13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Mitt erindi upp í ræðustólinn hér nú er aðeins að vekja athygli á nýju viðhorfi í hafnarmálum okkar, nýju viðhorfi, að því er til þess tekur, að nú um nokkurt skeið hefur verið veitt nokkuð svipuð upphæð á fjárl. til hafnarframkvæmda á hverju ári án tillits til þess, um hve stórtækar framkvæmdir á vegum einstakra bæjar- eða sveitarfélaga hefur verið að ræða.

Nú er það svo um hafnarframkvæmdir, eins og raunar fleira á því sviði, að það getur verið hagkvæmt og miklu hagkvæmara að taka fyrir nokkuð stóran áfanga í einu, heldur en vera að skipta þessu niður á lengri tíma, og það er einmitt það, sem nú hefur gerzt á nokkrum stöðum hér á landi á undanförnum tveimur árum, og þó alveg sérstaklega á einum stað, á Akranesi, að þar hefur verið tekinn fyrir mjög stór áfangi, sem nú er verið að ljúka við. En þetta skapar mikinn vanda fyrir þá, sem að slíkum verkum vinna, að ekki skuli vera hægt að mæta þessum framkvæmdum með auknu framlagi frá ríkissjóði, þ.e.a.s. að hægt sé að standa við ákvæði hafnarlaganna um það, að 2/5, eins og greitt er til allra stærri hafnarframkvæmda hér á landi, skuli vera greiddir á ekki allt of löngum tíma.

Ég ætla þess vegna að skýra hér frá viðskiptum hafnarsjóðs á Akranesi og ríkissjóðs, miðað við lok þessa árs og líka miðað við áætlanir, sem gerðar hafa verið um framkvæmdir á næsta ári, og hvernig sakirnar muni standa við þau áramót, í lok þess fjárhagsárs, sem nú er verið að semja fjárlög fyrir.

Í lok þessa árs var vangoldið af ríkissjóðsframlagi til þessara framkvæmda á Akranesi 6 millj, og 950 þús. kr. eftir upplýsingum, sem vitamálastjóri hefur gefið fjvn. um þetta efni. Í lok næsta árs, þ.e. 1958, sem við erum nú að afgreiða fjárl. fyrir, er gert ráð fyrir, að þessi upphæð verði komin upp í 7 millj. og 70 þús. kr., sem þá er vangoldið af framlagi ríkissjóðs.

Nú er það svo, að samkv. þeim till., sem ég hef hér fyrir framan mig og fyrir liggja hér um greiðslur til hafnarframkvæmda á fjárlögum fyrir árið 1958, er gert ráð fyrir því, að framlag til hafnarsjóðs Akraness verði 450 þús. kr. upp í þessar rúmu 7 millj., sem þá stendur upp á ríkissjóð að greiða samkvæmt hafnarlögum. Þetta er nú það hámark til einstakra hafnargerða, 450 þús. kr., sem tekið hefur verið upp í þær till., sem nú liggja hér fyrir frá fjvn., og ekki er gert ráð fyrir, að farið verði fram úr því. Það sjá allir, að 450 þús. kr. upp í rúmlega 7 millj. kr. vangreitt framlag er ákaflega létt á metunum fyrir þá, sem standa undir slíkri framkvæmd. Hjá þeim tveim höfnum, sem næstar standa Akranesi um framkvæmdir á þessu tímabili, sem eru Vestmannaeyjar og Þorlákshöfn, standa sakirnar þannig, að til Vestmannaeyja er vangoldið framlag úr ríkissjóði í árslokin 1958 — eða gert ráð fyrir því — 2 millj. 660 þús. kr., til Þorlákshafnar nokkru meira, eða 3 millj. 270 þús. kr. Til þessara hafna er einnig gert ráð fyrir í till. fjvn. að veita hámarksupphæðina, sem er, eins og ég nefndi áðan, 450 þús. kr., eins og greiða skal til Akraness. En það gefur auga leið, að svo lág greiðsla þeim til handa veldur að sjálfsögðu hjá þessum aðilum einnig miklum örðugleikum. En af því má þá líka marka, hvernig þetta kemur við hafnarsjóð Akraness, sem nú á í lok þessa árs, eins og ég skýrði frá áðan, inni hjá ríkissjóði í sambandi við vangoldin framlög 6 millj. 950 þús. kr., sem gert er ráð fyrir að í lok næsta árs verði komið upp í rúmar 7 millj. kr.

Það er náttúrlega svo með Akraneshöfn, ekki síður, en aðrar hafnargerðir hér, að þetta er unnið að langsamlega mestu leyti fyrir lánsfé, og hvað Akraneshöfn snertir eða lántökur til þeirra framkvæmda, þá eru þetta tiltölulega stutt lán. Þessi trega greiðsla á ríkisframlaginu veldur því að sjálfsögðu miklum og mjög torleystum vanda fyrir Akranes. Þessi upphæð, 450 þús. kr., hrekkur engan veginn fyrir þeim árlegu vaxtagreiðslum, sem nú hvíla á hafnarsjóði Akraness, Þar vantar allmikið til. Ef ekki koma aðrar greiðslur til, en þessar 450 þús. kr., þá tekur það full 15 ár að fá framlagið greitt, og á þetta benti mjög réttilega hv. frsm. meiri hl. hér fyrr í dag til upplýsingar um það, hvernig þessum málum væri nú komið.

