06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er bersýnilegt, að hv. 1. þm. Rang. (IngJ) skilur ekki orð mín eins og hann lætur og spinnur svona skemmtilega út af því, a.m.k. frá sínu sjónarmiði. Sá þm., sem um er að ræða og ég átti við, er hv. 1. þm. Eyf. (BSt), sem skýrði mér frá þessu hérna rétt áðan, enda gáfu mín orð ekkert tilefni til þess, að þau væru skilin á þennan. hátt. Hitt er aftur upplýst, ef menn fletta í bókunum, — ég fór nú ekkert að tala um það og hef aldrei minnzt á það, að hv. þm. hafi verið fjarverandi, ég viðurkenni það sjálfur, að ég hef oft ekki sótt eins reglulega þingfundi og hefði átt að vera, og mér dettur ekki í hug að fara að finna að því við aðra, — en ég sé það, að við eina atkvgr. þarna um frv., það er þá bezt að upplýsa það núna, þar stendur, að hv. þm. hafi verið fjarverandi. (Gripið fram í: Ekki í Rangárvallasýslu.) Það stendur ekki, að það sé kannske í Rangárvallasýslu, en það er nú ekki venjan heldur, en það stendur: fjarverandi. En ég ætla ekkert að fara að minnast á það, vegna þess að ég sé enga ástæðu til þess að vera að finna að því við aðra, sem tíðkast hjá sjálfum mér í alveg eins ríkum mæli.