13.12.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Mér þykir mjög vænt um það, að hv. 2. landsk. þm., framsögumaður fjárveitinganefndar, hefur viðurkennt, að hann fór með rangt mál í ræðu sinni hér áðan.

Nú sagði hann, að það mætti vel vera, að slíkur útreikningur sem ég fór með væri réttur. Ég tók það alveg greinilega fram, að ég hefði rætt um útreikninga þá, sem lagðir voru fram á aðalfundi L.Í.Ú. og gerðir voru af trúnaðarmönnum þeirra samtaka, af útvegsmönnum sjálfum.

Það er svo allt annað mál, sem bæði ég og hv. 2. landsk. þm. þekkjum mjög vel, að í hvert skipti sem útvegsmenn hafa verið að semja við ríkisstj. á undanförnum árum um aukinn stuðning við atvinnurekstur sinn vegna sívaxandi rekstrarhalla, hafa trúnaðarmenn ríkisstj. lagt á borðið telur og útreikninga, sem hafa vikið mjög verulega frá útreikningum útvegsmannanna sjálfra. Og þetta er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt. Útvegsmennirnir sækja á um að fá sem mestan fjárhagslegan stuðning og sem tryggastan grundvöll fyrir atvinnurekstur sinn, en umboðsmenn ríkisvaldsins reyna að komast hjá að veita nema sem minnstan stuðning, þannig að reksturinn sé rétt aðeins tryggður.

En það var alls ekki þetta, sem hv. 2. landsk. þm. var að ræða um í upphafi málsins. Hann fer að ræða um þetta núna, þegar hann sér, að hann fór í upphafi með rangt mál.

Ég þarf ekkert að spyrja minn ágæta flokksbróður og góða vin, Davíð Ólafsson fiskimálastjóra, um það, hvaða reikningar hafi verið lagðir fram á aðalfundi L.Í.Ú. Ég hef þá reikninga fyrir mér, og hv. 2. landsk. þm. hefur þá líka. Þess vegna var það rangt af honum áðan að segja, að ég hefði miðað mínar upplýsingar um það tap, sem ég nefndi, á bátum og togurum við það aflaleysi, sem ríkt hefur á einni einustu vertíð. Ég miðaði við það, sem lagt var til grundvallar á þessum fundi, sem sagt fimm ára meðaltalsafla, fimm ára meðalróðrafjölda og þriggja ára úthald og þriggja ára meðaltalsaflamagn, þegar um togarana var að ræða.

Hins vegar er það algerlega rangt og röng ályktun, sem dregin er af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, sem hv. 2. landsk. þm. sagði hér, rétt í því er hann lauk máli sínu. Hann sagði, að versnandi afkoma útgerðarinnar gæti ekki sprottið af neinu öðru, en aflaskorti. Þetta veit ég að hv. þm., sem er alinn upp í sjávarútvegskjördæmi og er þm. fyrir eitt þróttmesta sjávarútvegshérað landsins, veit að er rangt. Hann veit t.d. það, að allt að 38% hækkun á vélum og varahlutum til bátaflotans og margvíslegra annarra nauðsynja hefur ekki lítil áhrif á rekstrarafkomuna. Olíuverðið, beitukostnaðurinn, fjölmargir liðir, sem til greina koma hjá útgerðinni, hafa auðvitað áhrif á heildarafkomuna. Og það er það, sem hefur gerzt á þessu ári, að stóraukin dýrtíð og verðbólga hefur haft ásamt með aflabresti í einstökum landshlutum mjög óheillavænleg áhrif á rekstur útgerðarinnar.