09.12.1957
Efri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

71. mál, Veðurstofa Íslands

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Veðurstofa Íslands var stofnsett árið 1920, ekki með sérstökum lögum, heldur með sérstakri fjárveitingu í fjárlögum. Lög um veðurstofuna voru ekki sett fyrr en sex árum síðar, eða 1926. Síðan hafa þau verið í gildi óbreytt að mestu.

Það gefur auga leið, að á svo löngum tíma og einkum með jafnstórkostlegri þróun og miklum breytingum og orðið hafa á þeim málefnum, sem veðurstofunni er ætlað að fjalla um, er vart við öðru að búast, en sú löggjöf, sem upphaflega var um hana sett, sé orðin úrelt og ekki viðeigandi lengur. Það er t.d. athyglisvert, að enn er í gildi það ákvæði úr lögunum um veðurstofuna, að hún skuli ekki hafa öðru starfsliði á að skipa, en tveimur mönnum, forstjóra og fulltrúa. Þetta þótti fullnægjandi upphaflega, og þetta ákvæði hefur staðið í lögunum og stendur enn í dag. Á sama hátt eru að sjálfsögðu þau ákvæði, sem lúta að því, með hverjum hætti veðurstofan skuli starfa og við hvaða viðfangsefni hún skuli fást, með öllu óbreytt frá því, sem við þótti eiga á árunum eftir 1920.

Nú er það staðreynd, að síðan veðurstofan var stofnuð, hafa stórfelldar breytingar orðið á þeim verkefnum og viðfangsefnum, sem hún hefur við að glíma. Veðurathugunarstöðvum á Íslandi hefur þannig fjölgað mjög mikið á þessum árum, auk þess sem athugunartímum hefur verið fjölgað stórlega, veðurathuganir í háloftum bætzt við og veðurathugunarskipin þar að auki. Af þessu leiðir, að skeyti þau og upplýsingar, sem veðurstofan fær til að vinna úr á hverjum sólarhring, eru margfalt fleiri, en var í upphafi og þess vegna langtum fleiri og margbrotnari athuganir og útreikningar, sem gera þarf á hverjum sólarhring. Við þetta bætist svo það, að Veðurathugunarstofa Íslands hefur tekið að sér að sjá um leiðbeiningar fyrir millilandaflugið á Norður-Atlantshafi, og í því sambandi hefur hún orðið að setja upp tvær veðurathugunarstofur til viðbótar aðalveðurathugunarstofunni, sem sagt bæta við veðurathugunarstofum á Reykjavíkur- og á Keflavíkurflugvelli. Auk þessa eru svo áhöld og útbúnaður allur, sem veðurstofan þarf að starfa með, orðin miklu meiri og margbreytilegri, en áður var og þess vegna viðhald og smíði slíks útbúnaðar, sem að langsamlega mestu leyti fer fram á veðurstofunni sjálfri, orðið allt annað og margbreytilegra, en áður.

Af þessu mætti vera ljóst, að það er að sjálfsögðu óviðunandi lengur fyrir veðurstofuna að búa við löggjöf, sem slær því föstu, að það skuli aðeins vera tveir starfsmenn, forstjóri og aðstoðarmaður, og að starfssvið veðurstofunnar skuli markað eftir þeim sjónarmiðum, sem ríktu 1926, þegar lögin voru sett, enda hefur það farið svo í framkvæmdinni, að það er mjög langt síðan veðurstofan hætti að fylgja þeim lögum, sem um hana giltu. Ég hef því samkv. ábendingu frá veðurstofustjóra gert ráðstafanir til þess, að endurskoðuð væru þau lög, sem um veðurstofuna gilda. Fékk ég Þórð Eyjólfsson hæstaréttardómara til að vinna það verk í samráði við veðurstofustjóra, og hefur hæstaréttardómarinn samið þetta frv. í samráði við veðurstofustóra, auk þess sem frv. hefur verið borið undir veðurfræðinga á veðurstofunni, og allar þær ábendingar, sem frá þeim aðilum komu, voru teknar til greina, að því undanskildu, að einstaka raddir voru uppi um það, að nokkur atriði, sem í frv. eru, skyldu frekar vera í reglugerð, en í lögum, en að athuguðu máli þótti heppilegra að hafa þetta í lögunum sjálfum.

Ég ætla ekki að fara að rekja frv. í einstökum atriðum. Ég vil aðeins geta þess, að aðalverkefni frv. er að draga línurnar fyrir því, hvert starfssvið veðurstofunnar skuli vera. Er það gert með þeim hætti, að fylgt er í frv. þeim reglum, sem myndazt hafa á veðurstofunni sjálfri að fenginni reynslu, auk þess sem til hliðsjónar eru höfð þau lög og þær reglur, sem gilda um veðurstofur í sambærilegum löndum. Upptalning sú, sem frv. hefur því að geyma um starfssvið veðurstofunnar, er í rauninni ekki annað, en staðfesting á starfsháttum, sem myndazt hafa, þótt það sé þvert ofan í lög, og staðfesting á því, sem til fyrirmyndar hefur þótt annars staðar, auk þess sem því er nú ekki slegið föstu í frv. eins og í lögunum, að starfsmennirnir skuli vera ákveðinnar tölu, heldur eigi að fara þar eftir þörf og ákvörðun þess, sem fjárveitingavaldið getur á fallizt hverju sinni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í einstakar greinar frv., en vil leyfa mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og allshn.