06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

99. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1958

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Þm. kunna vafalaust mjög vel að meta þá hófsemi hæstv. forsrh. (HermJ) að finna ekki að því við aðra þm., ef þeir mæta ekki á þingfundum, eftir að við urðum að bíða alllengi hér í dag, til þess að hann hefði framsögu í máli, sem tilkynnt var þegar í gær að ætti að vera til umræðu. Og þegar hv. þm. V-Húnv. (SkG) fór að tala um, að sent hefði verið eftir þm. til þess að greiða atkv., sem kom þessu máli auðvitað ekkert við, þá var það hlálegt, að það skyldi vera minnzt á það einmitt á þeim fundi, þegar við heyrðum, að hæstv. forseti þurfti að gera út marga leiðangra í dag til þess að ná í hæstv. forsrh. til að mæla fyrir þessu máli. Þetta heyrðu allir þm. og sáu, að aumingja félmrh. var á þönum, eins og hann væri á leiðinni austur til Moskva, að gá að því, hvar forsrh, væri niður kominn. Sjálfur félmrh, lenti í því hér rétt fyrir jólin, að hann var sóttur einhvers staðar, þar sem hann var í góðum fagnaði úti í bæ, til þess að það gæti orðið lögleg atkvgr. Þá var áhugi stjórnarliðsins ekki meiri en svo, að þeir höfðu allir skotizt burtu, þangað til náðist í þetta eina fórnardýr, til þess að þeir gætu haldið áfram löglegum fundi. Ég vonast til þess, að þetta hafi ekki verið óþinglegt orðbragð, en það var ekki meint í bókstaflegri merkingu.

Varðandi efni málsins, þá vildi ég þó bera fram út af því, sem hér hafa orð fallið, fsp. til hæstv. forsrh.

Það er talað um sérfræðinga, sem eigi að gefa álit, og nú bíði þingið nánast eftir því, að þeir afhendi sitt álit. Þá vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hverjir eru þessir sérfræðingar, og af hverjum hafa þeir verið tilnefndir?

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að hæstv. forsrh. var ekki alveg samkvæmur sjálfum sér, þegar hann sagði, hvenær sérfræðingaálitið yrði til. Hann sagði fyrst, að það mundi verða til um mánaðamótin eða ekki löngu eftir þau. Svo sagði hann á eftir, að sér hefði verið sagt, að það mundi verða til fyrir næsta mánuð. Hér kemur ekki allt heim og er eins og nokkuð í þoku fyrir hæstv. forsrh., hvaða upplýsingar hann hefur fengið um þetta, sem varðar þó svo mjög starfshætti þingsins.

En það er annað, sem kemur þó alveg ljóst fram í þessu, að þessi álitsgerð varðandi efnahagsmálin á ekki undir neinum kringumstæðum að verða til, fyrr en lokið er atkvgr. í þýðingarmestu verkalýðsfélögunum. Alþingi má bíða, og það má vera nokkuð á huldu, hvenær álitsgerðin kemur, varðandi þess störf, en það eitt á að passa, að álitsgerðin og tillögurnar eiga ekki að koma fyrr, en verkalýðsfélögin hafa að þessu sinni greitt atkvæði, og þarf ekki það frekari skýringa við. Það vita allir, hvað vakir fyrir hæstv. ríkisstj. með þeim vinnubrögðum.

Umræðurnar hafa að sumu leyti leiðzt á nokkuð aðrar brautir, en tilefni var til í því, sem ég sagði í upphafi. Það var einungis einn þáttur þess, sem ég vék að, að mál væru í skyndingu afgreidd í þinglok eða á þeim tíma, þegar stjórnin loksins hefði þau til, og þingið væri svo starfslitið eða starfslaust á milli. Ég gat þess réttilega, að þetta er ekki með öllu nýtt, þó að aldrei hafi svo um þverbak keyrt eins og nú á þessum tveimur síðustu þingum, það sem af er þessu og því, sem áður var háð á þessu kjörtímabili. Og það er ekki einungis, að mönnum gefist ekki færi til þess að athuga hin mikilvægustu mál hæfilega, heldur er það, að það er ekki séð fyrir öðrum málum, til þess að þm. hafi þó eitthvað við að vera. Yfirleitt hefur það verið þann tíma þangað til nú, síðan ég kom á þing 1942, að það hafa verið mál frá hæstv. ríkisstj., margs konar umbótalöggjöf og framkvæmdir, sem tillögur hafa verið gerðar um og þm. hafa haft færi á að athuga, en nú er alger málefnafátækt hjá hæstv. ríkisstj, og ekki einu sinni neitt af ópólitískum málum, sem fyrir liggur. Við þessu dugir ekki það svar, að stjórnarandstaðan gæti þá borið slík mál fram. Það liggur í augum uppi, að margháttuð löggjöf, sem stöðugt á að vera unnið að í þjóðfélagi, sem er í jafnörri þróun og okkar þjóðfélag, verður ekki undirbúin af neinum nema hæstv. ríkisstj. Við skulum t.d. nefna endurskoðun á hegningarlögum, endurskoðun á hlutafélagalögum, endurskoðun á margháttaðri gamalli löggjöf, sem sí og æ þarf að taka upp og ríkisstj., ef hún er framfarasinnuð og vill umbætur, verður að beita sér fyrir.

Allt þetta hefur verið vanrækt meira í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. en ég veit dæmi til áður, og þess vegna er það, að jafnvel hafa menn ekki færi á nú, eins og oft hefur verið á þeim tímum, þegar minna er að gera í þinginu, að vinna að ópólitískri löggjöf, ef svo má segja, heldur sitja menn hér starfslausir til þess að biða eftir einhverjum tillögum frá einhverri nefnd, sem stjórnin hefur ekki hugmynd um hvort hún muni fallast á eða koma sér saman um, þegar þær tillögur einhvern tíma koma fram.