22.10.1957
Efri deild: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir að hafa svarað minni fsp. Hún var ekki fram borin vegna þess, að ég treysti ekki fyllilega þeim upplýsingum, sem gefnar hefðu verið fyrir skömmu í mínu blaði sem svar við staðhæfingum hæstv. félmrh, í útvarpi um afkomu útflutningssjóðs á þessu ári. Þær upplýsingar, sem blaðið gaf, voru fyllilega réttar. Hins vegar er það ekki óeðlilegt, þó að Alþingi telji það viðkunnanlegra, að nokkurt samræmi sé á milli yfirlýsinga hæstvirtra ráðh. um jafnþýðingarmikið mál eins og afkomu þessa sjóðs, sem á að verulegu leyti að halda gangandi aðalútflutningsframleiðslu þjóðarinnar. Þær upplýsingar, sem hæstv. sjútvmrh, gaf hér, sanna það, að Morgunblaðið hefur birt réttar upplýsingar um þetta, en þjóðinni hefur af hálfu hæstv. flokksbróður hans, félmrh., verið sagt skakkt til, um þessi mál. Ég skal ekki fara að ræða þau almennt hér undir umr, um það mál, sem nú er hér á dagskrá, en benda á það, að hæstv. sjútvmrh. staðfestir þær yfirlýsingar hæstv. fjmrh., að fullvíst megi telja, að verulegur halli verði hjá útflutningssjóði á árinu. Hann upplýsir, að hinn 15. sept. hafi 20 millj. kr., sem uppgerðar hefðu verið, ef fé hefði verið til þess í sjóðnum, legið þar ógreiddar; enn fremur hafi þá verið í þann mund að gjaldfalla um 13 millj. kr. Allt hnígur þetta á sömu sveif, að það sé fleipur eitt og fjarstæða, sem haldið var fram af hálfu hæstv. félmrh. í útvarpsumræðunum, að þessi sjóður hafi fyllilega staðið við sínar skuldbindingar og upp á hann sé hvorki neitt að klaga né muni verða síðar á þessu ári. Það gefst væntanlega tækifæri til þess fljótlega á næstunni að ræða þessi mál nánar. En ég ítreka að öðru leyti þakkir mínar til hæstv. ráðh, fyrir svör hans.