er, — við getum gagnrýnt sjálft fyrirkomulagið, — en eins og fyrirkomulagið er nú, getur enginn gert heillegar till. um þetta annar, en sjálf ríkisstj. Þetta er vituð staðreynd, sem allir þm. auðvitað gera sér grein fyrir. Þrátt fyrir það leyfir hæstv. sjútvmrh. sér öðru hvoru og aðrir hæstv. ráðh. að segja: Af hverju komu sjálfstæðismenn ekki fram með sjálfstæðar till. um það, sem stjórnin ein hafði eðli málsins samkvæmt færi á að forma?

Það, sem var vítavert hjá ríkisstj. í fyrra, var ekki það, að hún loksins kom fram með till., en hitt, að Alþingi var gefinn allt of skammur tími til þess að átta sig á, hvað í till. fælist, og ég þori að fullyrða, að það er með öllu óvíst, að sjálfur sjútvmrh. hafi vitað með nokkurri vissu, hvað hann var þá að leggja til að Alþingi samþ. Og ég þori að fullyrða, að það er með öllu víst, að margir ráðh. og nær allir þm. höfðu ekki hugmynd um, hvað þeir voru að samþ., þegar þessar álögur voru samþ., hvernig þessu fé skyldi varið, enda er það að koma í ljós smám saman, eftir því sem á árið hefur liðið, að ríkisstj. er með nýjum og nýjum hætti, að gera grein fyrir, hvað í þessum till. frá í fyrra hafi fólgizt, því, sem hún átti að gera grein fyrir strax og till. voru fram bornar. Vitanlega á Alþingi, áður en því er ætlandi að taka ákvörðun um mál, að fá fullnaðargreinargerð um, hvað í till. ríkisstj. felst, hver sem hún er og á hvaða tíma sem er. Og fyrst þegar slíkar fullnægjandi grg. liggja fyrir, þannig að ljóslega sé hægt að átta sig á, hverjar till. valdhafanna eru, kemur að þm., hvort sem eru stjórnarstuðningsmenn eða stjórnarandstæðingar, að taka afstöðu til málsins.

Það slæma er, að stjórnarliðið hér hefur í fyrra og ætlar eins nú að sætta sig við að taka ákvarðanir til samþykktar á fyrirskipunum frá ríkisstj., án þess að nokkur fullnægjandi grein sé gerð fyrir, hver fyrirætlunin raunverulega sé hjá ríkisstj., og þess vegna samþykkja þm. till., sem þeir hafa ekki hugmynd um, hvað í felst, og þeir standa alveg ráðalausir uppi gagnvart sínum kjósendum að skýra, hvað þeir raunverulega hafi samþ.

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram, að ég á töluvert eftir af minni ræðu. Ég hef einungis svarað hæstv. fjmrh., en hafði kvatt mér hljóðs áður, og sá hluti ræðunnar er eftir. En hér eru, ef svo má segja, nokkur kaflaskipti, af því að ég ætla að víkja að einstökum atriðum frv., eins og það liggur fyrir nú, þannig að ef fundarhlé á að verða, þá kæmi það sér e.t.v. bezt. (Forseti: Er þá ekki bezt að hafa fundarhlé nú, ef hv. þm. vildi fresta síðari hluta ræðu sinnar þangað til.) Já, þangað til á eftir, ég vildi benda á það. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Svo sem ég lýsti nokkuð og þó ekki eins og vert væri, er undirbúningur fjárl. að þessu sinni með alveg einstæðum hætti og á annan veg, en venjur standa til. Ég skal þó ekki rekja þá sögu lengur, heldur snúa mér að einstökum atriðum í frv., þar sem ég tel, að til athugunar hljóti að vera ýmist auknar eða breyttar aðferðir, fjárveitingar eða aðferðir frá því, sem verið hefur.

