19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er rétt, að við sjálfstæðismenn höfum furðað okkur mikið á fjárlagaafgreiðslunni nú, en við 2. umr. var þó nokkuð í vændum, að stjórnarliðið ætti þess enn einhverja möguleika að rétta sig við, og a.m.k. minnir mig, að hæstv. fjmrh. hafi lofað því, að þeir skyldu þó, áður en lyki, koma með sínar till. En hefur hæstv. fjmrh. staðið við það? Það var töluvert meiri móður í hæstv. fjmrh. við 2. umr. en nú og er það ofur skiljanlegt.

Í fyrra, þegar fjárl. voru lögð fram, var hæstv. ríkisstj. ekki enn tilbúin með efnahagsmálatill. sínar. Og í haust, þegar fjárl. voru lögð fram eða þegar þing kemur saman, voru till. ekki til, af því að það vantar samráð við stjórnarflokkana. Þegar svo kemur fram undir jólin, eru ekki enn þá till. til, og nú, þegar verið er að ljúka þessari svokölluðu afgreiðslu fjárl., er ekki enn þá lokið athugun hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokka á efnahagsmálum þjóðarinnar og hvað til bragðs eigi að taka.

Það, sem síðast er svo haldreipið hjá hæstv. fjmrh., er þetta: Ja, enda þótt við séum nú komnir að því að ganga frá hinni svokölluðu afgreiðslu fjárlaga og enda þótt mönnum dyljist þá ekki, að við höfum í raun og veru ekki komið með þær till., sem með réttu er hægt að ætlast til og við í raun og veru lofuðum, þá verða menn þó að gera sér grein fyrir því, að þó að við höfum ekki staðið okkur vel, þá sé ég ekki, að hæstv. stjórnarandstaða standi sig miklu betur, því að ekki er hún farin að koma með till. enn um það, hvernig eigi að afgreiða fjárlög.

Því hefur verið haldið hér fram, að það hafi verið auglýst eftir, úr fjmrn., till. í sambandi við afgreiðslu fjárl., og stjórnarflokkarnir hafa auglýst eftir till. frá hv. stjórnarandstöðu. En menn verða að átta sig á því, að í þessum efnum fara menn villir vegar. Það á ekki að auglýsa eftir till. um afgreiðslu fjárl. frá þeim, sem bera ábyrgð á afgreiðslu þeirra, heldur á að auglýsa eftir fjmrh.

Hæstv. fjmrh, segir: Það verður tekið eftir því, að stjórnarandstaðan hefur ekki komið með till. um það, hvernig á að brúa það djúp milli útgjalda og tekna, sem stjórnarsinnum og ríkisstj. hefur ekki tekizt að brúa. — Og hann sagðist ekki trúa því, að stjórnarandstaðan ætti ekki enn eftir að koma með till. um þetta, og ef hún kæmi ekki með till. um þetta, þá endaði allt í botnleysu. Þetta voru óbreytt orð hæstv. fjmrh. Ef nú hér eftir koma ekki fram till. frá stjórnarandstöðunni um það, hvernig raunverulega á að brúa djúpið, þ.e.a.s. greiðsluhalladjúpið, sem raunverulega er á fjárlfrv., þá segir hæstv. fjmrh.: Ja, þá lendir allt í botnleysu. — Við vitum þá, að það er í botnleysu, eins og gengið er frá þessu af hæstv. fjmrh. og hv. stuðningsflokkum ríkisstj. En við sjálfstæðismenn höfum marglagt áherzlu á það, að efni málsins er þannig, að það er ekki hægt að ætlast til þess, að stjórnarandstaða, hvorki hér né í öðrum löndum, sem svipað stjórnarfar og stjórnskipun hafa og við, geri till. um, hvernig eigi að afgreiða fjárl., þegar úrræðaleysið hefur ráðið öllu hjá sjálfri ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar. Og við höfum bent á það, að í sumum löndum, sem skyldast stjórnarfar og stjórnskipun hafa og við, hefur ekki stjórnarandstaðan einu sinni leyfi til þess að bera fram till. til breytinga á fjárl. Þar er þetta höfuðverkefni ríkisstj. Hún verður svo að standa og falla með því, hvernig þessar till. og hvernig fjárl. eru gagnrýnd af hálfu stjórnarandstöðunnar og hvaða dóm kjósendurnir fella um stjórnmálaforustuna á hverjum tíma eða þegar þeir hafa aðstöðu til þess.

Ég held, að í raun og veru sé naumast hægt að hugsa sér lélegri frammistöðu hjá neinum ráðh. í meðferð nokkurs málaflokks en þessum, sem fer með fjármál og auglýsir stöðugt eftir till. stjórnarandstöðunnar, og ef þær ekki komi fram, þegar á að fara að ganga til síðustu atkvgr., þá lendi allt í botnleysu.

