12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir nú slæmt, að hæstv. sjútvmrh. er ekki viðstaddur, enda þótt hér sé til umr. frv., sem lætur heldur lítið yfir sér, en það er frv. til laga um breytingu á lögum um útflutningssjóð o.fl.

Ég hef fylgzt nokkuð með þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál, og ég hef sérstaklega hlustað eftir þeim svörum, sem hæstv. sjútvmrh. hefur gefið við ýmsum fyrirspurnum, sem fram hafa verið bornar í sambandi við málið. En svör hæstv. ráðherra hafa verið algerlega ófullnægjandi. Hann hefur verið spurður um það, hversu miklu fé útflutningssjóður tapi við það að samþ. þetta frv. Hæstv. ráðh. hefur engin svör getað um það gefið, en benti á, að þeir, sem væru svo forvitnir að vilja um þetta vita, gætu snúið sér til stjórnar útflutningssjóðsins.

Ég hafði haldið, að hæstv. sjútvmrh. væri sá maðurinn, sem ætti að vera gerkunnugastur því, hvernig hag útflutningssjóðs væri háttað á hverjum tíma, og hann léti sér það sérstaklega við koma, hvernig tekjum hans væri háttað, hvort tekjurnar bregðast og verða minni, en gert var ráð fyrir, hvort þær standast og verða eins miklar og gert var ráð fyrir eða hvort þær kynnu að verða meiri, en gert var ráð fyrir, M.ö.o.: ég hafði haldið, að hæstv. sjútvmrh. gerði sér far um að kynna sér það, hvort útflutningssjóður væri þess megnugur að standa við þær skuldbindingar, sem til hans eru gerðar hverju sinni.

Útflutningssjóður á að leysa af hendi mikilsvarðandi atriði í sambandi við útflutningsverzlunina, þ.e. að greiða til útflutningsframleiðslunnar, eins og lög gera ráð fyrir, þær uppbætur, sem útgerðin þarf og aðrir atvinnuvegir, sem við útflutning fást, til þess að þeir geti haldið útflutningsframleiðslunni áfram.

Mér finnst ekki til mikils mælzt, þótt óskað sé eftir svörum við því, hvernig hagur útflutningssjóðs sé í dag og hvaða áhrif það mundi hafa á tekjur sjóðsins, ef þetta frv, verður samþ.

Ég fyrir mitt leyti tel mjög æskilegt að samþ. frv., vegna þess að það léttir á gjöldum, sem gætu leitt til þess, að fragtir mættu lækka og kostnaður við rekstur flugvéla og skipa gæti minnkað nokkuð frá því, sem verið hefur. En enda þótt frv. verði samþykkt, þá ber nú ekki að vona, að það leiði til lækkunar á frögtum, vegna þess að hér mun vera aðeins um það að ræða að standa við loforð, sem hæstv. ríkisstj. gaf s.l. sumar í sambandi við lausn farmannadeilunnar. Og hafi farmannadeilan verið leyst með því að lofa skipafélögunum því að létta þessum gjöldum af þeim, kæmi náttúrlega ekki til mála annað, en samþ. frv., þótt aðeins sú eina ástæða væri fyrir hendi.

Það er nú svo, að s.l. sumar stóð verkfall í kaupskipaflotanum í nærri sjö vikur, og mun það vera lengsta verkfall í kaupskipaflotanum, sem háð hefur verið á Íslandi. En það hlaut að gerast í sambandi við ýmislegt, sem fram hafði komið áður, síðan núverandi ríkisstj. tók við völdum, því að verkföll hafa aldrei orðið fleiri eða tíðari, en þann tíma, sem núverandi ríkisstj. hefur setið. Þess vegna hefur hæstv. ríkisstj. fengið það auknefni hjá ýmsum að vera kölluð verkfallastjórnin.

