19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. gerði ég nokkra grein fyrir skoðun minni á þeirri stefnu, sem fram kæmi í þessu frv., og fjármálaástandinu yfirleitt. En þó að það hafi að engu leyti breytzt, síðan sú umr. fór fram, ætla ég ekki að fara neitt að ítreka af því, sem ég sagði þá, eða fara inn í almenna umræðu um frv. í heild sinni, en segja hér fáein orð út af tveimur atriðum.

Það er þá í fyrsta lagi brtt., sem ég flyt á þskj. 199, VIII., um nokkra hækkun á framlagi til Skagastrandarhafnar.

Svo undarlega hefur við brugðið, að hv.fjvn. flytur till. um, að það skuli einungis borga til þessarar hafnargerðar 50 þús. kr. á árinu 1958, og samkv. upplýsingum hv. frsm. meiri hl. var svona lág fjárveiting ætluð vegna þess, að höfnin átti svo lítið inni í ríkissjóði, einkum vegna þess, að það hafði verið varið til dýpkunar meðfram bryggjunum á s.l. sumri 360 þús. kr. og það lánað til bráðabirgða úr hafnarbótasjóði og lagt fram frá vitamálaskrifstofunni.

Nú hefur sú breyting á þessu orðið, að eins og ég upplýsti hér við 2. umr. og hæstv. sjútvmrh. hafði sagt mér, þá var gert ráð fyrir því, þegar þetta verk var hafið, að Síldarbræðslur ríkisins borguðu það að meiri hluta til og höfnin að einhverju leyti.

Nú hefur sjútvmrn. staðfest þetta, og einnig hefur vitamálaskrifstofan með bréfi staðfest, það sömuleiðis, að lagt er til, að þessi upphæð skiptist þannig, að Síldarbræðslur ríkisins borgi 2/3 af upphæðinni, eða 240 þús., og hitt færist á höfnina, 120 þús. Náttúrlega má segja, að það skipti kannske ekki öllu máli í raun og veru, hvort það eru Síldarbræðslur ríkisins eða höfnin, sem greiðir svona framkvæmd, því að hvort tveggja eru ríkisfyrirtæki, síldarbræðslurnar eru, eins og vitað er, eign ríkisins og Skagastrandarhöfn er þannig, að það má heita ríkisfyrirtæki. En ég get ekki unað því, að það sé svo langt gengið, að það sé alveg skorið niður framlag til hafnarinnar af þessum orsökum ofan í 50 þús. kr. Þess vegna hef ég flutt hér brtt. og einungis um það, að þetta sé hækkað upp í 150 þús. kr., sem er náttúrlega alls ófullnægjandi til þess, sem þarna þarf að gera.

Ég hef með bréfi sent hv. fjvn. skýrslu um það og áætlanir frá vitamálastjórninni um það, hvað þarna þurfi að gera, og það er nú hvorki meira né minna en það, sem þarna er áætlað, að það, sem þurfi að gera, kosti 2 millj, 560 þús. Þar af er að vísu meiri hluti viðbætur, en um það bil milljón í kostnaði er viðgerðir, sem er alveg óumflýjanlegt að gera til þess að tryggja þau mannvirki, sem búið er að setja þarna upp og áætlað er að þurfi að vinna fyrir á næsta sumri. Nú er það vitað, að svona fyrirtæki eins og Skagastrandarhöfn hefur ákaflega litla möguleika til lánsfjárútvegunar, og ef ekki er hægt að fá þar aðstoð frá ríkisins hálfu, þá eru möguleikarnir til þess mjög litlir, en þarna eru í veði miklu meiri fjármunir í þessu mannvirki, en þessu nemur.

Ég vil þess vegna mega vænta þess, að þessum upplýsingum fengnum, að hv. þm. geti fallizt á þessa litlu brtt., sem ég flyt í þessu skyni. Að öðru leyti skal ég ekki um það fjölyrða.

