19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Við 2. umr, lýsti ég þörf á stækkun flugvallarins á Skipeyri við Ísafjörð og skýrði frá því, að ég áskildi mér rétt til að bera fram brtt. um framlag til þess að stækka hann við þessa umr., sem nú fer fram.

Nú hefur hv. fjvn. fallizt á að hækka framlag til flugvallagerðar á 20. gr. um 600 þús. Hæstv. 2. landsk., form. n., gat þess í ræðu sinni við þessa umr., að hv. fjvn. hefði einmitt sérstaklega haft í huga þá kaupstaði, sem ekki eru í sambandi við akvegakerfi landsins og eru því háðari flugsamgöngum, en aðrir. Ég þakka nefndinni fyrir skilning á nauðsyn þessari og vona, að þessi hækkun geri kleift að hefjast handa um úrbætur.

Til viðbótar þessari 600 þús. kr. hækkun gæti einnig orðið til umráða nokkur fjárhæð samkv. heimildarákvæði 22. gr., ef rekstur flugvalla verður hagkvæmari, en ráð er fyrir gert í þessum fjárl.

Ég mun því ekki bera fram tillögu um sérstaka fjárveitingu til þessa flugvallar, sem ég hafði annars haft í huga.

Þá hafði ég einnig lýst því við fyrri umr., að nauðsyn bæri til að hækka framlag til steyptra og malbikaðra vega í kaupstöðum, sem hefur verið á fjárl. undanfarinna ára ein 100 þús., og gerði ég grein fyrir því, hver nauðsyn er á að auka þetta framlag, þar sem nú er komið að því, að kaupstaðirnir neyðist til að bæta um þá vegagerð, sem hefur verið þar undanfarið, og enda sumir þeirra þegar byrjaðir á framkvæmdum í því efni. Er þá augljóst, að ef ríkið á að styrkja það eitthvað í átt við það, sem ætlunin var, þegar lögin um benzínskattinn voru sett, þá er þetta nánast hlægileg upphæð, þessi 100 þús., sem til þess eru ætluð á fjárlögum núna og hafa verið um mörg undanfarin ár. Ég leyfi mér því að leggja til, að í stað þessara 100 þús. komi 1 milljón, og er enginn vafi á, eins og ég gat um hér við 2. umr., að þetta er mjög hófleg upphæð og vafalaust miklu minni, en ef samþ. hefði verið sú breyting á lögunum, sem ég gerði till. um á síðasta þingi og var í þá átt að færa lögin til þess horfs, sem þau upphaflega voru og hefði verið fullkomið sanngirnismál við kaupstaðina að gert væri.

Þá hef ég einnig leyft mér að bera fram till. um, að við 13. gr. A, XII. lið, komi 100 þús. í staðinn fyrir 75 þús., sem er í frv., og gerði ég grein fyrir því einnig við 2. umr., hvernig á þessari hækkunartillögu minni stæði, og hirði ekki um að endurtaka það hér.

Þá vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um till. frá hv. þm. N-Ísf., Sigurði Bjarnasyni, þar sem hann leggur til, að veitt sé til ferjubryggju á Mýri á Snæfjallaströnd 70 þús. Það er svo með þessar ferjubryggjur þarna í Djúpinu, að það eru einkum tveir staðir, sem má segja að hafi verið fullkomnar ferjubryggjur, þannig að þangað eru ferjaðir þeir, sem þurfa að fara landleiðina frá Ísafirði og öðrum stöðum við Djúp til Reykjavíkur eða annarra staða, þaðan sem hægt er að komast um þjóðvegi landsins. Það hefur verið sívaxandi umferð þessa leið á undanförnum árum. Nú er leiðin það löng, að Djúpbáturinn, sem annast þessar ferðir, annar ekki að fara nema 2 eða í hæsta lagi 3 ferðir á dag, en það kom margsinnis fyrir í sumar, að svo mikið var að flytja bifreiðar og farþega, að þetta nægði ekki til þess að anna flutningaþörfinni, og það hefur verið svo undanfarin sumur, að það hefur komið fyrir, t.d. fyrir þá, sem hafa þurft að fara með bifreiðar frá Ísafirði eða til Ísafjarðar, að það hefur þurft að panta far fyrir bifreiðarnar með allt að því hálfs mánaðar fyrirvara, og skilja allir, hver annmarki er á því.

Ef vegurinn hins vegar væri kominn nokkru lengra, eins og verið er nú að leggja hann, —það má jafnvel gera sér vonir um, að hann komist nú í sumar, ef vel gengur, í Ögur að vestanverðu við Djúp, en að norðanverðu við Djúpið er búið að undirbyggja veg út að Mýri, þar sem lagt er til að þessi ferjubryggja sé gerð, en þar er nú engin ferjubryggja, — en eftir að vegurinn væri kominn á þessa staði, hvort heldur væri í Ögur eða að Mýri, þá styttist svo verulega sjóleiðin, að báturinn ætti auðvelt með að fara fleiri ferðir, þegar þörf er á, og væri þá meiri von um, að við það mætti notast, á meðan ekki kemur vegasamband, sem viðhlítandi er.

Það er því ekki einasta nauðsyn fyrir þá, sem þarna búa, heldur einnig fyrir aðra, sem búa við Djúpið, á Ísafirði og í þorpunum þar í kring, að greitt sé fyrir því, að vegurinn komist lengra og þar sem hann endar hverju sinni sé nothæf ferjubryggja, þannig að vegirnir komi að notum. Vildi ég því ekki láta undir höfuð leggjast að skýra frá þessu hér, svo að menn gætu skilið betur nauðsynina.