Hæstv. fjmrh. sagði: Það er engu leynt við meðferð þessa máls, eins og hún er. Ef fjárlagaafgreiðslunni hefði verið frestað fram yfir áramót, þá var verið að leyna almenning því, hvað verða mundi, því að þá vissi enginn, hvað við tæki.

Það er ekkert í þessari fjárlagaafgreiðslu, sem nú fer fram, sem máli skiptir, sem menn hefðu ekki getað gert sér grein fyrir, þó að fjárlagaafgreiðslu hefði verið frestað. Það, sem menn biðu eftir í sambandi við síðustu afgreiðslu fjárl., var meginstefnan í efnahags- og fjármálunum og hvernig ríkisstj., sem lagði fram fjárl. með greiðsluhalla upp á nærri 100 milljónir króna, ætlaði að ráða fram úr þessum vanda. Það var það, sem menn ekki vissu, og það var það, sem menn biðu eftir með mestri eftirvæntingu. Og það er það, sem menn bíða eftir enn að sjá. M.ö.o.: almenningur hefur ekki orðið neins vísari við þá meðferð málanna, sem hér er um að ræða. Hins vegar er það von stjórnarflokkanna, að almenningur misskilji málsmeðferð þeirra þannig, að þeir hafi ekki látið standa upp á sig að afgreiða fjárlög næsta árs fyrir áramótin.

Það er engu leynt með þessu, segir hæstv. fjmrh. Hvað segja stjórnarblöðin? Hvað segir blað stærsta stjórnarstuðningsflokksins í morgun? Þjóðviljinn segir þar: „Fjárlagafrv. verður afgreitt án tekjuhalla.“ Hann segir enn fremur, að meiri hl. fjvn. hafi skilað framhaldsnál. í gær og lagt fram brtt. sínar, séu þær bæði við tekju- og gjaldabálkinn og miði við, að fjárl. verði afgr. með 83.6 millj. kr. rekstrarafgangi og 235 þús. kr. greiðsluafgangi. Þetta er það, sem fólkinu er boðað. Það er búið að ganga þannig frá fjárl. Það er enginn greiðsluhalli á þeim, mikill tekjuafgangur. Er þetta ekki nóg? Höfum við ekki staðið okkur vel? Það er ekkert verið að leggja áherzlu á það, að til þess að gera þetta er frestað því, sem máli skiptir. Það, sem hæstv. fjmrh. viðurkennir hér í ræðunni áðan fyrir framan þm., er alveg rétt. Honum dettur ekki í hug að fara að reyna að blekkja þm. í þessu sambandi. En það á að blekkja þjóðina. Það á að leyna þjóðina, það á að svíkjast aftan að þjóðinni í þessu máli eins og öðrum veigamiklum málum hjá hæstv. ríkisstj. Það er þess vegna, sem þessi fjárlagaafgreiðsla verður í sögu þingsins eftir á talin sú aumasta fram að þessum tíma, sem nokkru sinni hefur átt sér stað.

Mönnum geta að vísu verið mislagðar hendur við afgreiðslu fjárl. og e.t.v. tekið stefnu, sem eftir á verður talin röng. En fjárlagaafgreiðslan nú byggist á fullkomnu stefnuleysi, úrræðaleysi og þögn fram á elleftu stund, því að því er frestað, sem máli skiptir, og það er gert með þeim stórfurðulega hætti, að það, sem nú á að kalla greiðsluhallalaus fjárl., er það, eins og fram kom hér við 2. umr., að teknir eru út úr fjárl. útgjaldaliðir upp á 65 millj. kr., ekki felldir niður og ekki tekin út öll útgjöldin til þess að greiða niður dýrtíðina í landinu, heldur brot af þeim og partur af þeim. Af hverju þetta brot? Af hverju ekki meira brot? Það er sama stefnuleysið og úrræðaleysið, fálmíð og fumið, en samt skulu fjárl. fram, að nafninu til án greiðsluhalla, og sá boðskapur skal ganga yfir þjóðina, væntanlega í áramótaboðskap þessarar hæstv. ríkisstj.: Fjármálaspekingur Framsfl. og fjármálaspekingur ríkisstj. lét ekki á sér standa. Hann lét afgreiða fjárl. eins og vanalega, og þau voru greiðsluhallalaus. — Þetta verður látið klingja. Hitt má svo bíða, fyrst og fremst fram yfir bæjarstjórnarkosningar. En hvað á þá að gera? Um það er ekkert orð sagt. Um það fær enginn orð að vita, hvorki varðandi útflutningsframleiðslu þjóðarinnar, hvaða ráðstafanir á þar að gera, til þess að brúa bilið, sem enn er í fjárl. og hefur verið dregið út.

