11.12.1957
Neðri deild: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti, Ég þakka hæstv. forseta þá góðvild að leyfa mér að svara hér örfáum orðum, en ég get því miður ekki tekið hér ræðu hæstv. sjútvmrh. (LJós) svo til meðferðar sem vert væri, þar sem ræðutíma mínum er lokið. En hæstv. ráðh. hafði sjálfur þá aðferð, að hann mætti ekki við fyrsta hluta þessarar umr. hér í d., var þá alls ekki til viðtals um þetta mál og gerir þannig að verkum, að við fáum ekki það færi á því að tala við hann, sem þingsköp í raun og veru ætla okkur. En hæstv. forseti bætir nokkuð úr því með því að leyfa mér a.m.k. aðeins að segja örfá orð.

Ég vil fyrst taka fram, að menn geta nú markað sannsögli hæstv. sjútvmrh. á því, að hann talaði með þeim hætti sem enginn vafi væri á því, að það hefði þegar frá upphafi verið gerð grein fyrir því af honum og hæstv. ríkisstj. gagnvart Alþingi, að þetta mál væri tengt lausn farmannadeilunnar. Ég hef hér með höndum umræðurnar, sem ummálið hafa farið fram hér á Alþingi. Hæstv. ráðh. sagði réttilega, að umr. liggja fyrir, svo að það ætti ekki að þurfa að deila um það, hvað í þeim stendur. En hæstv. ráðh. gerir það í því trausti, að hvorki þingheimur né áheyrendur eigi þess kost sjálfir að lesa umr. Hæstv. ráðh. veit, að hann fer með rangt mál, þegar hann heldur því fram, að hann hafi að fyrra bragði skýrt frá því, sem hér er um að ræða. Umr. sjálfar skera ljóst úr um það. Það var fyrst tilknúinn af okkur sjálfstæðismönnum, sem hann neyddist til þess að játa, að þetta frv. væri flutt vegna lausnar farmannadeilunnar, enda kom innræti eða það, sem inni fyrir býr hjá hæstv. ráðh., glögglega fram, þegar hann sagði hér áðan, að ég væri að blanda farmannadeilunni inn í þetta mál, eins og það væri allsendis óskylt atriði, að blanda farmannadeilunni inn í mál, sem er flutt til þess að leysa farmannadeiluna. Ja, hvað kemur þessu máli við, ef ekki farmannadeilan? Hæstv. ráðh. veit ósköp vel, að bráðabirgðalögin hefðu aldrei verið sett, þetta frv. aldrei flutt, ef hann hefði ekki fundið það snjallræði að hækka verðlagið í landinu með þessum hætti til þess á þann veg að finna lausn á farmannadeilunni.

Þá var hæstv. ráðh. að halda því hér fram, að skipafélögin hefðu ekkert viljað vinna til þess að leysa þessa deilu og hefðu streitzt þar á móti, jafnvel þó að þeim hefði verið boðin uppbót á því, sem þau inntu af höndum fyrir tilverknað ríkisstj. Hæstv. ráðh. veit sjálfur manna bezt, að þetta er algerlega rangt hermt. Þetta er þvert ofan í staðreyndirnar. En sjálf sannaði ríkisstj. sín óheilindi í málinu, að hún lét ekki einu sinni, heldur hvað eftir annað sjálfa Skipaútgerð ríkisins greiða atkvæði á móti þeim sáttatillögum, sem ríkisstj, sjálf stóð að. Ja, ef það var skemmdarverk sjálfstæðismanna og Mbl. og fyrir mín skrif, að þessi deila komst af stað, hví í ósköpunum lét þá ríkisstj. a.m.k. ekki sjálfa Skipaútgerð ríkisins leysa sig undan áhrifavöldum Sjálfstfl. og greiða atkv. með þeirri sáttatillögu, sem ríkisstj. þóttist vera að bera fram? Látum vera, að ríkisstj. hefði ekki ráðið við Samband ísl. samvinnufélaga, sem einnig greiddi atkv. á móti og hafði þó sannarlega sýnt, að það var ekki allra tregast til þess að hækka kaupið, því að fyrir réttu ári, á meðan kaupbindingarlögin voru enn í gildi, beitti Samband ísl. samvinnufélaga undir forustu hæstv. fjmrh. (EystJ), varaformanns Sambandsins, sér fyrir því, að kaupið við fasta starfsmenn Sambandsins var hækkað um 8%. Ef það var vandalaust að leysa sjómannadeiluna með þvílíkum tilboðum, af hverju beitti þá ekki sjálfur fjmrh. áhrifum sínum innan Sambandsins til þess að fá það til að skerast úr leik við Eimskipafélag Íslands, á meðan á þessari farmannadeilu stóð? Nei, sannleikurinn er sá, að framkoma Skipaútgerðar ríkisins og skipadeildar S.Í.S. sannar svo áþreifanlega sem hægt er, að allt skrafið um það, að við sjálfstæðismenn höfum haldið skipafélögunum í einhvers konar herkví og varnað þeim að ganga að eðlilegum og sanngjörnum kröfum sjómanna, er alger fjarstæða, vegna þess að þá hefði vitanlega fyrsti leikur ríkisstj. verið að láta Skipaútgerðina fallast á sínar eigin till. og Eysteinn Jónsson hringt upp í Samband og sagt þeim að fara nú að sínum vilja ekki síður en þegar þeir hækkuðu kaupið í desember í fyrra um 8%.

