22.10.1957
Efri deild: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég skal aðeins tefja hv. þd. með örfáum orðum. — Hv. þm. N-Ísf. hélt áfram að vitna í blað sitt eða blað sitt og Bjarna Benediktssonar, en það þýðir bara ekki neitt, þó að hann vitni í blað þeirra beggja, þegar hins vegar er staðfest afrit af ræðu minni, sem er komið af segulbandinu hér og frá þeim, sem um það fjalla. Það er rétta heimildin, en ekki útlegging hv. þm. N-Ísf. af því, hvað hafi staðið í minni ræðu. (SB: Það stendur það sama í Morgunblaðinu.) Ef það stendur sama í Morgunblaðinu og í þessari ræðu, þá er Morgunblaðið að segja sannleikann. Annars er það að ljúga, og annars er hv. þm. N-Ísf. líka að endurtaka lygi Morgunblaðsins. Það er þetta einfalda atriði, sem hér er um að ræða, og þar sem einmitt orðum hans og handritinu bar ekki saman og hann þóttist hafa farið rétt með það, sem stóð í Morgunblaðinu, þá hefur hann aðeins verið að staðfesta það, hverju Morgunblaðið laug. Það væri gott að geta staðið svona með heimildir í höndunum oftar, en í dag til þess að reka ósannindin ofan í Morgunblaðið og þá, sem þar stýra pennanum.

Hv. þm. fór svo að tala um, að það hefði ekki verið nema sjálfsagt, að útflutningssjóðurinn tæki við vanskilum bátagjaldeyriskerfisins og framleiðslusjóðs. Auðvitað varð útflutningssjóðurinn að taka við þessum vanskilum. En hefði það ekki verið skemmtilegra, ef það hefði verið hægt að taka þar við sléttu borði? Jú, vissulega hefði það verið skemmtilegra. En af því að það var ekki slétt borð, heldur um 100 millj. kr. vanskil hjá bátagjaldeyriskerfinu og framleiðslusjóði, þá varð útflutningssjóðurinn að taka við þessu, — og hefur gert því hver skil? Jú, hann hefur gert því þau skil á þessum 8 mánuðum, sem liðnir eru af þessu ári, þegar uppgjörið fór fram, að það er búið að borga um 80 millj. af þessu. Það eru að vísu eitthvað yfir 20 millj. eftir.

Ég segi: Þetta er sannarlega hægt að nefna, að eitthvað hafi unnizt á, og því getur hv. þm. ekki neitað. Það hefur verulega unnizt á. Hann segir, að það hafi aðallega unnizt á í því að hrekja þjóðina lengra út í vanskil og óreiðu. Þetta gæti hann því aðeins fullyrt, ef hann gæti sýnt fram á það, að vanskilin væru nú meira en 100 millj. kr., meiri en þau voru, vanskilin, sem tekið var við af fyrra kerfinu. En það er fjarri því, að hann geti leitt nokkur rök að því. Nei, það er eins og ég sagði í minni útvarpsræðu. Íhaldið er með þeim ósköpum, þeirri ónáttúru, að það hryggist, ef eitthvað hefur áunnizt, það gleðst, ef það heldur sjálft, að eitthvað stefni til ófarnaðar, og þetta er hörmulegt. En svona er þetta. Hér stenzt hv. þm. N-Ísf. ekki reiðari. Hann tútnar út af vonzku yfir því að standa augliti til auglitis við þá staðreynd, að hér hefur verulega áunnizt. Og því verður ekki hnekkt, í þessu efni stöndum við þannig, að það hefur mikið áunnizt frá því, sem var, þegar tekið var við óreiðunni af framleiðslusjóði og bátagjaldeyriskerfinu.