Ég bar fram till. í fjvn. til úrbóta á þessu, sem fól það í sér, að þetta vangoldna framlag ríkissjóðs yrði greitt a.m.k. á 7 árum. Og þetta fólst í því, að ég lagði til, að 750 þús. kr. yrðu teknar upp í till, n. og inn í fjárlögin, en gerði ráð fyrir, að 250 þús. kr. mundu fást á næsta ári úr hafnarbótasjóði og þannig væri fengin sú upphæð, sem nægði til þess að greiða þetta framlag að mestu leyti á 7 árum. En þessi till. náði ekki samþykki. Það þótti ekki fært að hverfa frá því, sem till. hljóðuðu um, að hækka þetta hámark, 450 þús. kr. Síðan ég bar fram þessa till. í fjvn. hef ég frétt, að það væri búið að ráðstafa að heita má öllu fé hafnarbótasjóðs fyrir árið 1958, án þess að Akranes fengi þar nokkra hlutdeild í, eftir væri aðeins óráðstafað af því fé, sem hafnarbótasjóði fellur til til úthlutunar á því ári, um 90 þús. kr., þetta væri gert með loforðum, sem búið væri að gefa, og auk þess einhverjum fyrirframgreiðslum úr sjóðnum til ýmissa annarra framkvæmda. Þessar upplýsingar ættu að vera réttar, því að þær eru fengnar hjá ráðuneytisstjóra, Páli Pálmasyni, en hann hefur þessi mál í sínum höndum.

Mér var það ljóst eftir undirtektir fjvn., að það mundi ekki þýða að bera fram nú hér brtt., sem hefði það í för með sér að hækka framlagið til þessara framkvæmda einna fyrir sig. Þess vegna er það, að hér verður að leita annarra úrræða, því að þessi mál standa þannig að því er Akranes snertir, að svona langur frestur á því, að þetta verði greitt, mundi skapa þau vandræði og erfiðleika þar, sem ekki er hægt að sjá, hvernig hægt verði fram úr að komast.

Ég hef þess vegna hugsað mér að bera fram, þegar við förum að ræða þessi mál aftur í fjvn. til undirbúnings fyrir 3. umr., till. í þá átt og leita eftir, hvort ekki er hægt að fá um það samkomulag til þess að jafna þessi met a.m.k. að einhverju leyti framar því, sem enn er gert, með því t.d. að taka upp till. um, að ríkisstj. verði veitt á 22. gr. fjárlaganna heimild til lántöku í þessu skyni.

Ég vona, að allir geti verið mér sammála um það, að þessi mál standi þannig, a.m.k. hvað Akranes snertir, að þá verði að greiða fram úr þeim vanda. Auk þess eru ýmsar aðrar hafnargerðir, sem einnig fá ekki nema nokkurn hluta af því, sem þær eiga vangoldið hjá ríkissjóði, og þyrftu sannarlega á aukinni fyrirgreiðslu að halda fram yfir það, sem felst í þeim till. um fjárveitingar, sem hér liggja nú fyrir.

Ég vænti þess, að um þetta geti orðið samkomulag.

Fjvn. barst nýlega bréf frá hv. þm. Vestm. og hv. 2, landsk. þm., formanni fjvn., þar sem mjög er óskað eftir því, að hægt verði að greiða frekar úr fyrir Vestmannaeyjakaupstað í þessu efni en till. liggja frammi um. Og þetta er ekki neitt undarlegt, því að það er náttúrlega erfitt fyrir þau bæjarfélög, sem standa í þessum framkvæmdum og verða að taka til þeirra dýr lán, að þurfa að bíða svo lengi eftir þessum greiðslum, en borga háa vexti af því fé, sem annars væri hægt að létta á með skjótari greiðslum af framlagi ríkisins.

Það væri líka mjög vel þess vert, og hef ég nú minnzt á það við hv. formann fjvn., að ef til vill væri ástæða til að taka til athugunar breytingar á hafnarlögunum að því er þetta snertir. Við vitum, að því fyrirkomulagi hefur verið komið á með breyttri löggjöf að því er snertir framlög til skólabygginga, að innt sé að fullu af hendi hjá ríkissjóði innan fimm ára það framlag, sem ríkissjóður á að inna af hendi til þessara bygginga. Það er alveg sýnilegt, að það verður sjálfsagt hafður sá háttur á um hafnarframkvæmdir eða hafnarbyggingar eftirleiðis í vaxandi mæli, að þar verði á hverjum stað teknir stærri áfangar, en enn hefur verið gert. Þetta er miklu verkdrýgra, og sparast áreiðanlega mikið fé við að hafa þennan hátt á. En það leiðir náttúrlega af sjálfu sér, að ef ríkissjóður á að inna af hendi sitt framlag, þá verður að haga framlagi á fjárlögum í þessu skyni með tilliti til þess, hve þessar framkvæmdir eru breytilegar og fjárfrekar á hverju ári fyrir sig, en þetta hefur ekki komið fram nú, því að fjárveitingarnar hafa verið nokkrar þær sömu nú um nokkurt skeið að undanförnu án tillits til þess, hversu miklu hefur verið kostað til á hverjum stað.

Ég vil svo vænta þess, að tekizt geti gott samkomulag um lausn á þessum málum. En mér skilst, að sakir standi þannig nú, að þar verði að koma breyting á frá því, sem er, ef ekki á að leiða af því alveg fullkomin vandræði, a.m.k. að því er Akraneskaupstað snertir, og þá er og hitt líka alveg eins og ekki síður athugunarefni að athuga það, hverjar breytingar á lögunum er nauðsynlegt að gera til samræmis við hagkvæma framkvæmd í hafnarmálunum yfirleitt.