19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég met mjög mikils þá upplýsingu, sem kemur fram fyrir því, að halda á þennan næturfund. En er ekki rökrétta ályktunin af þeim upplýsingum, sem hæstv. forseti gaf, að það sé ekkí tími til hvors tveggja, að þm. þeir, sem hér eiga hlut að máli, nái heim svo snemma fyrir jól sem þeir óska og að unnt sé að afgreiða fjárl. með stjórnskipulegum hætti fyrir jólin? Ég get ekki dregið aðra ályktun, að annaðhvort verði menn að gefa sér tíma til þess að hafa hér skaplega og skipulega umr., þó að það kosti það, að þeirra jólafrí styttist, eða þá að það verði að hætta við að afgreiða fjárl. fyrir jól. En ég tek undir það með hæstv. forseta, að það er ekki æskilegt að afgreiða fjárl. með þeim hætti, sem nú er ráðgert, og ef um það tvennt er að ræða, að ganga á svig við settar reglur um meðferð fjárl. eða menn komist heim til að halda jólahátíðina, þá verður að meta meira að afgreiða fjárl. á skaplegan hátt. En það er hægt að sleppa fram hjá vandanum við þetta með því að gefa bráðabirgðafjárl. í skyndi, greiðsluheimildir þangað til um miðjan febrúar, og leyfa þm. að fara strax heim í nótt, ef þeir óska.