En hvernig stendur nú á því, að svona mikið af verkföllum hefur komið, síðan núverandi ríkisstj. tók við völdum? Ég geri ráð fyrir því, að það þurfi ekki lengi að leita þeirra orsaka. En raunalegt er það, að allir, sem bezt eru launaðir, sem skást eru settir í þjóðfélaginu, hafa fengið nokkrar kjarabætur eða fengið hlut sinn nokkuð bættan í hlutfalli við vaxandi dýrtíð, en ekki þeir, sem til þessa hafa verið taldir verst settir, en það eru bændur og verkamenn. Hinir lægst launuðu í þjóðfélaginu, þeir sem mest á sig leggja, hafa engar kjarabætur fengið og verða þess vegna að bera þunga dýrtíðarinnar nú langt fram yfir það, sem nokkurn tíma hefur áður gerzt.

Bændur hafa ekki fengið hækkað afurðaverð á s.l. hausti þrátt fyrir hina auknu dýrtíð. Verkamenn hafa ekki fengið hækkuð laun þrátt fyrir hina auknu dýrtíð og lækkandi verðgildi peninga, en hinir, sem eru á föstum launum og alltaf hafa verið taldir betur settir í þjóðfélaginu, hafa rétt sinn hlut, og má þar til nefna 12–13 stéttarfélög, sérgreinafélög og fleiri aðila, sem hafa fengið sinn hlut bættan að fullu. En það er kannske í samræmi við stefnu núverandi hæstv. ríkisstj. og yfirlýsingar, sbr. yfirlýsingu hæstv. sjútvmrh. hér, þegar hann réttlætti hinar miklu kjarabætur flugmanna á s.l. vetri með því, að þeir væru þrátt fyrir hinar miklu kjarabætur ekki betur settir, en flugmenn í nágrannalöndunum, þar sem þeir væru vel launaðir og starf þeirra viðurkennt. M.ö.o.: stefna núverandi hæstv. ríkisstj, virðist vera sú að bæta þeim laun og lífskjör, sem hafa verið bezt settir, en láta hina sitja hjá. Áður en núverandi hæstv. ríkisstj. hafði verið mynduð, munu þeir, sem hlustuðu á boðskap núverandi stjórnarflokka fyrir síðustu kosningar, ekki hafa haldið, að stefna hæstv. ríkisstj, yrði slík í framkvæmd.

En ég tel nú rétt að koma að því og athuga, hvaða ástæður liggja til þess, að verkföll urðu svo tíð, síðan núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Við munum það, að haustið 1956 kom hæstv. forsrh. í útvarpið, flutti þar ræðu, flutti þar þjóðinni þann boðskap, að nú hefði ríkisstj. samið við vinnandi stéttir í landinu um vinnufrið. Nú skyldi tryggð verðstöðvun og dýrtíðin skyldi stöðvuð, ný stefna skyldi tekin upp í atvinnu- og fjármálum, atvinnuvegirnir skyldu komast á fastan og öruggan grundvöll og hið vinnandi fólk ætti nú málsvara, sem tryggði hlut þess og hag betur, en áður hafi tekizt í íslenzku þjóðfélagi.