Stuðningsmenn Framsfl, eru þegar í dag farnir að tala um það hér á götunum á Reykjavík: ja, eftir bæjarstjórnarkosningar verður auðvitað ekkert um annað að gera, en bara að fella gengið. — Þeir eru farnir að tala um það. En það verður auðvitað ekki gert fyrr, en eftir bæjarstjórnarkosningar. Og þá þarf ekki þessa niðurgreiðslu, segja sumir. Þess vegna er þetta ágæt ráðstöfun. Engu skal ég spá um það, hvað verða vill, en eitt er víst og það liggur fyrir, að framan í till. stjórnarinnar í efnahagsmálum og í raunverulega afgreiðslu fjárl. fær þjóðin ekki að sjá fyrr, en eftir bæjarstjórnarkosningar og sveitarstjórnarkosningar, sem nú fara í hönd.

Það má mikið bjóða mönnum í þessu landi, ef þetta á að þykja góð og gild vara, og sannast að segja heyrðist það nú ósköp glöggt á hæstv. fjmrh., að honum er farið að skiljast, að hér hefur verið skotið yfir markið, og hér hefur verið gengið of langt. Ég hef sjaldan heyrt hann bljúgari, en í síðustu ræðu hér í ræðustólnum. Ég veit ekki, hvort hann reynir að spenna sig eitthvað upp hér eftir, svona eins og þegar menn eru í andarslitrunum. Þegar gripir eru í andarslitrunum, koma fjörkippir í þá undir lokin. Ég er ekki með þessu að spá því, að hæstv. fjmrh. hrökkvi upp af, ég óska honum alls góðs persónulega og vona, að hann hafi góða jólagleði, en hann er í andarslitrunum í hugskoti manna sem fjmrh., því að enda þótt hann komi til með að sitja áfram eitthvað í ráðherrastól, þá er þessi hæstv. ráðh. búinn fullkomlega að vanrækja meginskyldur sínar sem ráðh. Hann getur þess vegna setið áfram sem ráðh. og fjármálaráðherranefna, en meira getur hann ekki.

Það er líka margt annað, sem styður að því, að hæstv. fjmrh. mætti gjarnan taka sér frí frá störfum sem slíkur. Hann leyfir sér að segja hér í síðustu ræðu sinni: Það hefur engin áhrif á málið, hvernig Alþingi afgr, fjárl. Þegar sjálfstæðismenn, minni hl. í fjvn., bera fram till. til lækkunar í ákveðnum tilgangi, þá segir hæstv. fjmrh.: Það hefur engin áhrif á afgreiðslu málsins. — M.ö.o.: hann segir: Þetta verður bara afgr. eins og mér sýnist. Mér er alveg sama, hvernig þetta verður samþ. Það breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut, hvort við samþ. þessa till., hvort fjárveiting er hundrað eða hundruðum þús. kr. hærri eða lægri, það kemur ekkert málinu við, það hefur engin áhrif á málið, segir hæstv. fjmrh. Að hugsa sér slíka lítilsvirðingu fyrir þinginu, þegar það er að afgr. fjárl. Og þeir menn eru langt gengnir, sem láta sér verða annað eins og þetta á munni, að það hafi engin áhrif um það, hvað þingið segi í raun og veru um afgreiðslu fjárl., það fari bara eftir því, hvernig honum þóknist að haga málunum, þegar fjárlagaafgreiðslu er lokið. Hæstv. fjmrh. segir: Ja, meiri hl. hefur verið að ræða um það við stjórnina að haga þannig málum, að það verði sparað á þessum lið. Samt sem áður viljum við ekki lækka hann. Nei, nei, því að það hefur engin áhrif, hvað þingið ákveður í þessu sambandi.

Nei, þetta tvennt, að ef á síðustu stundu komi nú ekki einhverjar till. frá sjálfstæðismönnum eða stjórnarandstöðunni við afgreiðslu fjárl., þá lendi nú allt í botnleysu, og í öðru lagi hafi það engin áhrif á málið, hvaða till. sjálfstæðismenn bera fram eða hvernig þær verða afgr., — það er ótrúlegt, að jafnþaulreyndum og gömlum þm. og jafnreyndum manni og hæstv. fjmrh. er, skuli verða slíkt á eins og þetta og í ekki lengri ræðu, en áðan var þó flutt og af ekki meiri móði. Ekki var hægt að segja, að hann hefði talað af sér í einhverjum æsingi, það var siður en svo. Þetta er bara svo fast í hugskoti hæstv. ráðh., þessir meingallar á meðferð fjármálanna, að þeir skjótast upp úr honum, án þess að hann hafi áttað sig á því.

