06.12.1957
Neðri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Hv. 9. landsk. segir nú, að það hafi að vísu ekkert komið fram í upplýsingum mínum um þetta mál, sem hann hafi ekki vitað áður og hann hafi ekki heyrt hér áður. Það þykir mér líka mjög líklegt á allan hátt, því að eins og ég sagði, þá ætlast ég til þess, að flestir þingmenn hafi heyrt og vitað um efni þessa máls frá upphafi, frá því að frá því var skýrt í blöðum skömmu upp úr vinnudeilunum s.l. sumar, og síðan auðvitað eftir að málið kom hér inn á Alþingi, og þá var skýrt alveg undanbragðalaust frá því, hvað hér væri um að vera, svo að þess er vitanlega ekki að vænta, að neinar þær skýringar komi fram hjá mér, sem upplýsi málið eitthvað fram yfir það. En að öðru leyti þótti mér málflutningur hans heldur einkennilegur og eiginlega bera vott um það, að hann skorti verulega á þekkingu á því, hvað hér er raunverulega um að ræða. Ég hafði litið yfir það, hvað sagt var í Morgunblaðinu í morgun í útdrætti úr ræðum manna, og þar með einnig það, hvað þessir hv. þm. hafi átt að segja hér um málið í gær, sló því nú reyndar föstu, að þar hlyti blaðamaðurinn að hafa bögglað fyrir sér málflutningi þessa hv. þm. og ekki farið rétt með, en nú sé ég, að bögglingurinn er ekki hjá blaðamanninum í þessu tilfeill, heldur hjá hv. þm. sjálfum. Hann skilur ekki samhengið í því, að það eigi að hlúa að íslenzkum skipum á þann hátt að leggja 8% yfirfærslugjald á fragt erlendu skipanna, vegna þess að í þessu sé, eins og hann sagði, í rauninni mótsögn. Jú, það gefur auðvitað alveg auga leið, að íslenzku skipin, sem eiga að keppa við erlendu skipin, hafa að sjálfsögðu aðstöðu til þess að hækka sín farmgjöld um allt að 8% til þess þó að hafa sín farmgjöld til jafns við hin erlendu, eftir að þetta gjald hefur verið lagt á erlendu farmgjöldin. Þetta gefur alveg auga leið, og þetta skapar íslenzku skipunum betri samkeppnisaðstöðu, því að þau segja: Við hefðum ekki getað haldið þessari samkeppni óbreyttri, eftir að við hefðum fengið á okkur aukin útgjöld hér heima, en það hefðu erlendu skipin ekki fengið. — En þá segir hv. þm.: Verður þetta þá ekki til þess, að erlendu skipin hverfa héðan, þau verða undir í samkeppninni við íslenzku skipin, sem halda þá velli og halda flutningunum, og þau erlendu hverfa, og þar með hefur þá útflutningssjóður engar tekjur, og í þessu hlýtur að vera mótsögn? — Þessum málum hefur alltaf verið þannig háttað, og það er tilgangurinn nú eins og áður að láta íslenzku skipin verða fullnotuð, eins og ég sagði, og taka ekki meira af erlendum skipum, en við þurfum umfram það. Það höfum við þurft á undanförnum árum, af því að við eigum ekki nægilegan flutningaskipaflota til þess að anna öllum okkar þörfum, og þannig verður áfram, og þannig hefur líka reyndin orðið. Þannig var aldrei ætlunin, að þetta yrði til þess, að íslenzku skipin gætu tekið að sér alla flutningana, sem erlendu skipin hafa haft, því að þau geta aldrei komizt yfir það. En við vorum að bægja því frá, að erlendu skipin tækju að sér meiri hluta af flutningunum, en þau hafa haft og íslenzku skipin yrðu aðgerðalaus, af því að þau hefðu ekki efnahagslega aðstöðu til þess að standa í þessu. Það var um það að ræða, og þetta veit ég að hv. þm. hlýtur að skilja. Og það var einmitt þetta, sem eigendur íslenzku skipanna töldu að mundi gera þeim kleift að halda áfram, þó að þeirra kröfur væru allmiklu hærri, en hér var gengið inn á.

Þá vildi hv. þm. leggja þann skilning í orð mín, að þar sem innheimtan á þessu gjaldi væri ekki beinlínis í mínum verkahring eða í mínu ráðuneyti, þá vildi ég ekki gera mér grein fyrir því, hve miklar tekjur hér væri um að ræða. Þetta er vitanlega útúrsnúningur. Vissulega mun ég gera mér grein fyrir því, hvað hér verður um miklar tekjur að ræða, þó að ég standi ekki yfir þessari tekjuinnheimtu frá degi til dags.

Sú reglugerð, sem hér er um að ræða, var gefin út 11. sept. og hefur staðið núna í 21/2 mánuð eða svo fram að þessum degi. Hér getur aðeins verið um það að ræða, að 3, 4 eða 5 farmar eða svo hafa getað fallið undir þetta. Þó að ég vitanlega standi ekki yfir því að gæta að öllum einstökum tekjuliðum í sambandi við útflutningssjóð, sem ég ber mjög fyrir brjósti, af því að ég veit, að hann þarf á öllu sínu fé að halda, þá get ég t.d. ekki svarað því á hverri stundu, hvað útflutningssjóður er búinn að fá miklar tekjur af innflutningi á saumavélum eða öðru slíku. Ég stend ekki þannig í því eða öðru slíku, enda er ekki óeðlilegt, að þetta verði gert upp og athugað, þegar þessi ákvæði hafa t.d. staðið þann tíma, að hægt er í rauninni að leggja einhvern mælikvarða á það, hvað þetta gefur í tekjur, en það verður varla fyrr, en þetta hefur staðið hálft ár eða svo.

