06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir það, sem nokkrir hv. þm. hafa nú borið hér fram, að æskilegt sé, að hv. Alþ. gefist lengri tími, en undanfarið hefur verið venja, til þess að athuga þær margflóknu tillögur, sem að jafnaði eru lagðar fram um lausn efnahagsmálanna. Eins og meðferð þessara mála var á síðasta þingi, þá verður að telja það með öllu óviðunandi. Um það skal ég ekki meira fjölyrða.

Ég tel fulla ástæðu til þess með tilliti til þess, sem fram hefur komið, að spyrja hæstv. forsrh. að því, hvort það sé fyrirhugað að leggja þá álitsgerð, sem í vændum er, fyrir hv. þm. Það ætti í rauninni að sýnast sjálfsagður hlutur, að svo yrði gert. En með tilliti til þeirra vinnubragða, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft í þessum málum að undanförnu, verður að draga það mjög í efa.

Ég ætla að leyfa mér í þessu sambandi að vitna í ræðu, sem hæstv. forsrh. flutti á s.l. hausti, nokkru eftir að hæstv. ríkisstj. hafði fengið í hendur álitsgerð þeirra erlendu sérfræðinga, sem að undanförnu höfðu unnið að athugun efnahagsmálanna hér. Ræða þessi var birt í Tímanum 9. okt. 1956, og geta menn athugað það þar, hvort rangt muni farið með nokkuð af því, sem ég segi. Eftir að hæstv. forsrh. hafði upplýst, að álitsgerð hinna erlendu sérfræðinga staðfesti í öllu það, sem hann og hans flokkur hafði haldið fram í kosningabaráttunni þá um sumarið, að efnahagslífið væri helsjúkt og fram eftir þeim götunum og að róttækra aðgerða væri þörf, — eftir þessa fullyrðingu talar hæstv. forsrh. um það að, að vísu sé ekki tímabært enn þá að birta þetta álit, en fer þó nokkrum orðum um þær niðurstöður, sem sérfræðingarnir hafi komizt að, og segir þar m.a. orðrétt:

„Vegna sífellds og hættulegs áróðurs er nauðsynlegt að taka fram, að ef rétt er á haldið, þarf hér ekki að vera um að ræða kjaraskerðingu, sem neinu nemur í byrjun, og hispurslaus framkvæmd skynsamlegra ráðstafana ætti að geta tryggt núverandi lífskjör þjóðarinnar.“

Þetta segir hæstv. forsrh. um tillögur þessara sérfræðinga, eftir að þær höfðu borizt honum í hendur og hann kynnt sér þær.

Hér átti að vera um að ræða varanleg úrræði til þess að tryggja lífskjör þjóðarinnar, án þess að um kjaraskerðingu, sem neinu næmi, væri að ræða fyrir almenning í byrjun. Þetta er mjög merkilegt með tilliti til þess, sem síðar hefur komið á daginn. Enginn neitar því, ekki heldur hv. stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., að ráðstafanir þær, er gerðar hafa verið á hennar vegum, hafa haft mjög verulega kjaraskerðingu í för með sér fyrir allan almenning, þó að það hafi að nokkru verið dulbúið með fölsun vísitölunnar, sem ég gerði að nokkru umræðuefni hér í gær í Sþ. Það hlýtur að vekja mjög mikla furðu, að þessar ágætu tillögur skuli ekki einu sinni hafa fengið að sjá dagsins ljós, og í tilefni af þessu vildi ég gjarnan að lokum endurtaka þá fsp., sem ég bar fram áðan, hvort það sé þá hugsun hæstv. ríkisstjórnar, að hv. þm. fái að kynna sér þá álitsgerð, sem nú er í vændum.