Hæstv. fjmrh. segir, að tekjuáætlunin sé orðin teygð, — já, hún er orðin teygð, bara held ég yfirteygð. Hvenær höfum við ekki heyrt þetta hjá hæstv. fjmrh. á undanförnum árum, við afgreiðslu fjárl.? Það má ekki fara lengra í að áætla tekjurnar hærri. Þetta er orðið teygt.

Ef við lítum á þessi mál á undanförnum árum, kemur í ljós, að á árinu 1956 eru tekjurnar áætlaðar í fjárl. 648 millj., verða 752 millj., eða tekjurnar verða 104 millj. meiri en áætlað var. 1955 eru tekjurnar áætlaðar 513 millj. í fjárl., fullteygðar, að dómi hæstv. fjmrh., reynast svo 646 millj., eða 133 millj. fram úr áætlun fjárl. 1954: 443 millj. kr., fullteygð áætlun að dómi hæstv. fjmrh., verða 551 millj. kr., eða 108 millj. kr. fram úr áætlun. 1953: 418 millj. kr. tekjuáætlun í fjárl. og verða 510 millj., eða 92 millj. kr. fram úr áætlun. Hæstv. fjmrh, hefur alltaf öll þessi ár sagt, að tekjuáætlun væri óvarleg og að hún væri fullteygð. Það verður þess vegna og ber að taka mjög varlega dóm hæstv. fjmrh. í þessu efni.

Hitt er svo rétt, að tekjurnar hafa ekki farið eins mikið fram úr áætlun á fyrsta ári hæstv. núverandi ríkisstj., vinstri stjórnarinnar í landinu, og munar þar miklu frá því, sem áður var. Og hæstv. fjmrh. heldur kannske, að það sé búið að teygja svo fjárþol manna í landinu og atvinnuveganna við hálfs annars árs stjórn núverandi hæstv. ríkisstj., að það sé betra að fara hér mun varlegar í þessum efnum, en áður. Að því leyti get ég verið þessum hæstv. ráðh. sammála, að meiri varúðar þurfi að gæta nú í þessum efnum, en áður. Hitt er svo augljóst mál, eins og hv. 2. þm. Eyf. sýndi fram á, að töluverður greiðsluafgangur verður á árinu 1957, þó að hæstv. fjmrh. léti í það skína við fjárlagaumræðuna á sínum tíma, að sennilega, ef ég man rétt, mundi upp á vanta þessar tekjur. Þess vegna er full ástæða til að ætla, enda þótt þessi stjórn fái að sitja við völd næsta ár, að vænta megi töluverðra tekna umfram það, sem nú er áætlað af stjórnarliðinu, og spurningin er þá um hitt, að viðkomandi aðilar, sem fara með ríkisfjármálin og bera ábyrgð á þeim, verða þá að kappkosta meir, en verið hefur, að útgjöldin fari ekki fram úr því, sem áætlað er.

Við sjálfstæðismenn teljum því, að okkur sé fullkomlega réttmætt að bera fram viðbótartill. við þessi fjárl. í ljósi þeirrar reynslu, sem fyrir liggur, og þess bezta mats, sem við höfum aðstöðu til að hafa á því, hvað ætla megi tekjurnar, og þar af leiðandi munum við bera fram nokkrar till. til útgjaldahækkunar á fjárl. án þess að bera fram sérstakar till. til tekjuhækkunar. Það væri að vísu hægt að fara sömu leið og hv. meiri hl. fjvn., hækka 170 millj. kr. tekjur um 4–6 millj., 80–90 millj. kr. tekjur á þessum lið um 2-3 millj., 36–37 millj, kr. tekjur á þriðja liðnum um 1 millj. o.s.frv., þetta væri hægt og hægt að ná því marki, sem miðað er við í útgjaldatill. okkar, hvað sem það kann nú að verða, en við teljum það ástæðulaust. En við teljum líka alvarlegt að afgr. fjárl. hér á þann hátt, að það er full ástæða til þess að ætla, að tekjurnar verði umfram það, sem áætlað er, og að núv. hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar fái fé umfram áætlaðar tekjur til að bruðla með. Þessum hæstv. herrum er ekki treystandi til þess. Það er betra að hafa það bundið og fyllilega bundið, sem ætla verður að tekjurnar geti orðið.

Mér finnst svo ekki ástæða til á þessu stigi málsins að hafa fleiri orð um þessa hlið afgreiðslu fjármálanna, hina almennu hlið hennar. Það er auðvitað að verða bæði þingheimi öllum og öllum almenningi ljóst, hversu gersamlega er hér farið að öðruvísi, hygg ég, en nokkru sinni áður fyrr og hversu áberandi úrræðaleysi hæstv. ríkisstj. er.

