13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða frv. þetta almennt, enda hefur það þegar verið rætt allrækilega. Það er ekki árennilegt að gera brtt. til aukinna útgjalda við frv., eins og það er úr garði gert, til þess er baggamunurinn allt of mikill og útlitið óljóst í meira lagi. Hins vegar hafa þeir tveir menn, sem eiga að vera öllum hnútum kunnugastir, hinir nánu samstarfsmenn, hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. fjvn., báðir gefið ótvírætt í skyn, að töfraorðið verði sagt fyrir eða við 3. umr, og fjárl. endanlega afgreidd greiðsluhallalaus. Verður þá útlitið væntanlega eitthvað bjartara, og mun ég þá hreyfa brtt., sem ég tel horfa til bóta fyrir hérað mitt, m.a. freista þess í samvinnu við fleiri þm. að fá eitthvað aukna fjárveitingu til Heydalsvegar, en sú leið er ekki einungis til hagsbóta fyrir Dalasýslu eina, heldur getur hún einnig komið tveimur landsfjórðungum að miklu gagni. En ég mun geyma mér rétt til að ræða þetta frekar við 3. umr.

Hins vegar langar mig til að hreyfa hér einni athugasemd eða öllu heldur beina fyrirspurn til hv. fjvn. og þá væntanlega einna helzt til formanns n., hv. 2. landsk. þm., en þetta er varðandi ákvæði fjárlagafrv. um dýralækna. Í athugasemdum við fjárlagafrv., við 16. gr. A, segir svo, það er 36. liður, með leyfi hæstv. forseta: „Til dýralækna, liðurinn hækkar um 82.500 kr., vegna þess að gert er ráð fyrir, að dýralæknum fjölgi um einn á næsta ári.“ — Í nál. frá meiri hl. fjvn. um þessa sömu gr. segir hins vegar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fjórir nýir dýralæknar munu taka til starfa á næsta ári, og er fjárlagaliðurinn laun dýralækna hækkaður í till. n. af þeim sökum.“ — Svo sem kunnugt er, er landinu skipt í 12 dýralæknisumdæmi, en nú standa 5 þeirra auð, m.ö.o.: það vantar 5 dýralækna. Mér er kunnugt um það, að nú um næstu áramót útskrifast 5 dýralæknar og koma hingað til lands. Að vísu hef ég heyrt því fleygt, að einn þessara ungu manna muni þegar ráðinn um eins árs skeið til starfa erlendis, en fróðir menn hafa tjáð mér, að tveir menn nýútskrifaðir muni bætast í hópinn snemma á næsta ári. Þess vegna finnst mér næsta varhugavert að miða fjárveitingu fjárlagafrv, í þessu skyni einungis við fjóra menn. Ég hef að vísu ekki rætt við yfirdýralækni um þessi mál til að fá hjá honum upplýsingar, en ég hygg, að einhverjar upplýsingar um þessi efni hafi hlotið að liggja fyrir hv. fjvn., þegar hún gekk frá þessum gjaldalið eða þessari áætlun.

Það er alkunna, hversu mikilvægt mál það er fyrir dreifbýlið að fá þessa nauðsynlegu starfsmenn í sína þjónustu. Það verður heldur ekki annað sagt, en þjóðin hafi lagt áherzlu á að fá menntaða dýralækna til starfa, því að styrkur til dýralæknisnáms erlendis hefur verið sérstakur liður á fjárl., og í fjárlagafrv. því, sem hér liggur frammi, er gert ráð fyrir 30 þús. kr. í þessu skyni. Ég vildi því ekki láta þetta tækifæri ónotað til þess að hreyfa þessu máli. Ég álit alveg sjálfsagt, að við bjóðum þessa kærkomnu, ungu menntamenn og nauðsynlegu starfsmenn velkomna, þegar þeir nú útskrifast frá námi, og reynum að búa þeim eins góð skilyrði og kostur er á. Ég varpa fram þeirri spurningu, hvort ekki sé varlegra að gera ráð fyrir fjárveitingu til 5 nýrra dýralækna heldur en 4, eins og í frv. stendur. En ef til vill hafa einhverjar upplýsingar um þetta mál legið fyrir hv. n., og ég vænti svars frá n. eða formanni hennar, annað hvort nú eða seinna, áður en 3. umr, fjárl. fer fram.