Í gær bar ég fram till. um það að ætla sérstakt fé til bygginga lögreglustöðva og umbóta á fangelsum. Samkv. fyrirmælum hæstv. fjmrh. var þessu umbótamáli synjað í Nd. Alþ. Ég tel, að hér sé þó um slíkt nauðsynjamál að ræða og raunar fullkomið mannúðarmál, að ekki megi láta við svo búið standa, og vil því skjóta því til hv. fjvn., ef hún yfirleitt hefur eyru opin og vill sinna till. einstakra þm., hvað þá þeirra, sem í stjórnarandstöðu eru, að mikil þörf er á aukinni fjárveitingu í þessu skyni, og læt mér að öðru leyti nægja að vísa til þeirrar grg., sem ég flutti um þetta í gær.

Þá vildi ég benda á, að mikil þörf er á því, að fé til nýrra skólabygginga sé stórlega aukið frá því, sem lagt er til í stjfrv. Á þeim tíma, sem ég gegndi starfi menntmrh., fékk ég því áorkað, að sett var ný löggjöf um fjármál skóla, þar sem bæði var tryggt betra eftirlit, en áður hafði verið, og hafði þó fyrirrennari minn, Björn Ólafsson, átt mikinn þátt í stórkostlegum umbótum í þessum efnum, en lögfesting á því fyrirkomulagi fékkst í þeirri löggjöf, sem ég beitti mér fyrir.

Jafnframt var í þeirri löggjöf gerð ráðstöfun til þess, að ekki yrðu framvegis sömu vanskil af hálfu ríkisins varðandi nýjar skólabyggingar og verið hafa að undanförnu,en þau vanskil eru langt komin með að sliga fjárhag margra sveitarfélaga. Með þeim reglum, sem þarna voru teknar upp, vonast ég til þess að takist að ráða bót á þessu á tiltölulega stuttum tíma, ef ekki verður breytt til hins verra frá því, sem þá var samkomulag um. En það er ekki nóg, þó að gamlar skuldir séu greiddar upp, ef úr hömlu verður látið dragast óhæfilega að reisa nýjar skólabyggingar. Þeirra er þörf víðs vegar úti um byggðir landsins, en með eðlilegum hætti ekki síður í þéttbýlinu og þar sem fólksfjöldi er nú mest að aukast. Til þess að hægt sé að standa undir þörfum í þessum efnum, þarf verulega aukið fé frá því, sem verið hefur, og ég vil treysta því, að þegar hv. fjvn. nú hefur tekið sér frest enn til að gera ákveðnar till. um þessi efni, þá sé það með þessi höfuðsjónarmið í huga.

Um þessar mundir hefur mikið verið talað um nytsemi fræðslulaganna frá 1907, og víst voru þau stórmerk nýjung, og ekki verður of mikið gert úr almenningsfræðslu. En hún getur því aðeins haldizt uppi, ef nauðsynlegar skólabyggingar eru til. Þær eru þar frumskilyrði, alveg eins og segja verður, að góð almenningsmenntun er frumskilyrði nú á dögum, ekki aðeins fyrir því, að æðri vísindi verði stunduð, heldur einnig fyrir hagsæld þjóðarinnar. Án góðrar menntunar og þess, að rækilega sé kannað, að engir miklir hæfileikar fari forgörðum í þjóðfélaginu, vegna þess að unglingum sé ekki gefinn kostur á að menntast eins og kostir þeirra standa til, er vonlaust, að hvort heldur stórt eða lítið þjóðfélag fái staðizt á þeim tímum tækni og vísinda, sem nú eru upp runnir.

Ég tel því, að það sé eitt hið allra mest áriðandi málefni, sem úrlausnar biður, að séð sé fyrir nægu fé til skólabygginga, og þá á ég fyrst og fremst við til barnaskólabygginga víðs vegar um landið.

Því miður voru áður fyrr nokkur misstig stigin í þessu. Reistir voru með ærnum kostnaði á sumum stöðum á landinu skólar fyrir unglinga, sem ekki hafa reynzt lífvænlegar stofnanir. Með þessu hefur nokkru fé verið sóað, en það eru misstig, sem menn verða að taka og telja það fé glatað, og það má ekki verða til þess, að menn horfi í það, sem nú skiptir mestu máli, að koma þessu skólabyggingamáli í sæmilegt horf: í fyrsta lagi að greiða upp samkv. þeirri áætlun og samkomulagi, sem gert var, þær skuldir, sem á eru fallnar, en jafnframt að láta skuldagreiðsluna ekki verða til þess að stöðva nýjar nauðsynlegar byggingar, því að þá má segja, að nærri sé verr farið, en heima setið, og er algerlega andstætt þeim tilgangi, sem vakti fyrir mönnum, þegar þessi lög um fjármál skólanna voru sett.

