13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er aðeins til að svara einni fullyrðingu hv. 2. landsk, þm., frsm. meiri hl. fjvn., sem ég tek hér til máls öðru sinni. Mér þykir að vísu leitt, að hv. frsm. er horfinn af hólmi, en ætla má, að ástæða þess kunni að vera sú, ef hann ekki birtist innan skamms, sem ég nú sé að hann gerir, að hann fýsi ekki að heyra orð hans tekin til athugunar og krufin til mergjar. En hv. frsm. meiri hl. komst þannig að orði við upphaf ræðu sinnar, að flokksskrifstofa Sjálfstfl. hefði útvegað mér umboð til þess að sitja aðalfund Landssambands ísl. útvegsmanna, sem haldinn var fyrir skömmu. Ég veit ekki, hvaðan hv. frsm. hefur þessar upplýsingar, en ef þær upplýsingar, sem hann hefur gefið hæstv. Alþ. um störf fjvn. á þessu þingi, eru byggðar á álíka trúverðugum grundvelli, hefur Alþ. ekki verið sýndur mikill sómi með því, að þessi hv. þm. skuli hafa verið valinn til formennsku í fjvn. og til þess að hafa á hendi framsögu fyrir fjölmennustu og ráðamestu n. Alþingis. Af því að ég er nú heldur góðgjarn maður, vil ég samt ekki halda því fram, að hv. þm. hafi sagt þetta gegn betri vitund. Það getur vel verið, að það hafi einhver drýsill hvíslað þessu í hans eyra, og það má vel vera, að hann sé svo auðtrúa maður, að hann hafi hlaupið eftir hvísli hans, og ég vil þá heldur trúa því. En sannleikurinn í málinu er auðvitað sá, að útgerðarmenn í einu kauptúna þeirra, sem eru í kjördæmi mínu, fólu mér umboð til þess að sitja þennan fund fyrir þá, eins og þeir hafa falið mér umboð til þess að annast margvísleg störf og fyrirgreiðslu, bæði fyrir byggðarlag sitt, útgerð þeirra og þá persónulega á mjög svipaðan hátt og ég geri ráð fyrir að umbjóðendur hv. 2. landsk. í Vestmannaeyjum hafi falið honum hliðstæð störf.

En aðalatriði málsins er þó ekki það, að hv. frsm. fjvn. fer með rakalaust fleipur um svona litið atriði og hreinan uppspuna. Hitt er verra, að hann fer með grófa málefnalega fölsun í leiðinni. Hann heldur því fram, að það rekstrartap, sem ég nefndi hjá útgerðinni samkv. upplýsingum, sem gefnar voru á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, hafi verið miðað við það aflaleysi, eins og hv. þm. orðaði það sem verið hefur á síðustu vertíð. Ég vænti, að það fari ekkert á milli mála, að það var þetta, sem þm. sagði, og hann viðurkennir það. Ég hef hv. þm. hins vegar grunaðan um, að þetta segi hann gegn betri vitund, vegna þess að hann hefur áreiðanlega í höndunum og hefur örugglega haft greiðan aðgang að þeim skýrslum, sem lágu fyrir aðalfundi útvegsmanna, þar sem allur vafi er tekinn af um þetta atriði, og sannleikurinn í málinu er sá, að þarna var ekki miðað við aflaleysi síðustu vertíðar, heldur við meðalafla og meðalróðrafjölda undanfarinna 5 ára, þegar um var að ræða útreikning á rekstrarafkomu bátanna, og þegar um var að ræða rekstrarafkomu togaranna, var miðað við meðalafla og úthald s.l. þriggja ára, hvort tveggja reiknað út af mönnum, sem samtök útvegsmanna höfðu falið það starf sérstaklega. Það, sem ég hafði sem sagt eftir forráðamönnum útvegsmanna á aðalfundi L.Í.Ú., var þetta, að miðað við meðalafla og meðalróðrafjölda undanfarinna 5 ára, óbreytt fiskverð og opinberan stuðning við útgerðina mundi rekstrarhalli meðalbáts, þ.e. 60 tonna báts, hér í Faxaflóa verða 140 þús. kr. eða tæplega það á næstu vertíð, hins vegar mundi rekstrartap togara verða 1.1 millj. kr., miðað við óbreyttar aðstæður og meðaltalsafla og úthald s.l. 3 ár. Ef hins vegar miðað væri við 9 fyrstu mánuði þessa árs, mundi tap á togara á næsta ári nema hvorki meira né minna en 1.6 millj. kr.

