22.10.1957
Efri deild: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það er auðvitað ekki aðstaða til þess hér að þessu sinni og á þessum fundi að svara til hlítar þeirri fsp., sem hér kom fram, enda varla við því að búast. En mér þykir glöggt, að hv. fyrirspyrjandi hefur a.m.k. ekki tekið fullkomlega trúanlega þá skýrslu, sem blað það, sem hann mun vera ritstjóri við, birti nýlega um afkomu útflutningssjóðs. Eitthvað dregur hann það í efa, að þær tölur muni vera réttar, sem þar voru nýlega birtar, en það eru ekki nema örfáir dagar síðan Morgunblaðið birti alllanga ritgerð í tölum um afkomu sjóðsins. En til þess þó að svara hér aðalatriðunum, þá vildi ég geta þess, að síðasta uppgjör hjá sjóðnum, sem ég hef fengið í mínar hendur, var miðað við miðjan septembermánuð. Það uppgjör sýndi, að útflutningssjóður hafði þá fram til miðs septembers greitt samtals út um 242 millj. kr. til framleiðsluatvinnuveganna, sjávarútvegs og landbúnaðar. Sjóðurinn hafði þá fram að miðjum september greitt svo að segja allar þær kröfur, sem inn höfðu komið viðvíkjandi bótum vegna ársins 1957, jafnóðum og þær höfðu komið. Þó var það svo, að þann dag voru samtals tilheyrandi árinu 1957 komnar til sjóðsins um 13 milljónir króna í kröfum, sem þá voru til athugunar hjá sjóðsstjórninni, en voru ekki gjaldfallnar. Það mátti því segja, að fram til miðs september hafi sjóðurinn staðið í skilum, eins og lög og reglur stóðu til, varðandi allar bætur, sem tilheyrðu framleiðslu ársins 1957. Um þetta leyti hafði sjóðurinn greitt samtals vegna skuldbindinga eldra greiðslukerfis 72 millj. kr., en talið var, að enn væri eftir að greiða upp í þessar gömlu skuldbindingar um 32–34 millj. kr., og af þeim voru 20 millj. kr., sem þá lágu fyrir, þannig upp gerðar hjá sjóðnum, að sjóðurinn hefði getað greitt þær, ef hann hefði haft fé til þess. Það mátti því segja, að æskilegt hefði verið, að sjóðurinn hefði þarna haft röskar 20 millj. í tekjur fram yfir það, sem hann hafði haft, til þess að geta haft algerlega hreint borð, bæði viðvíkjandi uppgjöri af eldri skuldum og eins viðvíkjandi kröfum þeim, sem komu inn vegna ársins 1957.

Hitt var svo líka jafnljóst, að tekjur sjóðsins um þetta leyti voru í kringum 25 millj. kr. lægri, en ráð hafði verið fyrir gert, og það stafar af því, að einn megintekjustofninn, sem sjóðurinn byggði á, sem voru hinar gjaldháu vörur eða hinar gömlu bátagjaldeyrisvörur, hinir háu tollar á þeim, — að þær hafa verið fluttar inn í allmiklu minna magni, en hafði verið gert á s.l. 2 árum eða nánar tiltekið: það mun vera um 50 millj. kr., sem innflutningur á hinum tollháu vörum var lægri nú 1. okt. heldur en á sama tíma, árið á undan. En það þýðir vitanlega, að ríkissjóður, sem tekur tekjur sínar af þessum tollháu vörum, og útflutningssjóður hafa báðir fengið talsvert minni tekjur, en ráð var fyrir gert, þegar áætlanir voru samdar, en þá var við það miðað, að innflutningur á þessum vörum yrði svipaður og hann hafði verið á undanförnum tveimur árum.

Það er því rétt, að verði ekki verulegar breytingar þann tíma, sem eftir er af árinu, með innflutning á þeim vörum, þá er nokkurn veginn augljóst mál, að tekjur útflutningssjóðs verða á þessu ári minni, en ráð var fyrir gert, og það mundi að sjálfsögðu þýða það, að hann vinnur ekki eins hratt að borga upp þessar gömlu skuldir frá árunum 1955 og 1956, eins og ráð var fyrir gert. En eins og ég hef nú upplýst, þá er það þó augljóst mál, að sjóðurinn hefur staðið tiltölulega mjög vel við sínar skuldbindingar og unnið stórkostlega á, í þeim efnum, að greiða upp þær bætur til framleiðslunnar, sem áður voru orðnar allverulega mikið á eftir. Það var líka gerður samanburður á því í sambandi við þetta uppgjör um miðjan septembermánuð, hvernig greiðslur til framleiðslunnar hefðu verið nú á árinu 1957, borið saman við það, sem greiðslurnar voru frá árinu á undan, og sá samanburður sýnir, að til framleiðslunnar í heild hafði verið greitt nú á árinu 1957 eða fram til miðs septembermánaðar rétt um það bil 100 millj. kr. hærri fjárhæð til sjávarútvegs og landbúnaðar, heldur en greitt hafði verið úr því kerfi, sem var gildandi árið áður. Um það er því ekkert að villast, að útflutningssjóður hefur lagað fyrir framleiðsluna mjög verulega frá því, sem áður var, bæði að því leyti til, að greiddar yrðu hærri bætur á hverja einingu, og eins að uppgjörið er miklu fyrr á ferðinni og staðið betur í skilum.

Hitt er svo aftur annað atriði, að nokkur uggur er í mönnum með það, hvernig verði með tekjur sjóðsins, en það vitanlega stendur í beinu sambandi við innflutning á þessum vöruflokkum, sem aðallega eiga að gefa sjóðnum tekjur.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess hér undir umræðum um þetta mál að fara nánar út í upplýsingar varðandi afkomu útflutningssjóðs.