13.02.1958
Neðri deild: 51. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

71. mál, Veðurstofa Íslands

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Lög þau, sem gilda um Veðurstofu Íslands, eru orðin allgömul og mjög langt á eftir tímanum. Það má segja, að veðurstofan hafi verið stofnuð með fjárveitingu í fjárlögum fyrir árið 1920. Tók veðurstofan til starfa í Reykjavík það ár. Lög voru hins vegar ekki sett um veðurstofuna þá í upphafi, og varð ekki úr lagasetningu um hana fyrr en árið 1926. Þau lög, sem þá voru sett, eru enn í fullu gildi, og hefur ekki verið gerð á þeim önnur breyting en sú, að eftir að útvarpið tók til starfa, var ákveðið með lögum, að Veðurstofa Íslands skyldi taka útvarpið í þjónustu sína til birtingar á veðurfregnum, en um það voru sett viðbótarlög við lögin um veðurstofuna áríð 1932.

Lögin frá 1926 um Veðurstofu Íslands voru að sjálfsögðu sniðin eftir því ástandi, sem þá ríkti í þessum málum. Má segja, að í upphafi hafi ekki verið gert ráð fyrir, að starf veðurstofunnar skyldi verða ýkja fjölþætt eða margbreytilegt. Hins vegar hefur þannig farið á þeim árum, sem liðin eru síðan þessi lög voru sett, að örari þróun og umbreytingar hafa orðið í veðurþjónustunni, en á mörgum öðrum sviðum. Aukin tækni, aukin þekking og breyttir hættir á mörgum sviðum hafa leitt til þess, að veðurstofan hefur orðið að auka og breyta starfsemi sinni á þeim árum, sem liðin eru síðan hún var stofnuð, án þess að fylgt hafi verið eftir eða á undan hafi farið nokkur löggjöf um þetta efni. Nægir m.a. að benda á það, að í lögunum um veðurstofu er svo ákveðið, að þar skuli aðeins vera tveir fastir starfsmenn. Aðra fasta starfsmenn hefur veðurstofan ekki leyfi til að hafa lögum samkvæmt. Það má segja, að þetta hafi verið fullnægjandi í upphafi, en fljótlega urðu þær breytingar á, að veðurstofunni mundi hafa verið gersamlega ófært að leysa af höndum þau verkefni, sem hún óhjákvæmilega varð að fjalla um, ef fast hefði verið haldið á þessu lagafyrirmæli og eftir því farið.

Þá má og minna á, að síðan veðurstofan var stofnuð, hafa veðurathugunarstöðvar, bæði á landi hér og á hafinu í kringum landið, aukizt og margfaldazt. Af því leiðir, að veðurathugunum hefur fjölgað, veðurútreikningum sömuleiðis, og þar með aukin og margföld vinna við veðurspár. En það, sem sennilega hefur orðið einna mest til þess að auka starf veðurstofunnar, er sú þróun, sem orðið hefur í flugmálum og loftferðum, síðan veðurstofan varð til. Flugið var naumast þekkt og alls ekki hér á þessum slóðum, þegar veðurstofan tók til starfa. Nú fara á hverjum degi tugir, jafnvel hundruð flugvéla yfir Atlantshafið hér í nágrenni Íslands. Allt þetta flug á milli landa, auk innanlandsflugsins, byggist að mjög verulegu leyti á þeirri þjónustu, sem veðurstofan getur látið í té. Hefur þetta að sjálfsögðu leitt til þess, að veðurstofan hefur orðið að auka starfsemi sína, færa mjög út kvíarnar og bæta mjög við sig starfsliði.

Ýmislegt fleira mætti upp telja, sem veðurstofan hefur orðið að taka að sér, síðan lögin um hana voru sett, en þetta eitt nægir til þess að benda á, að Veðurstofa Íslands í dag er ekki nema að hverfandi litlu leyti sú stofnun, sem hún var, þegar lögin um hana voru sett upphaflega, þau lög, sem enn þá gilda óbreytt. Það hefur því verið ljóst nú um nokkurn tíma, að mikil nauðsyn væri á því, að ný löggjöf yrði samin fyrir Veðurstofu Íslands.

Ég sneri mér á s.l. ári til forstjóra veðurstofunnar, og í samráði við hann fékk ég Þórð Eyjólfsson hæstaréttardómara til þess að endurskoða gildandi lög um Veðurstofu Íslands og semja nýtt frv. að lögum fyrir hana. Þetta frv. liggur nú hér fyrir hv. Alþingi. Mér þykir rétt að taka það fram, að auk þess sem hæstaréttardómarinn hefur samið þetta frv. algerlega í samráði við forstjóra veðurstofunnar, þá hefur einnig verið haft samráð við veðurfræðingana á veðurstofunni og málið borið undir þá bæði í heild og í einstökum atriðum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svo stöddu að fara út í einstakar greinar eða einstök atriði í þessu frv., því fylgir mjög ýtarleg og greinargóð grg., en ég vil aðeins taka fram, að frv. er í einu og öllu byggt á þeirri starfsemi, sem veðurstofan þarf nú að fást við, og þeirri starfsemi, sem vitað er að veðurstofan kemur óhjákvæmilega til að þurfa að fást við í næstu framtíð. Er það álit þeirra, sem um þetta frv. hafa fjallað, að það fullnægi algerlega þeim kröfum, sem gerðar eru til rekstrar Veðurstofu Íslands í dag, og þeim kröfum, sem gerðar eru til annarra sambærilegra stofnana hjá öðrum þjóðum.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að þegar þessari 1. umr. um frv. er lokið, þá verði því vísað til 2. umr. og allshn.