Fólkið hlustaði á þennan boðskap í útvarpinu og las þessi fögru orð í blöðunum. Það trúði því, að hér væri alvara á ferðinni. Það trúði því, að það mætti treysta orðum hæstv. forsrh. Það lét sér ekki detta í hug, að hann væri að skrökva að alþjóð. Og fyrstu vikurnar og jafnvel mánuði, eftir að boðskapurinn hafði verið fluttur, var allt með ró. Fólkið beið eftir hinum nýju úrræðum. Fólkið vonaði, að staðið yrði við hin fögru fyrirheit, þangað til jólagjöfin kom í desembermánuði s.l., boðskapur hennar og sá búningur, sem hún var klædd í. Þá fóru flestir að efast um, að núverandi hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að standa við fyrirheitin. Og þeir urðu fleiri og fleiri, sem sannfærðust um, að ríkisstj. væri að svíkja hin fögru loforð. Verkamaðurinn, sem hafði hlustað á boðskap forsrh., taldi sig blekktan. Sjómaðurinn, sem hafði lagt trúnað á boðskapinn, sannfærðist um, að hér voru óheilindi á ferðinni. Bóndinn, iðnaðarmaðurinn og allir landsmenn uppgötvuðu það, að sú ríkisstj., sem komin var til valda, hafði komizt það á fölskum loforðum og með blekkingum einum. Og það er þetta, það er þessi uppgötvun alls almennings í landinu, sem varð til þess að skapa þá ókyrrð, sem hefur ríkt meðal almennings, síðan ríkisstj. var mynduð. Ókyrrðin kom vegna þess, að þjóðin sá, að hún hafði verið blekkt. En hún sá, að hún hafði of seint komið auga á það. Kosningarnar voru afstaðnar. Ríkisstj. var mynduð. Hún hafði lofað gulli og grænum skógum, en hún hafði keppzt við að svíkja allt. Slík stjórn hafði í augum alls almennings fyrirgert rétti sínum. Slík stjórn hafði öðlazt ótrú og vantrú alls almennings, og það var þess vegna, sem fleiri og fleiri hópar höfðu tilhneigingu til þess að gera uppreisn gegn slíkri stjórn, og það er þess vegna, sem hin mörgu verkföll hafa átt sér stað. Ef hæstv. ríkisstj. hefði lofað minnu, aðeins lofað því að gera það, sem unnt væri, þá getur vel verið, að viðbrögðin hefðu orðið önnur hjá almenningi í landinu.

Þetta frv., sem hér er um að ræða, er til komið vegna lausnar á skipaverkfallinu. Það er ekki einu sinni grg. með frv., sem upplýsir það, hvað eigi að koma í staðinn fyrir það, sem útflutningssjóður missir við það, að þetta frv. verður samþ. Það er engin grg. með frv. fyrir því, hvernig mæta skuli hinum auknu útgjöldum útflutningssjóðs, sem óhjákvæmileg eru á næsta ári.

Það mun ef til vill vera rétt, sem sagt er nú á götunni og annars staðar, að það eigi ekki að gera grein fyrir tekjuöflun útflutningssjóðs, fyrr en eftir bæjarstjórnarkosningar, vegna þess að það muni þurfa það mikið í þá hít, að ekki verði vinsælt að láta fólk sjá framan í þá leið, fyrr en að kosningum loknum. En reynslan sker nú úr því næstu daga, hvort sú tilgáta er rétt eða hvort hæstv. ríkisstj. ætlar að láta sér nægja að samþ. aðeins önnur fjárlögin, þ.e. þau fjárlög, sem heyra undir hæstv. fjmrh., Eystein Jónsson, fjárlög ríkissjóðs, en láta fjárlög hæstv. sjútvmrh., Lúðvíks Jósefssonar, bíða vegna þess að það sé ekki enn með fullu víst, hversu miklar tekjur útflutningssjóður þarf á næsta ári, en það sé þó vitað, að það verði það miklar upphæðir, sem þurfi að afla í þá hít í nýjum sköttum, að það sé af þeim ástæðum eðlilegast að láta þá tekjuöflun bíða fram yfir kosningarnar.

Hv. stjórnarflokkar hafa gert sér ljóst, að hin mörgu og viðtæku verkföll, sem staðið hafa á því ári, sem nú er að líða, hafa verið óvinsæl og að almenningur í þessu landi gerir sér grein fyrir því, að þessi verkföll, eins og öll verkföll, skilja stöðugt eftir alvarleg spor og gera fjárhag þjóðarinnar erfiðari og atvinnumöguleika alla ótryggari. Þess vegna hafa stjórnarflokkarnir lagt kapp á það að kenna Sjálfstfl. um verkföllin, enda þótt ljóst sé, að verkföllin hafa komið af sérstaklega tveim ástæðum, þ.e. uppgötvun fólksins á hinum sviknu loforðum og blekkingum hæstv. ríkisstj. og svo það, að lífskjör fólksins hafa versnað stórkostlega vegna hinna miklu skatta og viðbrögð fólksins hafa gengið í þá átt að reyna að rétta hlut sinn að nokkru með hækkuðu kaupgjaldi.