Það hefur ekki enn þá verið útbýtt þeim till., sem ég ásamt nokkrum öðrum þm. Sjálfstfl. flyt, en ég mun engu að síður gera þær nú þegar að umtalsefni.

Ég vil þá í fyrsta lagi víkja að framlögunum til íþróttasjóðs. Ég hef á undanförnum þingum æ ofan í æ borið fram till. um hækkuð framlög almennt til íþróttasjóðs til þess að mæta hinni miklu þörf, sem fyrir hendi er í raun og veru alls staðar á landinu, og einnig borið fram sérstakar till. um aukin framlög til íþróttaleikvangsins í Laugardal, sem er aðalíþróttaleikvangur landsins. Þetta hefur því miður mætt litlum skilningi, bæði nú upp á siðkastið og eins af fyrrverandi hæstv. ríkisstjórnum, og hef ég í sjálfu sér ekki fram til þessa gert neitt þar upp á milli. Vil ég alveg sérstaklega taka það fram, að þegar svo var komið, að hinn nýi íþróttaleikvangur í Laugardalnum var á s.l. sumri opnaður hér til fyrstu leika, án þess að honum væri fulllokið, þá tók ég það greinilega fram að, að mínum dómi hefði skort á það, bæði fyrr og nú, að nægjanlega mikið fé væri ætlað til íþróttasjóðs og einnig sérstaklega til íþróttaleikvangsins í Laugardalnum. Ég talaði um það þá, að það væri mikið fé, sem á vantaði, að íþróttasjóður gæti staðið við áætlaðar skuldbindingar sínar til íþróttaleikvangsins í Laugardal. Ég var sérstaklega víttur fyrir þetta af hæstv. menntmrh., sem ekki lét sér nægja að láta birta í öllum stjórnarblöðunum stórorðar fyrirsagnir um, að ranghermi mitt og fleipur og ósannindi í þessu máli væri leiðrétt af honum, heldur lét hann einnig birta það í ríkisútvarpinu.

Það, sem ég sagði um þetta, var það, með leyfi hæstv. forseta: „Laugardalsnefnd gerði tilraun til þess að fá fjárframlög umfram venju frá bæ og ríki. Bæjarstjórn Reykjavíkur lét ekki á sér standa, þó að fyrri fjárframlög hennar hafi af sumum verið talin eftir. Alþingi féllst ekki á að veita aukaframlag, og á þó íþróttasjóður ríkisins vangoldnar fleiri millj. kr. til þessara framkvæmda.“

Út af þessum ummælum taldi hæstv. menntmrh. sig þurfa að leiðrétta mig, bæði í ríkisútvarpinu og öllum stjórnarblöðunum.

Ég hef sem formaður Laugardalsnefndar móttekið á hverju einasta ári frá íþróttanefnd undanfarið yfirlit yfir það, hvernig greiðslur stæðu bæði til íþróttamannvirkisins í Laugardalnum og einnig annarra íþróttaframkvæmda, og hefur ævinlega á þessum yfirlitum verið talið vangreitt og vangoldið svo og svo mikið til Laugardalsframkvæmdanna eins og annarra íþróttamannvirkja.

Þessi mál stóðu þannig í júlímánuði í sumar, að þá var hinn ógreiddi hluti íþróttasjóðs orðinn nærri 4 millj. kr. til þessa aðalíþróttaleikvangs landsins, eða 3.7 millj. kr. þann 18. júlí s.l. Hins vegar er það svo, að til þessara framkvæmda hefur íþróttanefnd ríkisins ekki talið sig geta varið nema eftirtöldum upphæðum vegna þess, hve framlögin til íþróttasjóðs hafa verið lág: Árið 1947 106 þús., 1948 94 þús., 1949 50 þús., 1950 40 þús., 1951 100 þús., 1952 420 þús., 1953 70 þús., 1954 110 þús., 1955 120 þús. og 1956 160 þús. 1957 var úthlutað af íþróttanefndinni 200 þús. kr.

Nú geta menn gert þetta reikningsdæmi upp við sig, ef þessu á að halda áfram svona, hversu langan tíma það muni taka, að hægt sé að uppfylla það, sem fyrir löngu hefur verið áætlað, að úr íþróttasjóði væru greidd 40% af kostnaði íþróttaleikvangsins, 40%, því að þegar vangoldið er í sumar um 4 millj. kr., þá er rétt að hafa í huga, að síðan var unnið nokkuð á kostnað bæjarsjóðs Reykjavíkur, síðari hluta árs, að þessum framkvæmdum, og nú eru á fjárhagsáætlun Reykjavíkurbæjar aftur 2 millj. kr. á árinu 1958 til íþróttaleikvangsins í Laugardal. Og af því mundu 40% gera 800 þús. kr., þannig að ef ekki verður um að ræða önnur og meiri framlög, en undanfarin ár, þá mundi skuldin við íþróttaleikvanginn í Laugardal, sem er aðalíþróttaleikvangur landsins, vera orðin í lok næsta árs nærri 5 millj. kr.

