13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, sem hér hefur verið margsagt og staðfest af hv. þm., er setið hafa áratugi á þingi, að afgreiðsla fjárlaganna er nú með meira flaustri, en áður hefur þekkzt.

Hv. frsm. meiri hl. fjvn., 2. landsk. þm., staðfesti þetta einnig, en það varð ekki á honum skilið annað, en hann kynni vel við þetta. Hann nefndi að vísu ekki beint, af hverju það væri, en e.t.v. er það af því, að honum finnst eðlilegt, að hér sé tekið upp svipað fyrirkomulag og talið er að sé austan tjalds, það lýðræði, sem er í því fólgið, að ríkisstj. ákveður skipun mála, en liðsmenn hlýða síðan möglunarlaust. (Gripið fram í.) Ríkisstj. svíkst ekki um að gera till.

þar, segir hann, nei. Hún er búin að lofa að gera einhverjar till. hér, þó að það standi nú eitthvað í henni enn þá.

Ég verð líka að hryggja hæstv. fjmrh. með því, að ég mun ekki hvísla að honum lausnarorðinu, sem leysi hann úr þeim álögum, sem hann hefur yfir sig leitt. Hitt getur satt verið, sem á honum mátti heyra, að lausnarinnar sé helzt að vænta frá sjálfstæðismönnum. Það væri a.m.k. ekki í fyrsta sinn, sem hann hefur verið feginn að leita þangað til bjargar.

Hæstv. ráðherra staðfesti það einnig, að hv. þm. stjórnarflokkanna vissu ekki meira um undirbúning fjárlfrv., en stjórnarandstæðingar og væru því jafn varbúnir að gera brtt. við fjárl. Hann vísaði okkur á embættismenn ríkisins um upplýsingar. Sjálfur hefur hann margsinnis verið ófáanlegur til að gefa þær upplýsingar, sem um hefur verið beðið. En gallinn er bara sá, að embættismennirnir vita ekki, hvar þeir standa, á meðan þeir hafa ekki fengið tækifæri til að ræða áætlanir sínar við hv. fjvn. Af þessu leiðir, að nú eru till. embættismannanna nánast frumdrög að till. eða jafnvel óskalistar, án þess að þeim hafi gefizt kostur á að ræða þær við fjvn. á svipaðan hátt og verið hefur á undanförnum árum. Eins er um svokallaða óskalista, er hv. alþm. hafa lagt fram. Þar hefur verið meira flaustur og handahóf á, en venja er til. Þegar svona er í pottinn búið, er ekki undarlegt, þótt erfitt sé fyrir fjvn. að afgreiða fjárl. frá sér á miklu skemmri tíma, en hún áður hefur haft til þess að athuga þessi mál.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta, en snúa mér að því að minna á nokkur atriði, sem ég tel að leiðrétta þurfi í frv. og till. hv. fjvn., en geymi mér rétt til að bera fram um það brtt. við 3. umr. fjárlaganna.

Það er þá 13. gr., 4. liður. Ég tel, að það þurfi að bæta við til stækkunar flugvellínum á Skipeyri við Ísafjörð 1 millj. kr.

Það er að vísu komin fram hér á Alþingi till. til þál. um flugsamgöngur Vestfjarða. Ég var því miður ekki viðstaddur, þegar sú till. var hér til umr., var þá fjarverandi úr bænum. En ég hef lesið þær umr., sem hér fóru þá fram, og af þeim virðist sem þessi mál séu skemmra á veg komin, en þau raunverulega eru. Það hefur raunverulega verið miklu meira um þessi mál hugsað og miklu meira að þeim starfað, en þar kemur fram eða í þessari till., sem hv. þm. Barð. og hv. þm. V-Ísf. lögðu hér fram til þál. Til sanninda um það vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér till., sem samþ. var með öllum greiddum atkv. á fjórðungsþingi Vestfirðinga nú í haust:

„Fjórðungsþingið skorar eindregið á flugmálastjórnina að hefja hið allra fyrsta flugvallargerð á Skipeyri við Skutulsfjörð. Enn fremur skorar þingið á flugmálastjórnina að láta fara fram rannsókn á flugvallarstæðum viðar á Vestfjörðum, eftir því sem henta þykir, til að tryggja viðunandi flugsamgöngur. Flugfélag Íslands, sem annast flugsamgöngur til Vestfjarða, hefur til þess tvær gamlar sjóflugvélar. Telur það ekki fært að kaupa nýjar sjóflugvélar. Þess vegna er brýn nauðsyn til þess að hraða flugvallargerð til þess að tryggja bættar loftsamgöngur við Vestfirði.“

Þessi till. var, eins og ég sagði áðan, samþ. í einu hljóði af fulltrúum Vestfirðinga á þessu fjórðungsþingi, en þar voru saman komnir fulltrúar úr öllum sýslunum á Vestfjörðum.