Ég sé ekki, að neinn geti kvartað undan því, að ekki sé hér sagt alveg umbúðalaust frá því, hver tilgangurinn er og hver meiningin er, þó að það sé einnig sagt, að hér var verið að bæta samkeppnisaðstöðu íslenzkra skipa í samkeppni á opnum markaði, við erlend skip, því að vissulega er það rétt. Átti að draga það eitthvað undan og segja það ekki?

Þá vék hv. þm. nokkuð að flugmannadeilunni. Það væri auðvitað ástæða til þess, og getur vel verið, að það sé rétt að fara hér út í það að ræða um þessar vinnudeilur, og það stendur ekkert á mér að gera það. Ég hygg nú samt, að þessi hv. þm. mætti kynna sér það, af því að mér finnst það eins og á öllu, að hann hafi ekki ýkja miklu meiri upplýsingar um þetta mál en það, sem hann hefur lesið í sínu flokksblaði, en þær eru mjög óábyggilegar, einnig í sambandi við flugmannadeiluna. Það hefur mjög verið talað um þá kauphækkun, sem flugmenn fengu, og vissulega fengu þeir kauphækkun að sínu leyti. Og án þess að ég fari hér á þessu stigi í að rekja það, hvernig stóð á því, að sú vinnudeila varð til, og hvernig á henni var haldíð, þá vil ég þó nota tækifærið og benda á það, að hið rétta er, að flugmenn okkar, sem eru meira úr samhengi í launagreiðslum við erlenda stéttarbræður sína, en allar aðrar starfsstéttir á Íslandi, sem ég þekki til, fengu ekki nú nema mjög óverulegar launabætur eftir venjulegum launastiga. En það er rétt, að þeir fengu nokkur aukin gjaldeyrisfríðindi, og þegar samanburður er einnig gerður á því við aðra aðila, þá hefur þar ekki verið sagður allur sannleikurinn. Sú regla hefur tíðkazt hér um margra ára skeið, að íslenzkir farmenn fá tiltekinn hluta af kaupi sínu eða þriðjung af kaupi sínu greiddan í erlendum gjaldeyri, ef þeir sigla á erlendar hafnir. Þetta er margra ára gamalt ákvæði í lögum. Nú hefur orðið sú breyting á, að við eigum orðið farmenn í siglingum til annarra landa, sem ekki eru aðeins á skipum, heldur eru þeir einnig orðnir sem flugmenn, og það er líka langt síðan gengið var til móts við flugmenn og þeir látnir hafa þó nokkru lægri réttindi í þessum efnum, en aðrir farmenn hafa fengið. Það mátti segja, að þeir fengju svona frá 15–17% af launum sínum greidd í erlendum gjaldeyri, þessir menn, sem voru í millilandasiglingum á flugvélum, en nú gerðu þeir kröfu um það, að ein og sama regla yrði látin yfir þá ganga og farmenn, sem eru á skipum. Og það lá orðið fyrir við athugun, að þeir voru að meðaltali lengri tíma í útlöndum á árinu en sjómennirnir, sem nutu þessara réttinda, — það var látin fara fram athugun á því, hvernig samanburðurinn væri á skipverjum á Eimskipafélagsskipum, sem sigldu að staðaldri á útlönd, og hjá öðru flugfélaginu, þar sem flugmennirnir sigldu að staðaldri á útiönd, og það kom í ljós, að meðaltalstíminn, sem flugmennirnir voru staddir í útlöndum af árinu, var lengri en hjá skipverjunum, dagafjöldinn var meiri yfir árið, Ég fyrir mitt leyti verð að segja, að það er vissulega hægt að vera uppi með ágreining um það, hvort yfirleitt eigi að greiða nokkrum þetta mikinn hluta af kaupi þeirra í erlendri mynt. En ég verð að segja það, að ég sé engin frambærileg rök fyrir því að neita flugmönnum, sem eru í millilandasiglingum á þann hátt, sem eru í fleiri daga staddir erlendis en sjómennirnir, um tilsvarandi hluta af sínu kaupi greiddan í erlendum gjaldeyri, og nú í þessari deilu var gengið til samninga við þessa aðila á þennan hátt, þó þannig, að þeir fengu enn þá þannig samning að fá minni hluta af kaupi sínu greiddan í erlendum gjaldeyri, heldur en verið hefur í lögum og reglum um margra ára skeið gagnvart sjómönnum. Þetta veit ég að hv. þm. hefur auðvitað aldrei heyrt getið um, af því að hann hefur bara einhliða heyrt það nefnt í flokksblaði sínu, að flugmenn hafi fengið 35–40% kauphækkun, sem eru auðvitað alveg staðlausir stafir, út í bláinn og sagt eingöngu til þess að reyna að þyrla upp sem mestum hávaðagangi um það, að þessi hafi fengið kauphækkun og hinn hafi fengið kauphækkun, til þess að reyna að spana hér af stað almenna kauphækkunarkröfu. Þetta er nú sannleikur málsins. Og ekki yrði minna fróðlegt að fletta upp í hinu atriðinu, ef menn óskuðu eftir, sem snýr að farmannadeilunni s.l. sumar.