07.03.1958
Efri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

100. mál, skattur á stóreignir

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. ráðh. sagðist ekki hafa skilið sumt, sem ég var að vitna í. Það má vel vera, að ég hafi ekki verið nógu ljós í skýringum á því eða þá ekki nógu fastmæltur. Mér virðist hann hafa skilið sumt, og jafnvel lagt meira upp úr því á öðrum sviðum.

Skreiðarsamlagið nefndi ég af því, að mér er málið skylt. Ég var þar að skýra frá því, að séreignasjóður, - ég tók það fram áðan, og ég veit, að hæstv. ráðh. hlýtur að skilja það, séreignasjóður, sem hefði verið 540.825 kr. 31/12 1955, væri áætluð eign núna 3 millj. kr., og aðrar eignir, en séreignasjóðinn, er ekki hjá þessu fyrirtæki um að ræða. Samlagið hefur tvisvar sinnum, hvort árið eftir annað, — það er nú ekki nema eitthvað 5 eða 6 ára gamalt, — tvisvar sinnum verið úrskurðað skattfrjálst, af því að það á engar eignir. Þetta er ekkert annað en samlag manna, sem eru að selja vöru sína, og ég tel og við teljum allir, að það sé fráleit margföldun að gera félaginu 3 millj. kr. eign og skattleggja meðlimina eftir því, þar sem það er sannanlegt, að séreignasjóðurinn var 540 þús. á umræddu tímabili. (Fjmrh.: En í hvaða eignum stendur þetta?) Séreignasjóðurinn stendur vitaskuld í peningum, hann er í rekstri félagsins. Hann stendur sem sagt í peningum. Það er engar fasteignir þar um að ræða. Nú vona ég, að hæstv. ráðh. hafi skilið þetta atriði. (Fjmrh.: Ekki geta peningarnir verið sexfaldaðir í mati?) Ég hef það ekki eftir svo slæmum heimildum, að ég taki neinni leiðréttingu á því, en annars getur hæstv. ráðh, sennilega fengið fljótlega að vita hjá sínum þjónustubundnu öndum í þessum málum, á hvern hátt þeir eigna félaginu 3 millj. nú, sem ekki átti nema 540 þús. þetta ár, sem ég talaði um.

Svo segist hann ekki heldur hafa skilið, þar sem ég tók til fasteign, sem mér er kunnugt um. Það hélt ég mig ekki hafa farið svo með, að það væri ekki auðskilið mál. Ég held, að ég hafi það plagg hérna enn þá. Ónafngreindur stóreignaskattsgreiðandi er búinn að eiga sömu fasteignina í tugi ára. Gamla fasteignamatið var um 245 þús. Aðrar eignir á skattgreiðandinn litlar. Nettóeign hans hefur lækkað, frá því að stóreignaskatturinn var lagður á skv. lögum frá 1950. Stóreignaskattur lagður á hann var árið 1950 170 þús., en er nú 579 þús. Ég ætla, að ég þurfi ekki að tyggja þetta meira ofan í hæstv. ráðh., hann hlýtur að skilja núna þetta dæmi, hvort sem hann metur það nokkurs eða ekki.

Hæstv. ráðh. var sem fyrr, þegar við hann er mælt, — fyrir utan náttúrlega, að það sé skoplegt, að ég sé að tala um þessi mál, o.s.frv., eða ég eða aðrir þm., — en hann var inni á gömlu línunni „éttu hann sjálfur“, sem honum er svo ákaflega tamt í ræðum, og var að vitna í stóreignaskattinn frá 1950, sem Sjálfstfl. hefði borið ábyrgð á, að settur var á, með framsóknarmönnum. Ég hef ekki neitað því, að Sjálfstfl. stóð að þeirri löggjöf, sem á því ári var sett, gengislækkuninni og öðru, með framsóknarmönnum. Sá stóreignaskattur var sérstaklega settur á með tilliti til gengislækkunarinnar, var alveg sérstaklega liður í þeim athöfnum. Og um gengislækkunina vitum við báðir, hvernig háttað var, að hæstv. ráðh. og hans flokkur gekkst fyrir vantrausti á ríkisstj., sem Ólafur Thors veitti forstöðu. Sjálfstfl. vildi þá gengislækkun, og Framsfl. undir sömu forustu og hann er nú, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., gekkst fyrir vantrausti á Sjálfstfl. þá, sem var í minni hluta í þinginu, en framsóknarmenn settu á gengislækkun strax á eftir undir annarri stjórnarforustu, svo að heilindin í gengislækkunarmálinu voru ekki meiri þá, en endranær og ekki meiri, en raun bar vitni. Hann segir, að sjálfstæðismenn hafi iðulega gortað af þessari löggjöf. Sjálfstæðismenn hafa á máli hæstv. ráðh. gortað, þeir hafa sagt sem var, að þeir gengust þá fyrir því að halda áfram framleiðslunni í landinu, útgerðinni og öðru, með þeim ráðum, sem sett voru með gengislækkunarlögunum og öllu því, sem þeim fylgdi. En ef það á að fara að tala um það, hverjir gorti mest, þá held ég, að hæstv. ráðh. ætti að lita í eigin barm og sínar mörgu þingræður, sem eru þrungnar af gorti, og ekki hvað sízt þá yfirlýsingu, sem hann sjálfsagt hefur orðað sjálfur í nafni miðstjórnar flokksins og var lesin yfir öllum landslýð nú fyrir nokkrum dögum og var svo gortfúll, að það gekk fram af öllum, sem ég vissi um að hlustuðu á hana. (Fjmrh.: Það hafa nú verið sjálfstæðismenn.) Ja, það getur vel verið, að það hafi verið bæði þeir og aðrir.

Hæstv. ráðh. veittist að minni fjármálastjórn hér og sagði, að það væru svo sem snöggir blettir á henni o.s.frv. Ég hef alltaf verið reiðubúinn að velja þær gerðir, sem fóru fram, þegar ég var fjmrh. Og hæstv. ráðh. sá fyrir því, að ef einhvern snöggan blett hefði verið að finna, sérstaklega áfellisdóma yfir mér, þá sá hann fyrir því, löngu eftir að ég hætti að vera starfandi í fjmrn., að ég var eltur á röndum af blaðakosti fjmrh. mánuðum saman, og einn af hans tryggustu fylgismönnum hér á þingi fór að taka mig fyrir í þinginu í fsp., löngu eftir að ég hafði látið af embætti, fsp., sem átti að vera mér til áfellis.

Ég segi á hinn bóginn ekki, að mér hafi verið allt vel gefið í því efni. En ég held, að fjmrh., sem fékk annan eins keytuþvott og hann fékk í boði seðlabankastjórans fyrir fáum dögum, ætti ekki að vera að vitna í fjármálastjórn mína eða annarra, því að það hlýtur honum að vera minnisstætt um fjármála- og efnahagslífið í landinu, hvert þrifabað sá hái herra, seðlabankastjórinn, sá sig neyddan til að veita ráðh. á eftir mat og drykk.