Þetta mál hefur verið athugað nokkuð á undanförnum árum. Það er öllum ljóst, sem hafa þurft að notast við þessar flugsamgöngur, sem verið hafa til Vestfjarða, að flugvélarnar eru orðnar gamlar og úr sér gengnar. Þar að auki má geta þess, að þegar þessi till. var samþ. í sumar eða haust á fjórðungsþingi Vestfirðinga, var ekki annað vitað eða þá var a.m.k. von um það, að tvær flugvélar væru til umráða til þessa flugs. En þó er raunin sú, að allt s.l. ár hefur flugvélin ekki verið nema ein. Það var talið, að hin flugvélin, sem Flugfélagið á af svipaðri gerð, væri í viðgerð og mundi brátt koma í brúk, en árangur hefur ekki orðið af því, hvort sem það hefur verið nauðsynlegt að taka hluti úr henni í varahluti í þá, sem verið hefur í gangi. En árangurinn hefur sem sagt orðið sá, að flugvélin, sem notuð hefur verið til þess að halda uppi flugsamgöngum við Vestfirði, hefur aðeins verið ein allt s.l. ár, og það eru engar horfur á því, að úr því rætist. Þar að auki er sú flugvél orðin gömul og úr sér gengin, eins og hér hefur komið fram, og er þetta því algerlega óviðunandi til frambúðar. Og satt að segja er ekki vitað, hvenær það getur að borið, að ekki verði hægt lengur að halda þessari vél við, og falla þá flugsamgöngur til Vestfjarða niður í því formi, sem þær eru nú. En þessi flugleið til Vestfjarða, sérstaklega til Ísafjarðar, er ein mikilvægasta og fjölfarnasta flugleið hér á landi. Það munu vera flugleiðirnar til Akureyrar, Egilsstaða og Vestmannaeyja, sem eru fjölfarnari eða meira notaðar, en þar næst kemur Ísafjörður. Flugvöllurinn, sem nú er á Ísafirði, er nýbyggður, en hann er svo lítill enn, að þar geta aðeins lent litlar flugvélar, sem allsendis eru ófullnægjandi til þess að anna þeim miklu farþega- og flutningaþörfum, sem hafa sýnt sig að vera á þessari leið.

Á undanförnum árum hefur verið að sumarlagi a.m.k. ein ferð daglega til Ísafjarðar, og oft hefur það ekki nægt og ferðirnar hafa þurft að vera tvær með þeim flugvélakosti, sem verið hefur, en það eru allstórar flugvélar, taka í kringum 20 farþega og allmikið af farangri. Er því augljóst, að með þeim flugvélakosti, sem getur lent á þeim flugvelli, sem nú er fyrir hendi á Skipeyri við Ísafjörð, er ekki nokkur leið að anna þeim flutningum. Stærsta vél, sem þar hefur lent enn, tekur ekki nema þrjá farþega.

Það hefur því á undanförnum árum farið fram veruleg athugun á því, hvað hægt væri að gera til úrbóta á þessum stað, því að bæði Flugfélagi Íslands og þeim, sem þar búa í kring, hefur verið það ljóst, að þetta gæti ekki verið til frambúðar, þessi lausn, sem verið hefur núna undanfarið, að halda uppi þessum flugsamgöngum með sjóflugvélum. Og það hefur verið unnið allmikið að því að finna þar heppilegan stað til flugvallargerðar, sem hægt væri að gera á flugvöll, er fullnægði þeim kröfum, sem þarf fyrir farþegaflug með svo stórum flugvélum sem nauðsyn er til að nota á þessari leið.

Það kom fram sú hugmynd að gera þarna flugvöll á rifi, sem liggur meðfram eyrinni, sem kaupstaðurinn stendur á, og leizt sérfræðingum flugmálastjórnarinnar og flugmönnum, sem þarna voru vanir að fljúga, mjög vel á staðinn.

