05.12.1957
Neðri deild: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vildi benda á það, að hér er í raun og veru um tvö ólík atriði að ræða varðandi meðferð málsins. Annað er það, hvort fallizt verður á að fresta umr., og mér skilst, að það geti hæstv. forseti gert án nokkurrar atkvgr., ef hann telur það sanngjarnt. Og ef umr. yrði frestað, m.a. vegna þess að hæstv. sjútvmrh. er hér ekki viðstaddur, sem við viljum mjög gjarnan tala við ummálið, þá gæti hæstv. sjútvmrh. valið um það sjálfur, hvort hann vildi í n. gefa nauðsynlegar upplýsingar, jafnvel þó að málinu væri ekki vísað til n., eða tala ummálið hér á opnum fundi. Það má segja, að það sé till. um eins konar millileið í málinu, ef það gæti orðið til samkomulags, að þessari umr. yrði frestað af hæstv. forseta og það yrði látið eiga sig, hvort málinu yrði vísað til nefndar eða ekki, og látið undir vild hæstv. sjútvmrh., hvort hann kysi heldur að ræða málið í n. eða á opnum fundi. Ég veit ekki, hvort hv. 5. þm. Reykv. vildi fallast á þessa millileið, ef hæstv. forseti gerir það, en ég vildi þó skjóta þessu fram. En það er ekki hið sama, hvort málinu verður nú vísað til 3. umr. eða umr. er frestað, vegna þess að þær upplýsingar, sem hæstv. sjútvmrh. kann að gefa, kunna að hafa áhrif á afstöðu manna til málsins og tillöguflutning í sambandi við það, breytingartillögur og annað slíkt. Og það er þó óvefengt af hv. frsm. nefndarinnar, að ekki sé óeðlilegt, að menn vilji hafa tal af ráðherra í sambandi við málið, þó að hann vilji helzt losna við að fá hann inn í sitt fundarherbergi, og það skil ég út af fyrir sig ósköp vel.