07.03.1958
Efri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

100. mál, skattur á stóreignir

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég mun í annan tíma ræða almennt um fjármálin. Það er ekki laust við, að það sé dálítið einkennilegt, þegar þessi hv. þm. með forsögu sína í þeim efnum vill sérstaklega fara að ræða um þau málefni almennt. Ég skal sem sagt ekki fara út í það við þessa umr., en þau verða vafalaust tekin fyrir til umræðu síðar hér, og gefst þá tækifæri til þess. En fáein orð vildi ég segja út af því, sem hv. þm. Vestm. sagði um málið sjálft, sem fyrir liggur.

Ég vil fyrst taka það fram, að ég gleymdi að benda á eitt mjög þýðingarmikið atriði, sem sýnir, hversu þessi skattur er lagður á af miklu meiri nærfærni, en sá skattur, sem hv. þm. Vestm. átti drjúgan þátt í að leggja á um árið, og það er, að nú er sparifé og yfirleitt öll eign í peningaverðmætum bókstaflega undanþegin skattinum, ofan á það, að mötin eru vægari yfirleitt, en þau voru þá.

Hv. þm. sagði, að ég vildi eigna stóreignaskattslöggjöfina frá 1950 sjálfstæðismönnum einum að öllu leyti. Það sagði ég ekki. Hitt sagði ég, að sjálfstæðismenn hefðu ætíð síðan gortað af því, að þeir hefðu staðið fyrir því, að efnahagsmálin voru þá leyst á þann hátt, sem þau voru leyst, og þ. á m. með álagningu stóreignaskattsins. Ég sagði, að þeir hefðu gortað af þessu og að þeir hefðu sagt þjóðinni það síðan, að þetta hefði fyrst og fremst verið þeirra verk. Og hv. þm. hefur gott af því að vera minntur á þetta, vegna þess að hann talaði hér um þetta mál eins og stóreignaskattinum hefði þá verið skotið inn í efnahagstillögurnar vegna pressu frá Framsfl. En það sanna er, að stóreignaskatturinn var í þeim till., sem Sjálfstfl. lagði fram og gortaði sem mest af og hefur gortað sem mest af síðan.

Ég held, að hv. þm. hefði átt að reyna að kynna sér ögn betur bæði málið sjálft og sögu þessara mála, áður en hann fór að halda hér eins konar eldhúsdag út af stóreignaskattinum.

Hv. þm. dró nú dálítið úr hinum fólskulegu ummælum sínum um mötin, sem hann hafði í fyrri ræðu sinni, og sagði, að þegar hann hefði talað um fölsuð möt, ætti hann ekki við yfirmatsmenn fasteigna. En hvað getur hv. þm. þá verið að tala um fölsuð möt eða ranglát möt, þegar það er opið hverjum manni að áfrýja mötunum einmitt til þessara manna, sem hann vildi ekki kalla neinum ónöfnum eða þeirra niðurstöður falsaðar?

Ef einhverjum finnst hann vera órétti beittur í mati af landsnefndinni, t.d. á fasteignum, ef hún hefur hækkað fasteignamatið, þá getur sá hinn sami leitað til þessara manna. Og ætli það sé ekki réttast fyrir þennan hv. þm. að bíða og sjá þá, hvað þeir gera, áður en hann fer fyrir fram að slá því föstu, að þeirra niðurstöður hljóti að vera fölsun og með öllu óréttmætar í garð þeirra, sem eiga að borga skattinn? Ætli það væri ekki ögn viðkunnanlegra fyrir þennan hv. þm. að biða eftir úrslitum í málum þeirra, sem kvarta, áður en hann fer að flytja slíka sleggjudóma hér á Alþ.?