Það kom að vísu í ljós, þegar verkfræðileg athugun fór fram, að þarna mundi verða alldýrt að gera nægilega langan flugvöll. Það hefði að vísu verið mun ódýrara, ef sú leið hefði verið farin, sem stungið var upp á í sambandi við dýpkun innsiglingarinnar til Ísafjarðar, að nota uppmoksturinn að nokkru til þess að fylla þarna á rifinu. Þá hefði sennilega fengizt í kringum þriðjungur af þeirri fyllingu, sem þarna þurfti til þess að gera 1.200 m langan flugvöll. En því miður var það nú ekki tiltækilegt. Það skip, sem fengið var til þess að annast uppmoksturinn, eða þau tæki, skip og prammar, sem til þess var notað, gat ekki komið því við að skila uppmokstrinum á þennan stað, og varð því að fleygja sem því svarar einum þriðjungi af því, sem þurft hefði þarna til uppfyllingar, út á haf eða út á dýpið. En þetta hefði verulega breytt máli til lækkunar kostnaðar, ef þarna hefði fengizt fyrir lítið þriðjungur af fyllingunni, sem þurfti til þess að gera flugvöll á þessum stað.

En það kom sem sagt í ljós, að með því að gera ráð fyrir, að fylling væri jafndýr og reynzt hefur í uppfyllingum, sem gerðar hafa verið fyrir hafnirnar, mundi þessi flugvöllur kosta yfir 20 millj. kr. þarna á rifinu, en væri að vísu ákjósanlegur frá flugtæknilegu sjónarmiði.

Það þótti ekki líklegt, að unnt mundi að fá fjárframlög til þess að gera svona mikið átak þarna á næstu árum, og var því farið að líta betur í kringum sig til þess að vita, hvort ekki væri tiltækilegt að gera a.m.k. viðunandi flugvöll á Ísafirði eða við Ísafjörð með minni kostnaði. Og það hefur líka komið í ljós, að það er hægt. Flugmálastjórnin hefur í sumar og haust látið vinna að undirbúningi þess máls, og það liggja þegar fyrir tillöguuppdrættir Ólafs Pálssonar, verkfræðings flugmálastjórnarinnar, af flugvelli á þessum stað, og ég veit ekki betur, en flugmálastjórnin hafi í till. sínum til hv. fjvn. lagt til, að 1 millj. kr. væri varið til byrjunarframkvæmda á þessum stað.

Það hefur líka í sumar farið fram tilraunaflug á þennan stað, tilraun með flugtak og lendingu á staðnum, bæði með Katalínuflugvél, eins og þeirri, sem notuð er til þess að fljúga til Ísafjarðar venjulega núna, og lenda á sjónum þar, en lendir hér á flugvellinum, og einnig með Douglasvélum, eins og mest eru notaðar hér annars í innanlandsfluginu. Þessar tilraunir hafa leitt í ljós, að þarna muni vera hægt að fá nothæfan flugvöll.

Það kom fram hér í umr. áður í kvöld, — ég held, að það hafi verið hv. 1. þm. Rang., sem gat nokkuð um strandferðirnar í sambandi við samgöngumál og gagnrýndi nokkuð, hvernig þeim væri hagað.

Það er svo um samgöngur til Ísafjarðar, að Ísafjörður mun vera verr settur, en flestir aðrir kaupstaðir á landinu um samgöngur. Það er, eins og allir vita, enginn vegur á landi, sem tengir saman veginn í kringum Ísafjörð og aðalþjóða vegakerfi landsins, eins og kom fram hjá hv. þm. N-Ísf. í hans ræðu hér áðan, og virðist vera alllangt í land með, að það samband náist. Það eru því engar samgöngur á landi. Að vísu er að sumrinu fær vegur yfir Þorskafjarðarheiði í Ísafjarðardjúp, en verður síðan að nota ferju þaðan til Ísafjarðar, og það er meira að segja alllangt, sem þarf að fara á ferju. Ef farið er að Arngerðareyri, tekur ferðin í kringum 3 klukkutíma. Það er álíka löng vegalengd og héðan úr Reykjavík og upp í Borgarnes, svo að það er skiljanlegt, að það sé nokkuð löng ferjuleið. Nokkru skemmra er, ef farið er að Melgraseyri, en samt er það svo, að alltaf tekur það á þriðja klukkutíma á ferjunni, og auk þess er ekki aðalstarf ferjunnar að ferja bíla og farþega, sem þurfa að komast landveg suður eða annað út á land, heldur er hún einnig í mjólkurflutningum til Ísafjarðar og vöruflutningum um Djúpið, og það tekur því oft miklu lengri tíma að komast tiI lands, ef svo mætti segja, frá Ísafirði í samband við þjóðvegakerfi landsins fyrir þá, sem þurfa að fara hingað suður. Ég held, að það sé ekki rangt með farið hjá mér, að nú, þegar við hv. þm. V-Ísf. komum til þings, höfðum við verið nærri sjö tíma á ferjunni, áður en við komumst ái þjóðveginn, sem er í sambandi hingað, svo að við kæmumst til Reykjavíkur.