Ég tel, að hæstv. menntmrh. sérstaklega hafi haft gullvægt tækifæri til þess að leiðrétta það, hversu réttur annars vegar Reykvíkinga og hins vegar íþróttaæskunnar almennt í landinu hefur verið fyrir borð borinn í þessum málum, og ekki sízt vegna þess, að hann gerði sérstakan reka að því að reka af sér slyðruorðið á s.l. sumri í þessu sambandi. Mér er kunnugt um, að þing Íþróttasambands Íslands gerði ályktanir um það — og þær munu hafa borizt hæstv. ráðh. — að auka stórlega framlögin til íþróttasjóðs. En hvað skeði svo, þegar fjárlögin eru lögð fram? Þá er framlagið til íþróttasjóðs lækkað um 300 þús. kr. Þetta hefur verið leiðrétt, og var lagt til af meiri hl. fjvn., að það yrði aftur hækkað upp í það sama, eða 1 milljón og 600 þús. kr. En við munum nú, sjálfstæðismenn, þm. Reykv., gera tilraun til þess enn einu sinni, hvort ekki á að sýna þá sanngirni af hálfu þingsins að koma hér nokkuð til móts við annars vegar hin gífurlegu framlög Reykjavíkurbæjar og hins vegar íþróttaæskuna, ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur á gervöllu landinu. Það eru þegar uppi ráðagerðir og áætlanir um að vígja þennan aðalíþróttaleikvang landsins á næsta vori með allsherjar íþróttamóti, þar sem mæta munu íþróttamenn úr öllum sveitum landsins, og þannig mun það einnig verða í framtíðinni, að um leið og byggðir eru íþróttaleikvangar víðs vegar úti um land, mun þessi leikvangur gegna því hlutverki að vera aðalíþróttaleikvangurinn, þar sem stærstu landsmótin verða háð og þar sem millilandakeppni við aðrar þjóðir mun fram fara.

Alþingi á þess enn kost að leiðrétta misfellur, sem átt hafa sér stað, og við leggjum til, að til viðbótar við þessa 1.6 millj. kr. verði ákveðið 2 millj. kr. framlag til íþróttasjóðs til þess að greiða hluta af þeim kostnaði, sem þessum sjóði ber að greiða, til þessa mannvirkis, og er ekki nema lítill hluti af því, því að eins og ég sagði áðan, er skuldin þegar orðin yfir 4 millj. kr.

Ég vil alveg sérstaklega mega vænta stuðnings hæstv. menntmrh. við þessa till. okkar eftir það, sem er á undan gengið, og einnig vegna þess, að hann er nú þm. Reykv., og það verður að ætla að a.m.k. þm. Reykv. í stjórnarliðinu reyni þó á einhvern hátt að sýna lit á því að standa með þeim sanngjörnu kröfum, sem fram eru bornar vegna þeirra kjördæmis. En sannleikurinn er sá, að þetta mál, sem hér er fram borið, á ekki aðeins við Reykjavík, heldur allt landið, eins og ég sagði, en á fjöldamörgum öðrum sviðum hefur réttur Reykvíkinga fullkomlega verið fyrir borð borinn við afgreiðslu þessara fjárlaga. Þessi núverandi hæstv. ríkisstj. hefur einkennt sig sem stjórn, sem er sérstaklega óvinveitt Reykvíkingum og hagsmunum þeirra. Hún vinnur sýknt og heilagt að því að gera aðstöðu Reykvíkinga erfiðari, og hún ann þeim ekki sama réttar og öðrum borgurum í þessu þjóðfélagi, og það má mikið vera, ef Reykvíkingar eru svo geðlausir menn, að endalaust geti það gengið svo, að þeir láti ekki hæstv. núverandi stjórnarsinna finna það, að þeir ætlast til þess, að þeir fái að njóta a.m.k. svipaðs réttar og aðrir borgarar í þessu þjóðfélagi, en það sé ekki sýknt og heilagt og í einu og öllu gengið á þeirra rétt. Og a.m.k. vænti ég þess, að þeir kunni að vera þess minnugir við þær kosningar, sem nú fara í hönd, og það er enginn vafi á því, að það er það, sem núverandi hæstv. stjórnarflokkar skilja bezt, þegar kjósandinn lætur til sin heyra.