Þá talar hv. þm. enn um handlangara og fór svo að reyna að laga þetta í garð embættismannanna og kallaði þá frumverkfæri og loks verkfæri. Ég tel það alveg ótíndan dónaskap, að þingmaður skuli hér á hv. Alþ. leyfa sér að velja embættismönnum ríkisins þessi heiti í þeim tón, sem hv. þm. gerði. Það er gersamlega óviðeigandi og fyrir neðan virðingu þingmanna að ausa skömmum á fjarverandi embættismenn ríkisins fyrir það eitt að framkvæma þá löggjöf, sem Alþ. hefur sjálft sett, og fyrir að þræða bókstaflega þau ákvæði, sem í löggjöfinni eru. Hvað eiga mennirnir að gera annað en þetta? Ef á að deila á einhvern, þá á að deila á þá, sem settu lögin, en ekki embættismennina, sem eru að vinna sín skylduverk við að framkvæma þau, því að í löggjöfinni er tekið fram, eftir hvaða reglum skuli vinna. Það er tekið fram í löggjöfinni, eftir hvaða reglum skuli meta fasteignir og eftir hvaða reglum skuli meta skip, og embættismennirnir eru þar alveg bundnir af löggjöfinni. Ef þar er eitthvað óeðlilegt eða rangt, þá er það löggjafanum að kenna, en ekki þessum mönnum.

Þá minntist hv. þm. á dæmi um það, sem hann kallaði skattlagningu á hlutabréf Eimskipafélagsins, og sagði, að 750 kr. bréf væri metið á 75 þús. kr. (Gripið fram í: 77.) – 77 þús. kr., og fór um þetta mörgum hörðum orðum. Nú er sannleikurinn sá, eins og hv. þm. hlýtur að vita, ef hann kynnir sér málið, að mat á skipum Eimskipafélagsins er algerlega byggt á reglum laganna um, hvernig skuli meta skip til skatts, og um það efni gilda sams konar reglur varðandi kaupskip og í þeirri löggjöf, sem Framsfl, og Sjálfstfl. stóðu að á árunum. Þetta hefði hv. þm. líka gott af að rifja upp. Alveg sama regla gildir gagnvart eignum Eimskipafélagsins og þá, og hv. þm. stóð þá að því að setja hana. Ef Eimskipafélagið er óánægt með matið á skipunum, getur það áfrýjað til manna þeirra, sem í lögunum greinir, og fengið yfirmat á þeim. Það á að vera til þess að tryggja, að það komi ekki til mála, að eignirnar séu ofmetnar, eftir þeim reglum, sem í lögunum eru ákveðnar. Það, sem hér hefur gerzt, er einfaldlega það, að peningaverðmæti hefur breytzt svo gífurlega á þessu tímabili síðan Eimskipafélagið var stofnað, að það er náttúrlega hrein fölsun að bera saman athugasemdalaust tölur þá og nú. Það er hrein fölsun að bera saman krónu þá við krónu nú. Það er hrein fölsun í samanburði að gera slíkt athugasemdalaust, eins og hv. þm. Vestm. gerði, fyrir nú utan það, sem þar kemur til viðbótar, að sem betur fer hefur þróunin orðið sú, að Eimskipafélaginu hefur vegnað vel og það hefur eignazt stórkostlegar eignir, sem koma þarna inn í líka, þegar metið er, hversu miklar eignir standi þar saman og á bak við þau bréf, sem menn eiga. Það verður harla litið úr öllum stóryrðum hv. þm., þegar þessi atriði eru höfð í huga, og allra sízt situr það á honum að gera harða hríð út af þessu efni, þar sem hér er farið eins að og þegar hann og hans flokkur stóðu að hliðstæðri löggjöf.

Hv. þm. var að segja frá öðru dæmi, sem satt að segja var svo óljóst, að ég náði ekki tökum á, hvernig það var vaxið. Mér skildist það vera eitthvað um fasteign. En í lögunum eru alveg tiltekin ákvæði um fasteignir, og ég hef engan mann heyrt halda því fram, að þau ákvæði væru þannig, að það kæmi til greina, að nokkur fasteign væri metin umfram það, sem hím væri raunverulega verð.