Í því sambandi vil ég einnig benda á, að það muni vera þörf á auknum fjárveitingum bæði til menntaskólans í Reykjavík og ekki siður til kennaraskólans, ef það er alvara, sem hæstv. menntmrh, lét í veðri vaka fyrir skömmu, að ríkisstj. ætlaði nú ekki lengur að láta úr hömlu dragast að koma þeirri byggingu upp.

Hins vegar vil ég benda á, að í frv. er ætlað fé — að vísu heldur takmarkað — til byggingar menntaskólahúss á Laugarvatni. Ég hef borið fram till. um, að athugað verði, hvort ekki sé fært að flytja þennan menntaskóla til Skálholts, Það er víst, að það muni kosta of fjár að koma þessum húsum á Laugarvatni í það horf, að þau verði sæmilegur húsakostur fyrir menntaskóla, og það væri áreiðanlega hyggilegt að ganga nú þegar úr skugga um það með fullkominni rannsókn, hvort eigi muni vera hyggilegra að breyta þegar í stað til og flytja skólann að Skálholti, þar sem hægt er að byggja hann upp frá grunni með þarfir menntaskóla eins fyrir augum, en ekki er verið að bæta gamalt fat í meira og minna ráðleysi, eins og ofan á hefur orðið á Laugarvatni, enda hefur sú raun á orðið, að sambúð skólanna á Laugarvatni hefur engan veginn, a.m.k. ætíð, verið svo góð sem skyldi. Það mundi vera hægt að nota núverandi húsakost á Laugarvatni til annarra skóla, sem þar eru, ef fljótt yrði brugðið til, en auðsæ ástæða af þjóðlegum ástæðum og sögulegum einmitt að láta menntaskóla í sveit risa í Skálholti, þeim stað, þar sem skólahald þvílíkt hefur lengst veríð á landi hér.

Þá vil ég einnig benda á, að nauðsynlegt er að bæta við fé til leikvangsins í Laugardal. Sú mikla framkvæmd er nú orðin öllum auðsæ. Jafnframt var það ljóst á s.l. sumri, að ríkið hefur mjög vangoldið til þess stórvirkis, sem þar er um að ræða, og því mjög eðlileg ósk Reykvíkinga, að þar verði metin jöfnuð nú sem allra bráðast.

Ég sé í till. n., að þar er ráð fyrir því gert, að felldur sé niður smástyrkur, sem veittur hefur verið til námsbóka í unglinga- eða gagnfræðaskólum. Þetta er rökstutt með því, að það sé sérstök fjárveiting til námsbókaútgáfu á öðrum stað í fjárlögunum, og þar sem þessir skólar komi nú undir námsbókalögin, sé ástæðulaust að hafa sér fjárveitingu í því skyni. En þá vil ég spyrja hv. frsm. fjvn. og hæstv. menntmrh.: Dugir sú fjárveiting, sem nú er í frv., til þess að gegna þeirri viðbótarskyldu, sem lögð var á sjóðinn, — viðbótarskyldu, sem einmitt var lögð á sjóðinn ekki sízt fyrir framgöngu núverandi hæstv. menntmrh.? Ef ég hef skilið þetta mál rétt, fer því fjarri, að núverandi fjárveiting sé fullnægjandi í þessu skyni. Eftir þeim gögnum, sem ég hef aflað mér, mun ekki veita af því fé, sem nú er veitt, til þess að standa undir þeim skuldbindingum, sem á þessum sjóði voru áður, og alls ekki vera fé aflögu til þeirra nýju þarfa, sem skapaðar eru og verið er að veita enn ávísun á með þessari annars tiltölulega litlu brtt. hv. fjvn. Ég hygg, að það sé óhjákvæmileg nauðsyn að athuga það mál betur, en gert hefur verið.