Þetta veit hæstv. sjútvmrh. ofur vel. Engu að síður leyfir hann sér að koma hingað og halda því fram, sem hann gerir. Ég veit hins vegar ekki og skal ekki fullyrða, hvort hann veit, en hann veit það, hafi hann fylgzt með málinu eins og hann lætur, að af hálfu Eimskipafélags Íslands var strax við fyrstu sáttatillöguna sáttasemjari ríkisins spurður að því, hvort hægt væri að greiða atkvæði um hana með þeim fyrirvara, að ef fyrirgreiðsla kæmi fram af hálfu ríkisins til að standa undir þessum útgjöldum, þá mundi verða hægt að fallast á tillöguna, annaðhvort að öllu eða verulegu leyti, en því var svarað, að enginn slíkur fyrirvari væri heimill. Ef það er rétt, að ekki hafi hnífurinn gengið á milli hæstv. sjútvmrh. og sáttasemjara ríkisins, þá veit sjútvmrh. þetta, að þegar hann segir hér, að Eimskipafélagið hafi stöðugt sagt, að það kæmi ekki til greina nein hækkun, þó að hún fengist bæt, þá er hann að lýsa sjálfan sig hér opinberan ranghermismann. Varðandi síðari sáttatill. var hafður beinn fyrirvari um það og svarið orðað þannig af Eimskipafélaginu við þeirri till., að það kom fram, að ef ríkisstj. vildi greiða fyrir lausn málsins, þá mundi ekki standa á Eimskipafélaginu. Það var eftir það, að við höfðum séð, hvernig hæstv. sjútvmrh, hegðaði sinni framkomu og málflutningi. Þetta liggur fyrir í skjölum málsins.

Hæstv. sjútvmrh. segir svo, að mér hafi aldrei tekizt að sanna það og muni aldrei takast að sanna það, að hann hafi sjálfur sagt, sjútvmrh., að það skyldu verða fluttar þrjár sáttatillögur, þannig að það væri alveg óhætt að fella þá fyrstu eða aðra. Ja, ég vil segja, að það hefur a.m.k. sannazt, að ég var þá forspár. Hafi ég ekki vitað þetta, þá sagði ég rétt fyrir, vegna þess að ég sagði strax, að svona mundi aðferðin verða, og byggði það á ummælum, sem mér voru hermd eftir hæstv. sjútvmrh., og það gekk allt eftir, sem ég hafði um þetta sagt, nákvæmlega allt, nema að vísu hæstv. sjútvmrh. lét sér ekki nægja að gera tvö tylliboð, heldur mun hann hafa látið þau verða þrjú, áður en hann lét svo lítið að reyna að fara að leysa deiluna í alvöru. Það er sannleikurinn í málinu.

Hæstv. sjútvmrh. sagði svo, að ég hefði ekki viljað prenta ummæli eins dánumanns, sem gaf honum góðan vitnisburð um framkomu hans í málinu. Þetta er algerlega rangt. Það er rétt, að það barst blaðinu löng grein, sem þótti vera þess eðlis, að það væri ástæðulaust að birta hana alla í heild, og því var skotið að semjanda hennar, hvort hann gæti ekki stytt hana eitthvað, ekki að efni, heldur dregið hana saman, vegna þess að Morgunblaðið hefur yfir litlu rúmi að ráða, miðað við það efni, sem því berst. Maðurinn tók það ráð að birta hana ekki í Morgunblaðinu, heldur fór með hana í Alþýðublaðið. Ég skal ekki segja, hvort hún var birt þar óstytt eða ekki. Hitt þori ég að fullyrða, að Morgunblaðið birti tafarlaust upp einmitt það, sem þessi maður sagði lofsamlegt um hæstv. sjútvmrh. (LJós), einmitt vegna þess að það var svo einkennilegt, að nokkur maður skyldi ljá nafn sitt við því að hrósa þessum hæstv. ráðh., að það var nánar sem eins konar skrýtla, að slíkt væri birt, og gamansemi. En það þurfti engin ummæli þar við af blaðsins hálfu. Það voru staðreyndirnar, sem felldu sinn dóm um það sjálfar. — Ég sé, að hæstv. forseti er orðinn óþolinmóður, ég skil það, ég var búinn að tala út minn tíma, og ég skal ekki níðast lengur á hans þolinmæði, þakka honum fyrir umburðarlyndið.