Þannig er sem sagt ástatt með samgöngur á landi.

Með samgöngur á sjó kynni einhver að ætla, að þær væru betri, en var hér áður fyrr. Ég er nú búinn að vera þarna á Ísafirði í aldarfjórðung, og samgöngur á sjó eru miklu verri nú fyrir farþega, sem þurfa að fara til eða frá Ísafirði, heldur en þær voru fyrir aldarfjórðungi. Þá voru sem næst tvær ferðir í viku, allgóðra farþegaskipa, og venjulega bein leið frá Ísafirði til Reykjavíkur eða Reykjavík til Ísafjarðar. Ferðin tók ekki nema í kringum fjóra klukkutíma. En nú er það svo, að þegar ferðir eru með Ríkisskip, Esju eða Heklunni, þá tekur ferðin venjulega í kringum 36 klst. skemmst, vegna þess að viðkomustaðir eru nú miklu fleiri, en þá var og jafnt sumar og vetur, þó að fært sé á milli fjarðanna á bílum að sumrinu, enda er að sumrinu stundum hægt að nota sér það að fara í land, eftir að komið er til Þingeyrar, og fara þá landleiðina til Ísafjarðar.

Vegna þessa, hvað ástandið í samgöngumálunum er slæmt við Ísafjörð, er nauðsynin á því, að ekki kippi verulega úr flugsamgöngunum, miklu meiri, en við flesta aðra staði hér á landinu, og þess vegna vildi ég mega vænta þess, að hv. fjvn. taki til athugunar þessa till. mína, sem liggur þar fyrir á óskalista, sem ég lagði inn til nefndarinnar, og vildi sömuleiðis mega vænta fyrirgreiðslu þm. um að fá hana samþ.

Þá hafði ég hugsað mér að flytja brtt. við 3. umr. við 13. gr. A. IX, til steyptra og malbikaðra vega í kaupstöðum og verzlunarstöðum af bifreiðaskatti, sem er og nú hefur verið um mörg undanfarin ár 100 þús. kr., en breytist í 1 millj. kr.

Þegar bifreiðaskatturinn var settur á, — ég hygg, að það hafi verið 1934, — var, ef ég man rétt, lagt til, að allverulegur hluti hans gengi til malbikunar vega eða til að steypa vegi í kaupstöðum og verzlunarstöðum. En síðar var þetta numið úr lögum, og í stað þeirrar upphæðar, sem var ákveðin upphæð af lítra, sem átti að ganga til þessa, hefur á fjárlögum mörg undanfarin ár aðeins staðið 100 þús. kr.

Það kann að vera, að fyrst eftir að lögin voru sett um bifreiðaskattinn, hafi kaupstaðirnir ekki notað sér þetta. Þá var fjárhagsástand kaupstaðanna mjög erfitt, og þeir gátu ekki lagt í malbikun vega eða lagt í það að steypa þá, sem er mjög dýrt. Auk þess var þá bifreiðaumferð ekki neitt í líkingu við það, sem hún er nú, og málið því ekki eins aðkallandi. Bifreiðaeign landsmanna hefur, eins og við vitum, farið stórkostlega vaxandi á undanförnum árum, og vegirnir, sem áður gátu haldizt sæmilegir, með því að þeir væru heflaðir stöðugt og litið eftir þeim, standast ekki við, við þá auknu umferð, sem nú er, og verða jafnótt holóttir og illfærir, auk þess óþolandi ryk, sem verður af þeim, ef þurrviðri er. Ég veit, að það er þannig hjá okkur á Ísafirði a.m.k., að ef þurrkar ganga, þá er mold eða sandrykið jafnhátt húsunum, eins og blindbylur væri. Og það er hjá okkur alveg óhjákvæmilegt að ráðast í að malbika eða steypa göturnar hið allra fyrsta. Sama máli hygg ég að gegni í flestum stærri kaupstöðum landsins, þar sem bílaeign kaupstaðarbúa hefur vaxið verulega á undanförnum árum, og virðist mér því eðlilegt og mjög hóflegt að hækka þennan lið, sem hefur verið mörg undanfarin ár 100 þús. kr., í eina milljón kr. Það er miklu lægri upphæð, en upphaflega var ætlazt til, þegar bifreiðaskatturinn var settur, að til þessa gengi. Ég hygg, að það mundi ekki vera undir 2 millj. kr., ef sömu reglum væri fylgt eins og þá var, og jafnvel hærri upphæð, sem til þessa gengi. Og raunar mundi ekki veita af þeirri upphæð, til þess að vel væri fyrir séð, því að ég veit, að kaupstaðirnir hljóta hver af öðrum að þurfa að byrja á malbikun gatnanna hjá sér núna alveg á næstunni. Sumir hafa þegar byrjað. Hafnarfjörður og Keflavík eru þegar byrjuð. Hafnfirðingar hafa steypt nokkurn hluta af þeim götum, sem mest umferð er um. Vestmanneyingar eru einnig byrjaðir að malbika hjá sér göturnar, Siglfirðingar hafa að nokkru leyti steypt hjá sér göturnar. Á Akureyri mun þetta eitthvað byrjað líka, og þetta hlýtur að verða í vaxandi mæli á næstu árum, og það er ekki óeðlilegt, að kaupstaðirnir, sem eru mjög illa settir flestir fjárhagslega, fái þarna nokkurn hluta af bifreiðaskattinum og meiri hluta, en þeir hafa fengið undanfarin ár til þess að mæta þessum auknu kröfum, enda mjög eðlilegt, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, að nokkur hluti bifreiðaskattsins falli til vegabóta í kaupstöðunum, þar sem langmest umferð bifreiðanna mun vera.

