13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara hér út í umr. þær, sem farið hafa hér fram almennt um stjórnarathafnirnar eða athafnaleysið, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, þær tilheyra öðrum stað, þó að ærið tilefni væri til þess að fara um það nokkrum orðum. En það er aðeins eitt atriði, sem ég get ekki látið fara þegjandi fram hjá mér.

Því hefur verið haldið fram í kvöld oft, að þessi fjárlagaafgreiðsla væri mjög á annan veg, en oftast áður og helzt alveg einsdæmi. Það hefði aldrei komið fyrir, að fjárlög hefðu komizt á þetta stig með greiðsluhalla þvílíkum, sem hér væri um að ræða, og væri þetta ákaflega óvenjulegt og eiginlega algert einsdæmi. Ég tók eftir því, að hv. 1, þm. Rang. (IngJ) vildi halda þessu sama fram, eftir að ég hafði fullyrt það gagnstæða, og það var nánast út af hans ræðu, sem ég kvaddi mér hljóðs nú. Hann hélt sér fast við, að þetta hefði ekki komið fyrir áður og væri eins og ég sagði — alveg sérstakt. En ég leit hér ofan í þingtíðindin frá 1955, frá síðasta þinginu, sem samþykkti fjárlög, áður en þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Þar er við 3. umr. fjárlaga framhaldsnefndarálit frá fjvn., og í því nál. segir svo, með leyfi hæstv. forseta, — ég bið hv. þm. að taka eftir því, að hér er ekki um 2. umr. að ræða, heldur 3. umr., þ.e.a.s. þegar fjárlagaafgreiðslan er komin alveg á lokastig, — í þessu framhaldsáliti hv. fjvn. segir svo:

„Svo sem frá var skýrt í nál. meiri hl. n. við 2. umr. frv., hafði n. frestað afgreiðslu ýmissa erinda, og enn fremur var vitað um nokkra háa útgjaldaliði, sem talið var rétt að láta bíða til 3. umr., ef þá kynni að liggja ljósar fyrir, hversu há útgjöld leiddi af þeim.“ Og svo enn: „Nefndin hefur að undanförnu unnið að lokaathugun á fjárlagafrv. Þar eð endanleg afgreiðsla fjárlaganna var tengd lausn verðlagsmála útflutningsatvinnuveganna, gat nefndin ekki lokið störfum fyrr, en leggur nú fram breytingar sínar á sérstöku þskj. samhliða þessu framhaldsnál.“

Í yfirliti, sem fylgdi þessu framhaldsnál. hv. fjvn. þá, er gert ráð fyrir hækkun gjalda um 53 millj., þannig að með till. n., eins og þær koma umfram lækkun 46 millj.; tekjuhækkun aftur upp á 13 millj., eða gjaldahækkun umfram tekjuhækkun 33 millj, og greiðsluhalli eftir 2. umr. 11 millj., þannig að með till. n., eins og þær koma fram við 3. umr., er gert ráð fyrir greiðsluhalla upp á 451/2 milljón þá. Þó að þessi upphæð sé ekki alveg jafnhá því, sem um er að ræða í þetta sinn, sýnir hún þó, að þar hefur verið um mjög verulegan greiðsluhalla að ræða, þegar málin komu frá n. við 3. umr., og var þá, að því er skildist, ekki séð fyrir því, hvernig þessum greiðsluhalla yrði mætt. Það reyndist svo að vísu auðveldara þá, en kannske ýmsir höfðu gert ráð fyrir, þar sem það var einfaldlega gert með því að hækka tekjuáætlunina. En eigi að siður, þegar framhaldsnál. kemur frá hv. fjvn. við 3. umr., birtist það með 45 millj. kr. greiðsluhalla.