10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

100. mál, skattur á stóreignir

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Innihald þessa frv. er einvörðungu, að frestur verði gefinn til að ljúka álagningu stóreignaskatts til febrúarloka 1958. En í lögunum, eins og þau voru samþ. á sínum tíma, var gert ráð fyrir, að hægt yrði að ljúka álagningunni fyrir áramót. Þetta hefur verið talið nauðsynlegt, og voru gefin út um þetta brbl. í þinghléinu, og er hér ráðgert, að þau verði staðfest.

Ég skal taka fram, að mér finnst sjálfsagt, að þessi brbl. fái sína staðfestingu, en ég vil taka fram, að stóreignaskattsálagningunni er nú lokið. Ég hef því miður ekki hér þá bráðabirgðaskýrslu, sem ég hef fengið um það. En ég hygg það muni rétt, að heildarskatturinn skv. þeirri álagningu muni nema um nálega 135 millj. kr., og er þá eftir að taka til greina kærur, sem koma, þannig að skatturinn verður nokkru lægri, en þetta endanlega.