19.12.1957
Sameinað þing: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1958

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær almennu umræður, sem hér hafa orðið um afgreiðslu fjárl., jafnvel þó að margt hafi verið sagt hér, sem mér fyndist, ef tími væri til, ástæða til að svara.

Ég vil þó aðeins segja það út af því, sem hér kom fram utan dagskrár áðan, að ég álít, að það ætti ekki einasta að vera nú, heldur ævinlega, að fjárlög væru afgreidd og tilbúin, þegar þau eiga að réttu lagi að ganga í gildi, m.ö.o. um áramót, og tel ég því rétt, að þingið reyni að ljúka fjárl. fyrir áramót nú, eins og ég tel það ævinlega rétt, að svo sé gert. En ég skal ekki fjölyrða um þetta.

Tilefnið til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er það, að ég flyt ásamt samþm. mínum, hv. 2. þm. Eyf. (MJ), brtt. við fjárl. Það er III. liður á þskj. 199. Hann er um það að hækka framlagið til Múlavegar, sem á að tengja saman Ólafsfjörð og innhéruð Eyjafjarðar í vegasamband, úr 200 þús. kr. í 500 þús. kr.

Ég hef fullan skilning á því, að það er ekki fært að hækka gjaldahlið fjárlaganna verulega frá því, sem nú er. En ég lít svo á, að það mætti ná þessari upphæð á auðveldan hátt með því að lækka suma aðra liði á fjárl., og það væri sanngjarnt. Það er ekki búið að slita umræðunni enn, og hv. fjvn. gæti vel tekið það til athugunar Við þm. Eyfirðinga sáum þó ekki fært að bera slíkar tillögur fram, því að vitanlega þýðir það lítið fyrir einstaka þm., slíkar tillögur þyrftu að koma frá fjvn.

Mér finnst t.d., án þess að ég leggi neina sérstaka áherzlu á það, að það sé töluverð rausn af ekki stærra þjóðfélagi, en okkar þjóðfélag er að ætla á aðra milljón kr. til skálda og rithöfunda fyrir utan þá fjárhæð, sem menntamálaráð veitir að sínu leyti. Það er orðinn töluvert annar andi hér í hinu háa Alþ. en var, þegar það kostaði harða baráttu að fá 600 kr. fjárveitingu til Þorsteins Erlingssonar. Ég hæli því ekki og óska ekki eftir, að þeir tímar komi aftur, að höfuðskáldi eins og Þorsteini Erlingssyni sé neitað um litla fjárhæð, en ég efa mjög, að allir þeir menn, sem þessu fé er skipt á milli, séu raunverulega skáld.

En það er þó annar liður á fjárl., sem ég hef einkum í huga, og kem ég að því nú. Ólafsfjörður og Siglufjörður eru nágrannabæir, eins og allir vita, og það er margt líkt um þessa bæi, atvinnuhætti þeirra og annað. Báðir þessir bæir eru tengdir við vegakerfi landsins að nokkru þannig, að vegur liggur frá þeim yfir fjöll vestur til Skagafjarðar, og þannig tengjast þeir vegir vegakerfi landsins, þó að þeir séu lélegir á kafla, þeir koma saman og eru sami vegurinn, þegar kemur vestur í Fljótin. Nú er það svo, að í fyrra var veitt hálf milljón til nýs vegar frá Siglufirði og vestur, svokallaður Siglufjarðarvegur, en það voru á sama tíma veittar 200 þús. kr. til nýs vegar, sem byrjað er á og á að tengja Ólafsfjörð við innhéruð Eyjafjarðar, eða til Múlavegar. En fyrir þessar 200 þús. kr., sem veittar voru til Múlavegar, var ekki unnið í fyrra. Sú upphæð var ekkert notuð. Mér fyndist eðlilegt, að þessir tveir vegir, Siglufjarðarvegur og Múlavegur, fylgdust að, og þar sem nú Siglufjarðarvegur fékk 500 þús. á fjárl. í fyrra eða fjárl. yfirstandandi árs, en Múlavegur 200 þús., sem ekki var þó notað, þá fyndist mér ekkert óeðlilegt eða ósanngjarnt, þó að nú væri skipt um og þá væru fjárframlög til þessara vega jöfn. Ég beini því til hv. fjvn., af því að enn er tími til að gera brtt., hvort það væri ekki réttara í þetta sinn að lækka þessa upphæð til Siglufjarðarvegar og bæta því við Múlaveginn. Þá væru þeir jafnir um fjárframlög úr ríkissjóði, og síðan væri veitt jöfn fjárhæð árlega.

Ég get ekki séð, að þessi till. sé beinlínis hliðstæð till. um vegi innan héraða, því að raunverulega er þetta fjallvegur, ætlaður til að tengja saman byggðir, sem ekki hafa haft beint vegarsamband. Og þegar litið er á fjárveitingar í fjárlfrv., eins og það er nú eftir 2. umr., eftir að hv. fjvn. hefur um það fjallað, þá getur hver maður séð, að Eyjafjarðarsýsla er einna lægst af sýslum landsins um fjárveitingar til vega. Hitt skal ég aftur játa, að til hafnargerða er þar veitt töluvert, og kvarta ég ekki yfir því.

Ég skýt þessu aðeins til athugunar fyrir hv. fjvn. Henni getur ekki komið þessi till. okkar þm. Eyf. neitt á óvart, því að þær óskir, sem við þm. Eyf. bárum fram við fjvn., voru einmitt á þann veg, að til Múlavegar yrði veitt þessi upphæð, sem við nú leggjum til að verði veitt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, en vil segja það að lokum, að ég tel Ólafsfjarðarkaupstað alveg eins nauðsynlegt, ef ekki nauðsynlegra, að komast í beint vegarsamband við byggðir Eyjafjarðar eins og Siglufirði er að fá nýjan veg meðfram sjónum til Skagafjarðar.

Ég vona, að áður en umr. lýkur, athugi fjvn. þessa till. okkar að einhverju leyti, og mundum við sjálfsagt verða til viðtals um einhverja lægri upphæð jafnvel. En við getum ekki sætt okkur við það, að upphæðin standi óbreytt til þessa vegar, og þá jafnframt með tilliti til þess, hvað gert er í næsta nágrenni, þar sem við sjáum ekki að sé neitt meiri þörf.