Þetta er ein af þeim till., sem við þm. Reykv. berum fram. Önnur till. er við 17. gr. fjárlaga, en þar er ákveðið framlag 4 millj. kr. skv. 16. gr. laga nr. 42 frá 1957, um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis o.fl. Við höfum borið fram frv., sjálfstæðismenn, um að hækka þetta framlag upp í 12 millj. kr., og mundi það vera lágmark til þess að mæta þeim þörfum, sem fyrirsjáanlegar og augljósar eru, til þess að sveitar- og bæjarfélögin geti unnið sómasamlega að útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, annars vegar Reykjavík og hins vegar aðrir staðir á landinu. Allir bæjarfulltrúar í Reykjavík, hvar í flokki sem þeir eru, stóðu að slíkri ályktun og áskorun og beindu sérstaklega til þm. Reykv. að beita sér fyrir því og í samráði við fulltrúa sveitarstjórna, sem sæti eiga á Alþingi, að þeir freistuðu þess að fá þetta framlag hækkað. Ég leitaði hófanna um það að fá samstöðu við stjórnarflokkana um flutning þessa máls sérstaklega, en fékk ekki áheyrn. Engu að siður tel ég ekki rétt að gefa upp alla von um það, að þessir menn sjái að sér, og við sjálfstæðismenn freistum því að bera fram till. um það, að fyrir utan þetta framlag ákveði Alþingi viðbótarframlag til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis gegn jafnháu framlagi frá sveitarfélögunum, 8 millj. kr., og yrði þá heildarframlagið 12 millj. kr. í samræmi við áskorun bæjarstjórnar Reykjavíkur og eins og ætla má og sýna má fram á að sé það minnsta framlag frá ríkissjóði, ef hann vill viðurkenna skyldu sína til þess að koma til móts við bæjar- og sveitarfélögin til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði.

Í dag eru aðstæðurnar þannig, eins og ég hef áður sýnt fram á, í þessu máli, að á undanförnum þremur árum hefur bæjarsjóður Reykjavíkur varið til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis 341/2 millj. kr., á sama tíma sem Reykjavík hefur fengið frá ríkissjóði í þessu skyni 10 millj. kr. Á enn við svo búið að standa, að í þessu máli eins og öðrum séu Reykvíkingar settir á annan bekk, en aðrir borgarar þessa þjóðfélags? Það er greinilegt, að það verður ofvaxið getu bæjarsjóðs Reykjavíkur að halda þessu máli þannig áfram, og þegar einnig er vitað, að lánsfjármöguleikarnir eru takmarkaðir eða kannske engir til þess að mæta þörfunum, þá er það beinlínis á ábyrgð núverandi hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, ef komið verður í veg fyrir, að hægt sé að halda áfram þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði og fyrst og fremst til þess að rífa herskálana hér í höfuðstaðnum og annars staðar, þar sem þeir enn eru notaðir til íbúðar í landinu. Og vilja hæstv. stjórnarflokkar taka á sig þessa þungu ábyrgð, þverskallast stöðugt við jafnsanngjörnum kröfum og hér eru fram bornar af hálfu þeirra, sem búa í höfuðstaðnum, sem er þó jafnstór hluti og raun ber vitni um af borgurunum í landinu í heild, og einnig þegar haft er í huga, hversu mikill hluti af ríkistekjunum á hverjum tíma er einmitt tekinn af borgurunum í Reykjavík og þeirri atvinnustarfsemi, sem þar fer fram? Ef hæstv. stjórnarlið vill skella skollaeyrum við hverri einustu till., sem hér er fram borin til þess að rétta við aðstöðu Reykvíkinga aðeins til samræmis við aðra, þá mun heldur engum dyljast, að stjórnin hefur beinlínis tekið sér fyrir hendur að mismuna Reykvíkingum miðað við aðra borgara í þjóðfélaginu.

Það er alveg rétt, að sumum finnst vera byggt nægilega mikið í þessu landi og of mikið, en ég vil halda því fram, að af öllu því, sem byggja þarf, hvort sem það er mikið eða lítið, er þetta forgangskrafa, að bæjarfélögin og valdhafarnir í þjóðfélaginu beiti fyrst og fremst kröftum sínum, eins og nú standa sakir, til þess að útrýmt verði heilsuspillandi húsnæði, að útrýmt verði herskálunum frá stríðsárunum hér, sem ekki er sök — í þessu tilfelli Reykjavíkurbæjar — að standa enn sem ófullkomið íbúðarhúsnæði, ekki sök Reykvíkinga, fremur en annarra borgara í þessu þjóðfélagi og utanaðkomandi áhrifa, sem engir gátu á sínum tíma fengið við ráðið.

