05.12.1957
Neðri deild: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. (Skúli Guðmundason):

Tveir hv. meðnefndarmenn mínir í fjhn. hafa ítrekað það, að þeir óski eftir því, að málinu verði vísað aftur til fjhn. Eins og ég sagði áðan, sé ég enga ástæðu til þess, því að ég get ekki á það fallizt, að meðferð málsins í n, hafi verið með nokkuð óvenjulegum hætti. Mér skildist áðan á hv. 5. þm. Reykv., að hann vildi fá ráðh. til að mæta á nefndarfundi og gefa þar einhverjar upplýsingar ummálið. En þetta er í fyrsta sinn, sem ég heyri það nefnt. Þegar málið var tekið fyrir og afgreitt í n., kom engin ósk um slíkt frá hv. fulltrúum Sjálfstfl. þar. Það var að vísu nokkurt umtal um frv., og ég bauðst til þess að ná í umræðurnar frá Ed., þar sem málið hafði verið lagt fyrir, svo að við gætum á fundinum kynnt okkur það, sem þar hafði verið um það sagt af hálfu ríkisstj., en þeir óskuðu ekki eftir því, hv. nefndarmenn, að það væri gert, og varð því ekki af því. Hins vegar athugaði ég þessar umr, síðar og sagði frá því nú í framsöguræðu minni, hver grein hefði verið gerð fyrir málinu, þegar það var fyrst lagt fyrir þingið, af hálfu hæstv. sjútvmrh. Þeir skrifuðu undir nál., eins og kunnugt er, með fyrirvara, þessir tveir hv. nm., og töluðu um það, að þeir vildu fá nánari upplýsingar um víss atriði málinu viðkomandi, og var ekkert við því að segja. En ég skildi það svo, að þeir ætluðu að afla sér þeirra, áður en málið kæmi til umr. í d. eða þá á milli umræðna, og ætti það, eins og ég hef áður bent á, að vera auðvelt fyrir þá, og er fleiri en ein leið til þess að fá slíkar upplýsingar, annaðhvort með því að ræða um það við ráðherra eða þá að bera fram um einhver einstök atriði fyrirspurnir á venjulegan hátt í þinginu, sem þeir mundu þá vafalaust fá svarað.