Þá vil ég benda á það, sem ég hreyfði innan ríkisstj. og gagnvart Alþingi, meðan ég var menntmrh., að verja ætti nokkru fé til þess að greiða fyrir, að máluð yrðu nokkur málverk úr sögu Íslands, — málverk, sem síðan mætti geyma t.d. hér í Alþingi, svipað og er með hið mikla málverk af þjóðfundinum, sem er komið hér í forsalinn nú, og eins prýða aðrar opinberar byggingar með. Eitt af því, sem vekur mesta athygli ferðalangs, sem fer um erlendar stórbyggingar, er að sjá hin mörgu málverk úr sögu þjóðanna, sem eru til prýði í þeirra sögulegu byggingum. Eins hafa sumar þjóðir, t.d. Danir, gefið út yfirlitsbækur um helztu málverk þessarar tegundar, þar sem hægt er að rekja sögu þjóðarinnar af þessum málverkum. Ég þori að fullyrða, að einmitt slík málverk eigi meiri þátt, en flestir menn gera sér grein fyrir, í því að gera liðna atburði lifandi og þannig tengja æskulýð og núlifandi kynslóð við fortíðina. En öll erum við öðru hvoru að tala um rótleysi æskunnar og þörfina á því að tengja fortíð og nútíð sterkari böndum, en menn í bili telja að sé. Ég mundi telja æskilegast, að þessu yrði fyrir komið með því, að nokkrir valdir menn, t.d. prófessorar við háskólann, listfræðingar eða sérstakir trúnaðarmenn ríkisins í þeim efnum, væru látnir bæði velja verkefni og síðan meta þau listaverk, sem gerð væru í þessu skyni, en þau, sem talin yrðu hæf til að þjóna þessum tilgangi, væru mjög ríflega borguð, þannig að til einhvers verulegs væri að vinna. Til þess arna mundi ekki þurfa neitt verulegt fé, kannske 100–200 þús. á ári til að byrja með. En ég hef mikla von um og byggi það á því, sem ég hef séð annars staðar, að slíkt mundi verða til meira gagns, en menn í fljótu bragði gera sér grein fyrir, enda er það svo að við sjáum það sjálfir, þm., að þó að okkur þætti t.d. myndin af þjóðfundinum í fyrra nokkuð stór fyrir forsalinn hér niðri og ef til vill þætti ekki öllum hún gallalaus, þegar við lítum hana í fyrstu, þá mundu mjög fáir okkar nú vilja missa af henni. Og ég þori að fullyrða, að margir gestir þinghússins fá miklu meiri vitneskju um þennan mikla atburð, þjóðfundinn, eftir að hafa séð þetta málverk, heldur en ella. Sjálfur hef ég orðið þess áhorfandi, að erlendir menn, sem hér hafa komið, bæði sendimenn og eins menn, sem hafa verið hér á milliríkjafundum, hafa allir spurt eftir, af hvaða atburði þessi mynd væri, og einmitt það hefur gefið nokkuð færi á að skýra, þótt í fáum orðum væri, baráttu okkar Íslendinga fyrir frelsi, baráttu, sem alls ekki ætíð var svo létt eða auðveld sem sumir nú virðast halda. Ég vona því, að þetta mál, sem er eitt af þeim, sem hæstv. fjmrh. ásakaði mig fyrir á sínum tíma að væri óhæfileg ágengni á fé úr ríkissjóði að vilja fá fram, — ég vonast til þess, að það nái fram að ganga, hvort það verður á þessu þingi eða síðar, skiptir ekki öllu máli, en ég er sannfærður um það, að þegar menn athuga þetta hlutlaust, sjá þeir, að hér er um gott mál að ræða, sem vert er að greiða fyrir.