Þá vil ég víkja að þriðju till., sem ég flyt einn og varðar ábyrgðir og ábyrgðarheimildir ríkisstj. Ég vék að því við 2. umr. fjárlaga, að ég teldi, að við værum komnir eða þingið væri komið allt of langt á þeirri braut að veita ríkisstj., hverri sem hún væri, stórfelldar heimildir, tugi milljóna króna til þess að takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar fyrir hina og aðra aðila í þjóðfélaginu, einstaklinga, félög eða bæjarfélög og hreppsfélög, og mér sýndist, að það væri fullkomin ástæða til, að þessi mál væru tekin fastari tökum, en verið hefur. Fyrir um það bil 8 árum, þá held ég, að ábyrgðarskuldbindingarnar, sem ríkið stóð í af slíkum sökum, hafi verið um 250 millj. kr., en munu vera líklega um 500 millj. kr. í árslok 1955, þ.e.a.s. samkvæmt þeim ríkisreikningi, sem síðast hefur komið út. Síðan hefur stórlega við þetta bætzt, á árinu 1956 og á yfirstandandi ári, og í 22. gr. fjárlaganna núna er ríkisstj. heimilað að taka á sig ábyrgðarskuldbindingar allt að um það bil 80 millj. kr.

Ég ætla ekki nú, fremur en á fyrra vettvangi, þar sem ég hef minnzt á þetta mál, að sakast við einn flokk eða einstaka menn, en ég held því fram, að þinginu beri skylda til að taka þessi mál öll traustari tökum, en verið hefur, að á sama hátt og þegar ábyrgðarheimildir eru veittar í sérstökum lögum, þá hefur þingið fjallað um ábyrgðarheimildirnar á venjulegan hátt, við þrjár umr. í hvorri deild, og málið verið athugað í nefndum, að þá beri að setja almenna löggjöf um ábyrgðarskuldbindingar ríkissjóðs og hvernig hátta skal framkvæmdum þessa máls á hverjum tíma. Meðan hins vegar sú löggjöf hefur ekki verið sett, sem ég tel að þurfi að vinna mjög vandlega að, þá sé tímabært orðið nú, að Alþingi samþykki bráðabirgðaákvæði, sem lýtur að nokkru frekari afskiptum þingsins af þessum málum í framkvæmd, en verið hefur.

Ég leyfi mér þess vegna að flytja brtt. við 22. gr., þar sem margvíslegar heimildir eru veittar af ríkisstj., að við hana bætist ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi:

Ábyrgðarheimildir samkv. fjárlögum má ríkisstj. ekki nota nema að fengnum till. fimm manna nefndar, sem kosin skal í sameinuðu Alþingi, þar til sett verða almenn lög um ábyrgðir ríkissjóðs og heimild ríkisstj. til að takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar fyrir ríkissjóð.

Það hefur verið ákvæði í fjárlögunum, bæði fyrr og nú, sem átt hefur að veita nokkuð svipað aðhald til bráðabirgða, meðan löggjöf hefur ekki verið um það sett á öðrum sviðum, eins og t. d, það, sem nú er í 25. lið 22. gr., að ríkisstj. er heimilt að ákveða, að fjölgun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana skuli vera háð samþykki fjármálaráðherra, þar til sett verða lög um ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við opinberan rekstur. Þetta hefur staðið áður. Nú hefur verið flutt á þinginu frv. að slíkri löggjöf, og ég tel, að þetta bráðabirgðaákvæði hafi vissulega minnt á mjög verulega og mikla þörf, sem þarna var fyrir hendi, og eins muni verða, ef þingmenn fallast á samþykkt slíkrar till. sem þessarar, hún geti þegar veitt nokkru meiri afskipti sjálfs Alþingis af framkvæmd málanna, sem ég tei ekki að neinn þurfi að sakast um eða til sín að taka, hvað þá sem nokkurt vantraust, heldur að þetta sé eðlileg skipan málanna, en til bráðabirgða, þangað til traustari meðferð þessa máls í heild verður upp tekin, því að ég fæ ekki betur séð, en að alveg á sama hátt og það þykir hæfa og vera rétt í einstökum veigamiklum málum, að sett sé löggjöf, sérstök löggjöf um ríkisábyrgðir í tilteknum tilfellum, þá sé eins rétt, að það sé sett almenn löggjöf, sem skapar þann almenna ramma í löggjöfinni, sem fara beri eftir, þegar sérstök og tiltekin löggjöf hefur verið sett um málið. Ég vona, að hv. þm. taki vel þessari vísbendingu, og vildi mega vænta þess, að slík till. eins og þessi næði fram að ganga. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Öllum þessum till. verður útbýtt, eins og ég sagði, þó að útbýting hafi ekki enn fram farið.