Sérstaklega var mikið um það rætt í blöðum stjórnarflokkanna, að sjálfstæðismenn ættu sök á skipaverkfallinu; að það væri sök sjálfstæðismanna, hversu lengi það verkfall stóð, og að sjálfstæðismenn hafi kynt undir þá óánægju, sem var meðal sjómanna og farmanna.

Það hefur nú verið rætt um það hér við þessa umr., hvernig það mál var rekið frá upphafi, og hv. 1. þm. Reykv. (BBen) sannaði það hér með glöggum rökum, að þáttur hæstv. sjútvmrh. í þessu máli var slíkur, að hann leiddi til þess að draga verkfallið á langinn. Þarf ég ekki að endurtaka hér þá sögu og þann málarekstur allan, vegna þess að ég ætla, að allir, sem fylgzt hafa með þessum málum, og þá kröfu verður að gera til hv. þm., að þeir hafi gert það, hafi þá gert sér ljóst, hvar sökin er og hversu fráleitt það er að reyna að lýsa sök á hendur sjálfstæðismönnum fyrir það, að þetta verkfall eða önnur áttu sér stað, eða fyrir það, hversu þetta verkfall varð langdregið. Við sjálfstæðismenn höfum alltaf gert okkur grein fyrir því, að verkföll skaða þjóðina, og við viljum, að hlutur launastéttanna sé leiðréttur með frjálsum samningum hverju sinni, eftir því sem atvinnureksturinn leyfir og þolir á hverjum tíma. Með þeirri uppfræðslu, sem íslenzkur almenningur fær nú á dögum, væri ástæða til þess að ætla, að fólk léti sér skiljast, að kaupkröfur og kauphækkanir geta ekki verið vinnandi fólki til gagns eða hagnaðar, nema atvinnureksturinn geti greitt þetta kaup. Að gera hærri kröfur á atvinnureksturinn, en hann getur staðið undir, það leiðir ekki til kjarabóta fyrir þá, sem kröfurnar gera, heldur miklu fremur til þess að rýra kjörin. Það hlýtur að vera eingöngu til hagsbóta fyrir vinnandi fólk, að atvinnulífið sé blómlegt og geti skilað nokkrum arði, geti starfað styrkja- og hjálparlaust frá því opinbera, því að styrkina verður að taka af fólkinu, sem kröfuna gerði á hendur atvinnuvegunum, og slíkt hlýtur að leiða til þess, að þótt kauphækkun hafi fengizt í orði, þá verður slík kauphækkun tekin aftur, þegar atvinnuvegirnir standa ekki undir því. Og ég verð nú að segja, að það hefur stundum komið ljósglæta fram í málgagni Sósfl., sem ekki hefur skilið þessi mál áður, og meira að segja hæstv. félmrh. hefur látið í það skína á stundum síðustu mánuðina, að hann skildi þessa einföldu hagfræði, sem hann virtist ekki hafa skilið áður, að það væri tilgangslaust að gera hærri kröfur á hendur atvinnuvegunum en það, sem þeir gætu staðið undir hverju sinni. Og ég verð að segja það, að framfarir á þessu sviði, sem ástæða er til að ætla að hafi átt sér stað hjá hæstv. félmrh., eru mjög ánægjulegar og gagnlegar, og ég vænti þess, að þó að hann fari úr ráðherrastólnum, þá geymi hann þessi sannindi hjá sér og viðurkenni þau, hvað sem hann á eftir að starfa.

