06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli í sambandi við þær almennu umr., sem hér hafa farið fram um starfshætti þingsins, að það hefur nokkuð borið á milli um það, sem þm. hafa sagt um meðferð á frv. hér í fyrsta skipti, þegar tekin var ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins, og taldi ég, að hæstv. forsrh. misminnti nokkuð í því efni. Honum hefur að vísu borizt einn liðsmaður, hinn hagorði þm. V-Húnv., sem flytur nú oft gamanmál í bundnu máli fyrir þm. í þingveizlum, og í seinni tíð er það að verða æ tíðara, að hann sé með gamanmál hér í þingsölunum, eins og í þessari stuttu athugasemd, sem hann kom nú með í sambandi við austurför hv. 1. þm. Rang., sem annars skipti litlu máli í þessu sambandi.

En um frv. um ríkisábyrgð bátaútvegsins á þinginu 1946 liggur það fyrir, og er rétt, úr því að það hefur verið rætt, að vekja athygli á því, að hæstv. þáverandi atvmrh. óskar eftir því fyrst í byrjun desembermánaðar við fjhn. Nd., að hún flytji frv, um ríkisábyrgð á bátaútveginum, — frv., sem hann leggur fyrir nefndina og fyrir alla flokka þá, N. varð ekki ásátt um þetta, og á fundi fjhn., eins og segir í þingtíðindunum, 9. des., var meiri hl. andvígur því að verða við ósk atvmrh. um að flytja þetta frv. að svo komnu, en minni hl. tekur þá frv. upp og flytur það, og um það urðu umr. hér í þinginu. Síðan hafði n. þetta mál til meðferðar, fjhn., sem í voru fulltrúar allra flokka, og það er svo ekki fyrr en, eins og réttilega hefur verið tekið fram, 20. des., að hún flytur frv. um ríkisábyrgð fyrir bátaútveginn, sem hún hafði þá nýtt frv., en í meginatriðum var sama frv. og hæstv. atvmrh. hafði óskað eftir, eins og fram kemur í ræðu hæstv. þáverandi atvmrh., þegar hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

Fjhn. hefur valið þann kost að leggja fram nýtt frv., og verð ég að segja, að ég hef ekkert við það að athuga, ef hún telur það einhverra hluta vegna réttara. Fyrir mér vakir aðallega, að þingmeirihluti sé til fyrir þessari ábyrgð, til þess að vandamál sjávarútvegsins verði örugglega leyst, enda standa vonir til þess frá útvegsmönnum almennt. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Ég hef talsvert rætt um þetta áður, þegar umr. fóru fram um það frv., sem ég lagði fyrir fjhn., og vísa ég til þess, sem ég sagði þá, hvað rökin snertir.“

M.ö.o.: hér er alls ekki um það að ræða, að keyrt sé í gegnum þingið á örskömmum tíma og þannig, að þm. hafi ekki haft aðstöðu til að athuga málið, ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins. Þá er höfð sú aðferð á, að málið fer fyrst í n., þar sem allir flokkar eiga sæti, fjhn. Nd., og hún beðin um að flytja málið. Minni hl. n. flytur svo frv., eins og það er þá, og um það fara fram umræður. Síðan flytur fjhn. með fulltrúum allra flokka frv. um ríkisábyrgðina 20. des., sem þá er afgreitt á skömmum tíma, en er búið að vera sem sagt frá því í byrjun desember til meðferðar hjá nefndinni og þar af leiðandi til meðferðar hjá öllum flokkum og til umræðu efnislega séð í aðalatriðum hér í þinginu áður.

Ég held, að þetta skeri alveg úr um það, að þetta atriði eitt út af fyrir sig hafi verið rétt, sem ég um það sagði.