Það er nauðsynlegt, að þessar tölur liggi fyrir réttar og óbrjálaðar, þegar rætt er um þessi mál á hv. Alþ, í sambandi við afgreiðslu fjárl. Og ég verð að harma það, að formaður og frsm, meiri hl. fjvn. skuli leyfa sér í slíkum umr. eins og þeim, sem hér fara fram, að fara með hreinar falsanir og jafnstaðlausa stafi og hann leyfði sér í síðustu ræðu sinni hér áðan. Það, sem ég sagði um þetta, var sannleikanum einum samkvæmt. Það, sem þetta sýnir svo, benti ég einnig á í fyrri ræðu minni, að rekstrargrundvöllur er ekki fyrir hendi fyrir bátaútveginn né heldur togaraflotann. Útgerðarkostnaðurinn hefur hækkað stórkostlega, sem m.a. sprettur af því, að nauðsynjar útvegsins hafa vegna nýrra tolla og skatta frá hæstv. ríkisstj. hækkað allt upp í 38%, sem vélar og varahlutir og ýmsar aðrar nauðsynjar útgerðarinnar hafa hækkað um á þessu ári. Þetta er dapurlegur sannleikur, en engu að síður staðreynd. Það sýnir þess vegna furðulega óskammfeilni, þegar þessi kommúnistaþingmaður ætlar að halda því fram á Alþ., að það sé allt í lagi með rekstrargrundvöll sjávarútvegsins í landinu, enda þótt þessar upplýsingar liggi fyrir frá fulltrúum útvegsmanna og sjómanna.

Sannleikurinn er auðvitað sá, að það var ekki á s.l. ári með 300 millj. kr. jólagjöfinni og 9.500 kr. skatti á hverja fimm manna fjölskyldu fundin nein ný og varanleg leið til lausnar á vandamálum sjávarútvegsins. Það voru bráðabirgðaúrræði af verstu tegund, sem til var gripið. Það var vaðið lengra út í verðbólgufen og styrkjastefnu. Það var það, sem gerðist. En að ætla sér að telja nokkrum manni með fullu viti trú um, að það hafi verið fundin nokkur ný og varanleg úrræði, það tekst hv. 2. landsk. þm. áreiðanlega ekki.

Ég hef ekki fengið neitt svar við því frá hæstv. sjútvmrh., hvaða ráðstafanir væru í undirbúningi til þess að mæta auknum hallarekstri hjá sjávarútveginum. Ég hef heldur ekki fengið neitt svar um það, hvað liði skipasmíðasamningum hæstv. sjútvmrh., sem hann fyrir hálfum öðrum mánuði sagði að væru að hefjast, enda þótt engin lán hefðu fengizt. Eina svarið, sem ég og hv. Alþ. fær frá hæstv. sjútvmrh, í þessum efnum, er það, að hann hverfur og skilur þá eftir ekki trúverðugri málsvara fyrir sig, en hv. 2. landsk. þm. hefur reynzt að vera, sem gengur hér fram með rakalausar blekkingar, vitandi það, að fyrir liggja gögn um sannleikann í málinu.

Það fást ekki svör við mörgu af því, sem hv. þm. hafa spurt hæstv. ríkisstj. um hér í dag og í kvöld. Það fást ekki svör vegna þess, að frammi fyrir Alþ. stendur nú ráðþrota ríkisstj., sem lofaði miklu, en hefur efnt lítið, ákaflega lítið. Það sætir þess vegna engri furðu, að þótt frestað hafi verið útvarps-eldhúsumræðum, komi fram mikil gagnrýni á slíka ríkisstj. En verst er, að hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa manndóm til þess að taka þessari gagnrýni.