Þá minntist hv. þm. á innstæður, sem menn ættu í Skreiðarsamlaginu, og taldi fullkomna óhæfu, að þær væru taldar með eignum til stóreignaskatts. Ég skildi ekki þetta dæmi hv. þm. Mér skildist, að eignin væri talin sexfalt meira virði, en hún væri færð í bókum Skreiðarsamlagsins. Ef þetta er rétt hjá hv. þm., þá hlýtur það að stafa af því, að eignin er miklu lægra bókfærð, en hennar raunverulega verðmæti er. Það kom ekkert fram hjá hv. þm., hvaða eignir það eru, sem eru á bak við þessar tölur hjá Skreiðarsamlaginu, en ef það er skip eða ef það er fasteign eða eitthvað þess konar, þá sýnir þetta bara það, að eignin er miklu lægra færð í bókum Skreiðarsamlagsins, en verðmæti hennar raunverulega er samkvæmt reglum laganna, Hv. þm. minntist ekkert á, hvort þarna væri um fasteign að ræða eða hvaða eign þetta væri. En innstæða getur þetta alls ekki verið í lánsstofnunum, því að þá hefði auðvitað aldrei komið til mála annað, en hún væri talin með því verði, sem hún er bókuð.

Þá talaði hv. þm. talsvert um þá ósvífni að margfalda, eins og hann kallaði það, hlutabréf í verði, og skattleggja þau þannig. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. hefði viljað hafa þetta. Þetta er alveg eins og það var í fyrri löggjöfinni, og þá þótti hv. þm. þetta ágætt, þó að honum þyki það nú skakkt. En látum það vera. En hvernig hugsar þm. sér að farið sé að til að fá réttláta niðurstöðu? Við skulum hugsa okkur, að félag eigi það miklar eignir, að það eigi hlutaféð margfalt. Á þá bara að sleppa því að borga stóreignaskatt af því, sem er umfram nafnverð hlutabréfanna, eða hvað? Er það meining hv. þm.? Og hvaða sanngirni væri þá í því gagnvart öðrum, sem ættu að borga af öllum sínum eignum? Auðvitað er engin glóra í þessu. Þetta er alveg glórulaust. Til þess að fá nokkra sanngjarna niðurstöðu í þessu máli verður að meta allar eignir í landinu eftir sömu reglu og leggja saman þær eignir, sem hver einstaklingur á, hvar sem þær er að finna, þegar um stighækkandi álag er að ræða. Hitt væri herfilegt ranglæti, sem ég býst ekki við að nokkrum manni hafi dottið í hug nema þá hv. þm. Vestm. að gæti komið til mála, ef hv. þm. segir þetta þá ekki bara vegna þess, að hann er í hernaðarskapi í sambandi við þessa löggjöf yfirleitt og tínir því allt til, sem honum dettur í hug, án þess að íhuga það grandgæfilega. Ég trúi því ekki, að það geti verið meining hv. þm., að slíkt ranglæti væri viðhaft, að allar eignir hlutafélaga, sem væru umfram nafnverð hlutabréfa, hversu stórfelldar sem þær væru, skyldu vera skattfrjálsar og koma hvergi til greina við álagningu skattsins.

Svo var hv. þm. að tala um, og gerðist skáldlegur nokkuð, að við værum með sovétmönnum á eins konar kúlakkaveiðum í sambandi við þessa skattálagningu. En það er ástæða til að benda á, hvað þetta er skoplegt, að hv. þm. skuli standa hér og halda þessa ræðu, því að þessi skattlagning er sams konar framkvæmd og Framsfl. og Sjálfstfl. stóðu að hér á árunum. Það þótti ágætt þá, en nú vill hv. þm. jafna þessu til ofsókna og ferlegra hryðjuverka. Sýnir þetta, hvað augnabliksbráðræði getur hlaupið með skynsama menn í gönur, að hv. þm. Vestm, skuli flytja mál sitt á þessa lund.

Loks sagði hv. þm. Vestm., að það væri talsvert um það talað, að þessi skattur væri brot á stjórnarskránni, og ýmsir skynsamir menn létu sér það um munn fara. Það er alveg nákvæmlega eins og 1950. Þá töluðu þeir, sem áttu að borga skattinn, mjög um, að þetta væri brot á stjórnarskránni, og fluttu og fóru í mál, sem byggt var á þeirri skoðun. En skatturinn var að sjálfsögðu dæmdur löglegur, og mér dettur ekki í hug, að annað gildi um þennan, en þann.