Þá tel ég mjög mikilsvert, að verulegu fé verði varið til þess að koma á móti Reykjavíkurbæ, Reykjavíkurkjördæmi, til að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Öll bæjarstjórn Reykjavíkur sameinaðist um áskorun til þingsins um veruleg fjárframlög í þessu efni, þannig að ríkið léti ekki sitt eftir liggja frá því, sem ráðgert hafði verið, þegar húsnæðismálalöggjöfin var sett í tíð stjórnar Ólafs Thors. En því miður hefur raunin orðið sú, að við þau fyrirheit, sem þá var ætlunin að framfylgja, hefur af síðari valdhöfum og fjármálastjórninni ekki ætíð verið staðið.

Ég sé litla till. frá hv. 5. landsk. þm. um styrk til þess að gefa Íslendingum, sem vinna við erlend sendiráð, og fjölskyldum þeirra, kost á því að koma til landsins öðru hvoru, á þriggja ára fresti, hygg ég vera. Ég tel, að þessi till. sé sanngjörn. En í því sambandi vil ég hreyfa máli, sem kannske sumum finnst hégómamál, en er þó að mínu viti ekki svo, og það er, að ég tel, — ég á hægara með að stinga upp á því nú, vegna þess að ég er í andstöðu við hæstv. ríkisstj., — að ég tel, að það væri til mikilla bóta, ef ríkisstj. hefði yfir að ráða einni laxá til þess að gefa erlendum gestum og þá ekki sízt erlendum sendimönnum, sem hér dveljast, kost á því að fara til veiða. Sannleikurinn er sá, sem við megum ekki loka augunum fyrir, að land okkar er fámennt, þjóðin lítil og þeir menn, sem hér dveljast sem fulltrúar frá öðrum löndum, hafa ekki jafnmikið við að vera af heimsins gæðum og víðast hvar annars staðar. Flestir af þessum mönnum eru hneigðir til útilífs og til veiða. Það tilheyrir þeirra uppeldi frá æsku, að þeir eru vandir við þetta, jafnvel meira en við ýmsir Íslendingar, og þess vegna þykir þeim meira til koma að eiga kost á slíkum veiðum og dvöl þar nokkra daga, heldur en menn í fljótu bragði skyldu ætla. Eins er enginn vafi á því, að erlendir fyrirmenn, sem hingað koma, og marga fýsir að koma, þótt þeir hafi enn ekki átt þess kost, — við skulum segja utanríkisráðherrar stórveldanna, sem Íslandi gæti orðið stórmikið gagn af, ef hingað kæmu og kynntust nokkuð landshögum, — þeir mundu frekar gera það og dveljast hér, þótt stuttan tíma væri, ef hægt væri að gefa þeim kost á slíkum veiðum, þótt ekki væri nema stuttan tíma. Mér er þeim mun hægara að tala um þetta, sem ég er sjálfur algerlega frábitinn veiðimennsku og mundi ekki leggja stund á það, þótt ég ætti þess kost. En ég hef séð, að þarna hefur verið vöntun. Ég hygg, að ríkisstj. hafi á sínum tíma, á fyrstu stríðsárunum, átt nokkurn kost á þessu, en það síðan lagzt niður. Ég tel það illa farið og það sé ekki um svo mikið kostnaðaratriði að ræða, að í allri þeirri eyðslusúpu, sem nú er fyrir hendi, ætti að taka þetta til athugunar, enda er það vitað mál, að eitt fyrirtæki hér, Samband ísl. samvinnufélaga, hefur eina eða tvær laxár með miklum og glæsilegum aðbúnaði til risnu fyrir þá gæðinga, sem því fyrirtæki eða vildarmönnum þess þykir henta að sýna sérstaka greiðasemi. Ég veit það, að hæstv. fjmrh., sem þar er mikill ráðamaður, gerir það áreiðanlega ekki af neinni útspilunarsemi að halda uppi þeim veglegu útlátum, sem þar eru í frammi höfð, heldur vegna þess, að hann telur fyrirtæki það, sem hann er settur til að veita forstöðu, hafa af því hag, þótt óbeinn sé. En ef eitt verzlunarfyrirtæki, jafnvel þótt stórt sé og fær óvenjulegan gróða öðru hvoru, eins og 15 millj. kr. okurgróðann í fyrra, sem hæstv. ríkisstj. lét þetta fyrirtæki fá, — ef eitt slíkt fyrirtæki getur haft eina eða tvær laxár í þessu skyni, þá ætti ríkinu ekki að vera það ofvaxið. Og sérstaklega vil ég nú beina því til þeirra hv. þm., sem ráðgera að samþykkja að taka áfengi úr opinberum veizlum, en hv. 1. þm. Eyf. taldi, að það mundi einkum bitna á útlendingum og þess vegna vera utanríkismál, að víst mundi það þessum mönnum vera mikil bragðbót, ef þeir fengju að fara á laxveiðar í staðinn, ef þeir fengju engar áfengisveitingar lengur, þegar þeir heimsæktu hæstv. ríkisstj.