En um leið vil ég hér segja fáein orð út af tillögum hv. samvn. samgm., sem ég er í, en ég hef skrifað undir nál. hennar með fyrirvara, ekki af því, að ég álíti fært að óbreyttu skipulagi að halda uppi þessum bátaferðum, sem þarna er um að ræða, en eins og kunnugt er, var fyrir 2 árum samþykkt hér á Alþ. að skipa mþn. til þess að gera tillögur um breytingu á skipulagi á strandferðunum yfirleitt, og þessar sífelldu hækkanir, sem eru á því sviði, eru orðnar þannig, að ég get ekki leynt því, að mig hryllir við því ástandi að hækka þetta alltaf sí og æ frá ári til árs. Samkv. þessum tillögum er það hvorki meira né minna en í 19 liðum, sem þessar bátaferðir eru, og það er komið í það ástand, að það eru flóabátar til afnota fyrir allar sýslur í landinu nema þrjár, og þær þrjár sýslur, sem engin afnot hafa af þessum flóabátaferðum, eru Húnavatnssýslur og Norður-Þingeyjarsýsla. Alveg hringinn í kringum landið — alls staðar annars staðar — eru einhverjir flóabátar í gangi með síhækkandi kostnaði. Þá má náttúrlega segja um fjórðu sýsluna, sem er Rangárvallasýsla, að hún hafi þarna sáralítil afnot af, en hún hefur þó gagn af mjólkurflutningum, sem flóabátur flytur milli lands og Vestmannaeyja. En þessi kostnaður er í raun og veru að nokkru leyti mælikvarði á þá óhóflegu dýrtíðaraukningu, sem hefur gerzt síðustu tvö árin og aldrei hefur farið eins hratt á undanförnum árum, því að samkv. fjárlfrv. fyrir árið 1956 voru til þessara flóabáta áætlaðar 1.700 þús. kr., en núna er það komið yfir 3 millj., sem þýðir, að það er 76% hækkun á þessu á tveimur árum.

Nú vil ég segja það, ekki einasta um flóabátana, heldur líka strandferðaskipin yfirleitt, að ég sé ekki nokkra skynsemi í því að láta allan þann kostnað og kostnaðarauka, sem við þetta er, falla með sívaxandi þunga á ríkissjóð og innheimta það með sköttum og jafnframt séu ekki hækkuð nein farmgjöld, sem hafa ekki verið hækkuð mjög lengi, í stað þess að láta þessa starfsemi að sem allra mestu leyti, — það er náttúrlega ekki hægt alveg, maður getur aldrei búizt við því, — en meira en verið hefur, standa undir sér með því, að farmgjöldin séu hækkuð. Það álítur líka forstjóri þessarar stofnunar mjög sanngjarnt og eðlilegt, en segir, að verðlagsyfirvöldin hafi alveg neitað því að fá þarna hækkun á.

En þegar svo er komið, að til strandferða, að flóabátunum meðtöldum, er ætlað á þriðju milljón hærra, eins og er í þessu frv., — á þriðju milljón hærra, en til allra þjóðvegalagninga um allt land, þá þykir mér vera komið út í svo miklar öfgar, að ég sé ekki, hvernig á að halda þeirri starfsemi áfram. Það, sem verður að gerast í því sambandi, er það, að það þarf að breyta þarna verulega um skipulag á. En það geta allir menn séð, að ein þingnefnd, eins og hv. samvn. samgm., verður að taka þetta eins og það kemur fyrir og getur ekki annað, en lagt þær tillögur til, sem hún hefur þó mjög dregið úr, samkv. því, sem sótt hefur verið um.

Ég vildi skýra frá því, að minn fyrirvari undir nál. er byggður á þessari skoðun, en ekki fyrir það, að ég sé í raun og veru í einstökum atriðum á móti þeim tillögum, sem hér hefur verið mælt fyrir af form. og frsm. hv. samvn. samgm.

Að öðru leyti skal ég ekki fara hér neitt inn á það að fjölyrða um frv, og láta þetta að þessu sinni nægja, en seinna í kvöld kann að vera, að ég segi fáein orð um brtt., sem ekki er komin fram eða ekki er búið að útbýta.