06.12.1957
Neðri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það ber að fagna því, að hæstv. sjútvmrh. skuli nú loks hafa séð sér fært að mæta hér í d. og gefa hv. þdm. þó ofur litlar upplýsingar um þau atriði í sambandi við þetta mál, sem hingað til hafa verið óupplýst. En því miður verð ég að líta þannig á, að þær upplýsingar, sem hæstv. sjútvmrh. hefur gefið, séu tiltölulega lítils virði. Í rauninni hefur ekkert nýtt komið fram í hans ræðu fram yfir það, sem fram kom í ræðu hv. formanns fjhn., þegar hann vitnaði í ræðu þá, sem hæstv. sjútvmrh, flutti við meðferð málsins í Ed.

Hæstv. sjútvmrh. taldi, að það hefði aðallega verið tvennt, sem fyrir hefði vakað með því að setja þessa löggjöf: Í fyrsta lagi að bæta hag íslenzkra skipa í samkeppninni við erlend skip, sem tekin eru á leigu og flytja vörur hingað til lands, og í öðru lagi að afla tekna í útflutningssjóð. Eins og ég benti á við umræður í gær, og það er síður en svo, að skoðun mín í því efni hafi breytzt, þá finnst mér, að þetta tvennt hljóti að útiloka hvað annað. Skilyrði fyrir því, að útflutningssjóður fái auknar tekjur af þessu, er auðvitað það, að skipin sigli þá eftir sem áður hingað til lands. Það er ljóst, að sigli skipin eftir sem áður, þrátt fyrir þetta hækkaða gjald, þá koma auknar tekjur til að renna í útflutningssjóð. Þá ætti samkeppnin við íslenzku skipafélögin líka að vera sú sama og áður, svo að það þarf þá a.m.k. sérstakrar skýringar við, í hverju þessi bætta aðstaða er fólgin. Nái frv. hins vegar þeim tilgangi að takmarka siglingar hingað til lands, þá þýðir það auðvitað bætta aðstöðu fyrir íslenzku skipin, en þá minnka tekjur útflutningssjóðs af þessum ráðstöfunum að sama skapi. Þess vegna var einmitt sérstök ástæða til þess að spyrja um það, eins og hv. 5. þm. Reykv. hefur gert, hvað miklar tekjur útflutningssjóður hafi haft af þessu, ef árangur laganna í því efni hefur orðið sá, sem til var ætlazt, og að hvað miklu leyti aðstaða hinna íslenzku skipafélaga hefur batnað við þetta. En þá kom sú furðanlega skýring hjá hæstv. sjútvmrh., að hann taldi sig engar upplýsingar um þetta geta gefið og taldi, að það lægi í rauninni alls ekki í sínum verkahring að gera hér nokkra grein fyrir áhrifum þeirra ráðstafana, sem hann hefur staðið fyrir í því efni, söfnun skýrslna um þetta heyrði undir annað rn, en sitt, og þeir, sem áhuga hefðu fyrir að fá slíkar upplýsingar, gætu þá leitað þeirra einhvers staðar annars staðar. Á þessu hygg ég að flesta, sem hlustað hafa á hæstv. ráðh., hljóti mjög að furða.

Þrátt fyrir það, þó að málið virðist í rauninni sömu þoku hulið eftir þessar upplýsingar hæstv. ráðh. sem áður, þá kom það fram hjá honum, sem allir vita að er það sanna. Hér er um að ræða lið í þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru á síðasta sumri til þess að hækka farmgjöld vegna sjómannadeilunnar. En hvers vegna þá ekki að segja þetta umbúðalaust? Hvers vegna ekki að kalla hlutina sínu rétta nafni, heldur en vera með vífilengjur um það, að það sé í rauninni eitthvað allt annað, sem hér á að gera, það eigi að bæta samkeppnisaðstöðu íslenzkra skipa og fram eftir þeim götunum? Hér er í rauninni um að ræða alveg sama skollaleikinn og hæstv. ríkisstj. hefur leikið yfirleitt í sambandi við kaupgjaldsog verðlagsmál. Á s.l. vetri fengu flugmenn, eins og kunnugt var, kauphækkanir sem námu allt að því 35–40%. Það var sannleikurinn í málinu. En þetta mátti bara ekki koma fram. Hæstv. ríkisstj. hældi sér þá af því, að henni hefði tekizt að gera flugmennina ánægða, án þess að raunverulega væri um neinar kauphækkanir að ræða. Það er svona á öllum sviðum, að það, sem gerist í efnahagsmálunum, er reynt að dulbúa með einu eða öðru móti, þannig að fólkið fær ekki að vita það sanna. Og þetta mál, sem hér liggur fyrir, er aðeins lítið sýnishorn af því. Verður það þó að teljast gott, að þetta hefur komið í ljós, þrátt fyrir það að hv. þingdeildarmenn séu því miður litlu nær vegna þeirra upplýsinga, sem gefnar hafa verið.