Ég tel rétt að hreyfa þessu hér. Þetta er ekki eitt af stórmálunum, en þó þess eðlis, að ég tel rétt, að á það sé drepið.

Þá vil ég benda á það, að nú er áætluð allstór upphæð í fjárlagafrv., ég hygg 131/2 millj., til ráðstöfunar nánast óbundið fyrir hæstv. ríkisstj. til atvinnubóta. Það kom fram í umr. hér í gær, að við sjálfstæðismenn lögðum á það mikla áherzlu, meðan við vorum í ríkisstjórn, en hæstv. þáverandi og núverandi fjmrh. stöðvaði það, að sett yrði 5 manna þingkosin n. til þess að úthluta slíkum fjárveitingum. Þá hafði hæstv. fjmrh. ekki á móti því, að sjálfstæðismenn hefðu nokkur ítök í úthlutuninni, en það voru mennirnir úr flokknum með langa nafninu, Sameiningarflokki alþýðu, Sósíalistaflokknum, sem ekki máttu þar nærri koma. Nú eiga þeir eftir þessari till. að hafa sín áhrif, en við sjálfstæðismenn sennilega engin. En það er í fullu samræmi við það, sem við áður töldum og eitt er rétt og sanngjarnt, að þegar svona stór upphæð er veitt af þinginu, sé það þingnefnd, þar sem hlutföll þingflokka komi rétt fram, eftir því sem hlutfallstala nær til, sem ráði úthlutuninni. Ég tel því, að það sé mjög mikilsvert, að bætt verði inn, að 5 manna þingkjörin n. úthluti þessu fé, en ekki ríkisstj., og ég segi það ekki af sérstöku vantrausti á hæstv. núverandi ríkisstj., þó að það sé ærið, heldur vegna þess, að ég hef talið, taldi áður og tel enn, að sá háttur sé betri og hæfilegri, sem ég nú nefni, heldur en sá, sem ráðgerður er í frv.

Það hafa verið boðaðar sérstakar sparnaðartill., og um þær verður náttúrlega að taka ákvörðun, þegar þær liggja fyrir, en ég vil benda nú þegar á tvennt, sem ég tel að mjög miklu máli mundi skipta.