Það hafa ýmsir hlegið að þeirri fullyrðingu stjórnarflokkanna, þegar þeir voru að reyna að koma sökinni á hendur sjálfstæðismönnum fyrir það, hversu verkfallið dróst á langinn. Það munu hafa verið rúml. 200 farmenn, sjómenn, sem tóku þátt í verkfallinu á kaupskipaflotanum. Mig minnir, að í sambandi við lausn verkfallsins hafi verið bornar fram þrjár sáttatillögur, sem gengu undir atkv. verkfallsmanna. Ég man ekki betur, en till. þessar hafi verið felldar með 200 atkv. og 2 atkv. hafi verið hlutlaus, 202 greiddu atkv., 200 felldu, en 2 greiddu ekki atkv., en það voru flestallir þeirra, sem í verkfallinu stóðu.

Nú sögðu málgögn stjórnarflokkanna, að sjálfstæðismenn — og þá sérstaklega Bjarni Benediktsson — ættu sök á því, að verkfallið dróst á langinn, m.ö.o.: sjálfstæðismenn áttu að ráða því, hvernig atkvgr. fór um þessar sáttatillögur. Sjálfstæðismenn áttu með öðrum orðum að ráða atkvgr. allra þessara farmanna.

Nú er það svo, að við sjálfstæðismenn viðurkennum lýðræðið ekki bara í orði, heldur einnig á borði, og viljum sem minnst afskipti af því hafa, hvernig menn greiða atkv. En þótt það þætti nú trúlegt, að sjálfstæðismenn og Morgunblaðið gætu haft einhver áhrif á sjálfstæðismenn, hvaða afstöðu þeir mundu taka til tillagna eins og þeirra, sem hér um ræðir, þá hygg ég, að fæstir trúi því, að sjálfstæðismenn gætu haft áhrif á það, hvernig kommúnistar, framsóknarmenn, þjóðvarnarmenn og jafnaðarmenn greiða atkv. eða greiddu atkv. um þessar tillögur, — eða vilja menn halda því fram, að allir farmennirnir 200 eða rúml. 200 að tölu séu sjálfstæðismenn? Enda þótt ég vilji trúa því, að þeir séu margir sjálfstæðismenn og þeim hafi fjölgað allveruega, síðan núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þá veit ég, að í þessum hópi eru nokkuð margir jafnaðarmenn, sósíalistar og e.t.v. einhverjir framsóknarmenn og þjóðvarnarmenn. En ef svo er, þá er útilokað að reyna að koma sök á sjálfstæðismenn fyrir það, hvernig atkvgr. fór um þessar tillögur. Þá velta þessar ásakanir um sjálfar sig og eru þá opinberlega eins og flest annað, sem stjórnarflokkarnir hafa sagt um þessi verkföll, falskar ásakanir á Sjálfstfl. um það, að hann vilji kynda undir verkföllum, hann vilji hafa verkföllin sem lengst, enda þurfa stjórnarflokkarnir ekki að láta sér detta í hug, að almenningur í landinu, trúi þessum fáheyrða áróðri.

Hæstv. sjútvmrh. er ekki viðstaddur hér við þessa umr., hæstv. fjmrh. ekki heldur. Það er þess vegna ekki unnt að endurtaka fsp. til þessara hæstv. ráðh., sem nauðsynlegt væri að fá svarað, og verð ég þess vegna að láta það biða í sambandi við 2. umr. um þetta mál, ef þessir háu herrar birtast ekki hér í salnum. En tækifærið mun koma, þótt seinna verði, á þessu þingi og næstu daga, að ég hygg, því að útflutningssjóðurinn, tekjuöflun til hans og meðferð hans öll verður að koma til umræðu hér. Jafnvel þótt afgreiðslunni verði frestað fram yfir bæjarstjórnarkosningar, verður tækifæri til þess að ræða nokkru frekar um útflutningssjóðinn núna fyrir jólin.