Þá mun ég einnig við 3. umr. bera fram till. um, að 13. liður A. XI hækki nokkuð. Það er styrkur til að halda uppi byggð og gistingu handa ferðamönnum. Sá liður er nú 75 þús. kr. Mér hefur dottið í hug að leggja til, að hann hækkaði í 100 þús. kr. Það er eitt sérstakt gistihús, sem ég hef þar í huga. Það er gistihúsið Bjarkarlundur í Reykhólasveit. Það er mjög mikilsvert gistihús fyrir samgöngurnar við Vestfirði. Leiðin liggur nú um Þorskafjarðarheiði, sem er skammt frá gistihúsinu, og það er eina gistihúsið, sem er þar í námunda við langan og erfiðan fjallveg.

Þetta gistihús gengur mjög vel um hásumarið, en strax og fer að hausta, telja þeir, sem hafa rekið gistihúsið, ekki borga sig að halda því opnu. Því var í haust komið í kring, að gistihúsið væri opið nokkru lengur, en gistihússhaldararnir höfðu ætlað sér. Sýslufélögin þarna í nágrenninu og Ísafjarðarkaupstaður bundust samtökum um að styrkja gistihúsið nokkuð, til þess að það gæti haldið lengur opnu, en til stóð. En það er auðskilið, að það er mikilsvert, þar sem það liggur svona nálægt þessari fjallaleið yfir Þorskafjarðarheiði, sem er því miður, þó að hún sé vel fær og geti verið ágæt að sumrinu, þá er verulegur hluti leiðarinnar þannig, að það er aðeins ruddur vegur, sem mjög fljótlega getur teppzt, ef eitthvað snjóar. Ég hef nokkuð oft farið þessa leið undanfarin haust, og það hefur stundum komið fyrir, að þurft hafi að snúa við. Ég hef nú farið í venjulegum fólksbíl, og það hefur komið fyrir, að ég hef komizt á bílnum og þeir, sem mér hafa verið samferða, utan við veginn, þó að ófært væri á sjálfum veginum. En það er skiljanlegt, þegar svo er ástatt, að ekki má mikið út af bera, og því mikilsvert, að menn þurfi ekki að leggja þar á tæpasta vað, en geti átt vísa gistingu í námunda við heiðina.

Það hefur að vísu bætt verulega úr þeirri hættu, sem er því samfara að vera þarna á ferðinni að haustlagi, að vegamálaskrifstofan hefur sett þarna upp mjög myndarlegt og gott sæluhús á miðri heiðinni, en þar sem heiðin er upp undir 50 km á lengd, er það alllangur vegur samt, sem þarna er í algerri óbyggð, og ég veit, að allir þeir, sem eiga þarna leið um að haustlagi, leggja mikið upp úr því, að þarna geti verið opið fram eftir haustinu, á meðan vegurinn er fær. Sá áhugi, sem sýslufélögin þarna og Ísafjarðarkaupstaður sýndu í haust, er þau lögðu fram fé, til þess að gistihúsið gæti verið opið, ber líka vott um þörfina.

Ég ætla svo ekki, af því að svona er orðið áliðið nætur, að tefja þessar umr. frekar.