Annað er það, að það er höfuðnauðsyn að setja löggjöf um sjálft stjórnarráðið og starfsemi þess, og ég tel langeðlilegast, að slík löggjöf væri sett eftir till. frá mþn., sem kosnir væru í 5 menn hlutfallskosningu í Sþ. Það er ekki heppilegt, eins og verið hefur, að við hver stjórnarskipti sé sjálfu skipulagi stjórnarráðsins meira og minna umturnað. Það væri miklu heppilegra, ef flokkarnir, allir þeir, sem líklegt er að um sinn hafi einhver veruleg áhrif, hvort sem þeir eru utan eða innan stjórnar á hverjum tíma, kæmu sér saman um það, hvert fyrirkomulag hins æðsta fasta stjórnvalds í landinu ætti að vera. Það var sett löggjöf um þetta efni 1904, þegar stjórnin varð innlend. Sú löggjöf er fyrir löngu orðin úrelt og algert brotasilfur. Niðurstaða seinni ára hefur verið sú, að hver ráðh., sem vildi gera sig sætan í augum tiltekinnar stéttar, hefur stofnað ráðuneyti yfir hennar málum með sérstökum mönnum og sérstökum skrifstofustjóra. Ef það hefur þótt erfitt að veita skrifstofustjóra embætti, hefur ráðuneyti verið skipt í tvennt til þess að geta komizt hjá því óþægilega vali, sem verður þó það minnsta, sem stjórnendur verða að gera, að velja á milli tveggja manna í aðeins eitt embætti. Til þess að verðlauna enn sérstaklega þá, sem í náðinni eru hjá ráðh. hverju sinni, hefur verið fundið upp á því að hafa deildarstjóra í ráðuneytum, mjög eftir tilviljun og geðþekkni hvers um sig. Allt þetta bákn, stjórnleysisbákn, sem á að stjórna öðrum, hlýtur að leiða til miklu meira loss í allri framkvæmdastjórn ríkisins, en menn í fljótu bragði gera sér grein fyrir. Ef menn sjá, að í sjálfri hinni æðstu stjórn er fullkomið los og hver ráðh. breytir til og hagar eftir því, sem annaðhvort persónuleg geðþekkni hans eða flokkshagsmunir réttir eða ímyndaðir segja til um, þá hlýtur það að hafa áhrif í gegnum allt stjórnkerfið. Það er gömul regla, sem á við ekki siður um þetta en annað, að eftir höfðinu dansa limirnir, og það er enginn vafi á því, að sú óhæfilega aukning ríkisbáknsins, sem allir tala öðru hvoru um, en hefur farið vaxandi og það án tillits til þess, hverjir hafa verið við stjórn núna síðustu tvo, þrjá áratugina eða lengur, á ekki sízt rætur sínar að rekja til þeirrar lausungar, sem hefur verið í sjálfu stjórnarráðinu og á hinni föstu stjórn þar. Með þessu er ég ekki að færa að neinum tilteknum manni þar. Ég vil taka það fram, að allir þeir, sem ég hafði þar samvinnu við, reyndust mér hinir prýðilegustu menn og á þann veg, að ég kann ekki nema allt gott um þá að segja. En því aðeins er hægt að bæta um, að menn læri af reynslunni, og ég er sannfærður um, að þetta atriði er eitt þeirra, sem mikla þýðingu geta haft.

Enn fremur vildi ég benda á eitt áhrifaríkt atriði, og það er það, ef sett yrði í fjárl., að allar umframgreiðslur væru óheimilar, nema samþykki allrar ríkisstj, kæmi til. Eins og verið hefur undanfarið, hefur fjmrh., talið sér heimilt að hafa þær umframgreiðslur, sem honum þóknast, án þess að spyrja kóng eða klerk, ef svo má segja, og jafnvel án þess að gera grein fyrir því fyrr, en eftir dúk eða disk. Þvílíkt sjálfræði einstaks ráðh. til þess að fara sínu fram um fjármál ríkisins kann ekki góðri lukku að stýra og á verulegan þátt í þeirri mjög miklu og óhæfilegu þenslu, sem orðið hefur.

Á meðan ég þekkti til, var það svo, að bráðabirgðalög voru ekki gefin út, nema öll ríkisstj. væri sammála um þá lagasetningu. Fjárveitingar umfram fjárl., eru í raun og veru í eðli sínu ekkert annað en bráðabirgðafjárlög, og þess vegna er það engin ósvinna eða lítilsvirðing á fjmrh. sem slíkum, þó að hann um sín embættisstörf verði í þessu að lúta sömu reglum og aðrir ráðh., sem ekki mega breyta lögum skv. viðtekinni reglu, þó að þeir megi gera það eftir stjórnarskránni, nema með samþykki sinna samráðherra.

Þetta eru þau einstök atriði, sem ég vildi skjóta fram á þessu stigi. Eins og hv. frsm. minni hl. tók fram, er frv. svo illa úr garði gert, að það er ekki hægt að segja, að þetta sé eiginlega 2. umr. Menn vita ekkert enn þá, hvernig fjárlagaafgreiðslan í heild er hugsuð, og þess vegna er ekki tímabært að bera fram brtt. fyrr en lengra er komið, og áskil ég mér rétt til þess að gera það við 3. umr., en vildi nú þegar hreyfa þessum atriðum.